Þjórsárver verða friðuð.

Pistlar
Share

Enn skrifa ég um Þjórsárver. Þetta er þriðji pistill í röð um málið. En það er vegna þess að nánast á hverjum degi eykst stuðningurinn við friðun Þjórsárvera innan Framsóknarflokksins. Fyrsti pistillinn heitir Þjórsárver verði friðuð, en nú hefur fylgið við friðun veranna aukist svo að ég leyfi mér að kalla þennan pistil: Þjórsárver verða friðuð. Þarna munar einum staf í einu orði, verða kemur í stað verði. Það lýsir hinni miklu breytingu sem orðið hefur á 10 dögum.

Föstudaginn 6. janúar birti fréttablaðið á forsíðu viltal við mig þar sem ég lýsi þeirri skoðun minni að slá eigi af framkvæmdirnar við Norðlingaöldu og kemst blaðið að þeirri niðurstöðu að meirihluti nefndarmanna í Umhverfisnefnd Alþingis séu andvígir framkvæmdunum, auk þess er formaður nefndarinnar, Guðlaugur Þór Þórðarson, hugsi yfir málinu og er greinilega á báðum áttum. Sunnudaginn 8. janúar segir Iðnaðarráðherra í viðtali við NFS að framkvæmdirnar sé honum ekkert hjartans mál og segist aðeins vera að framfylgja vilja Alþingis. Þar með er ráðherrann greinilega hættur að tala fyrir framkvæmdum.

Um þessa helgi verða ný tíðindi. Á laugardaginn segir forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins í Fréttablaðinu að hann viti ekki til þess að neinn kaupandi sé af raforku frá þessari umdeildu framkvæmd og segir að menn verði að gefa sér tíma til þess að fara yfir málið. Síðan fara frambjóðendur í prófkjöri flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík að láta málið til sín taka. Vitað var að Óskar Bergsson er hlynntur friðun Þjórsárvera og menn þekkja verk hans sem formanns Samvinnunefndar um miðhálendið. Til þessa hefur hann haft sérstöðu í málinu af frambjóðendunum, en það breyttist um helgina.

Fyrst kom fram á völlinn á laugardaginn Gestur Guðjónsson umhverfisverkfræðingur. Á heimasíðu sinni skrifaði hann pistil sem hann nefndi verndum Þjórsárverin. Þar segir hann að Reykjavíkurborg eigi að beita áhrifum sínum sem 45% eigandi að Landsvirkjun til þess að vernda þá perlu íslenskrar náttúru sem Þjórsárverin eru. Að auki segir hann: "Þjórsárverin hafa mikla alþjóðlega þýðingu, bæði hvað gróðurfar varðar sem og vegna dýralífs. Öll röskun á þessu svæði hefur mikil áhrif á þetta viðkvæma vistkerfi og má ekki gera neitt sem rýrir það eða gæti rýrt það. Gildir einu um hvort svæði sé innan einhverrar línu á korti eður ei."

Í gær kom svo annar frambjóðandi út úr skápnum. Björn Ingi Hrafnsson segir á heimasíðu sinni að leggja eigi áform um Norðlingaölduveitu til hliðar. Vísar hann til þess að nú sé hægt að útvega orku frá Hellisheiðarvirkjun til stækkunar álveri á Grundartanga og að málið sé umdeilt meðal heimamanna á Suðurlandi.

Það fer ekki milli mála að það hefur orðið kúvending í málinu innan Framsóknarflokksins. Þegar ég flutti tillögu um friðun veranna á flokksþingi Framsóknarflokksins ásamt Steingrími Hermannssyni fyrir tæpu ári með stuðningi Óskars Bergssonar og nokkurra annarra umhverfissinnaðra félaga mættum við þungri andstöðu valdamikilla manna. Nú hafa þeir ýmist látið af andstöðu sinni eða jafnvel snúið við blaðinu. Það er fagnaðarefni því það sýnir að menn hafa áttað sig á rökunum fyrir málinu og kannski það sem mestu máli hefur skipt, að kjósendur hafa sýnt svo ekki verður um villst að þeir láta málið ráða afstöðu sinni til flokkanna.

Það er ekki vænlegt til árangurs að berjast fyrir máli sem kjósendur eru á móti. Bág staða Framsóknarflokksins í höfuðborginni er kannski ekki tilviljun heldur skýrist að einhverju leyti af málatilbúnaðinum. Ekki verður hún skýrð með því að ágreiningur sé meðal þeirra sem starfa fyrir flokkinn í borgarmálunum. Mér sýnist að þar hafi menn hafi talað hinni margfrægu einni röddu. En fylgið við Framsóknarflokkinn hefur minnkað. Það er nefnilega þannig að allt á sín takmörk, stóriðjustefna sem annað og umhverfismál eru mál sem kjósendur telja mikilvæg og stjórnmálaflokkur verður að endurspegla þau viðhorf, ætli hann að afla sér stuðnings kjósenda.

Ég var á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi um helgina. þar bar á góma Norðlingaölduveitu og afstöðu mína til verndunar Þjórsárvera. Ég fór yfir það mál og skýrði viðhorf mín. Máli mínu lauk ég með því að spá því að afstaða flokksins myndi breytast í málinu af þeirri einföldu ástæðu að það væri leiðin til þess að ná til kjósenda í Reykjavík. Flokkurinn væri með lítið fylgi,skv. skoðanakönnunum, innan við 5% í öllum könnunum og aðeins 1-2% í þeirri síðustu, og frambjóðendur flokksins myndu snúast til fylgis við friðun Þjórsárvera. Ég var alveg viss um þetta svo ég leyfði mér að halda þessu fram. Það sem kemur mér á óvart er að spáin rætist svo fljótt sem raun ber vitni. Sjálfstæðismenn munu líka taka þennan pól í hæðina, af sömu ástæðu. Þjórsárverin verða friðuð, það er niðurstaðan.

Afstaða almennings ræður, enda kosningar framundan. Lýðræðið virkar.

Athugasemdir