Ekkert hjartans mál.

Pistlar
Share

Iðnaðarráðherra upplýsir síðastliðinn sunnudag í viðtali við NFS að í hans huga sé það ekkert hjartans mál að virkja við Norðlingaöldu. Það er mikil stefnubreyting. Fram að þessu hefur ráðherrann viljað framkvæmdirnar, talaði fyrir þeim á flokksþingi Framsóknarflokksins á síðasta ári og talaði gegn tillögu minni og Steingríms Hermannssonar um stækkun friðlandsins við Þjórsárver og að hætta við öll áform um framkvæmdir.

Ég fagna þessari yfirlýsingu ráðherrans. Hún þýðir að ráðherrann talar ekki lengur fyrir framkvæmdum. Hún þýðir líka að ráðherranum yrði ekki sárt um þótt hætt verði við öll áform um framkvæmdir.

Í framhaldi af ummælum sínum “persónulega þá er þetta ekkert hjartans mál í mínum huga” sagði iðnaðarráðherra ennfremur “ég var bara að gegna mínum skyldum í raun með því að fara að vilja Alþingis og heimila framkvæmdina”. Þetta er ekki síður mikilvæg yfirlýsing. Með henni undirstrikar ráðherrann að hann leggi sjálfur ekkert til heldur vísar málinu til Alþingis, löggjafarvaldið eigi að kveða uppúr með vilja sinn.

Alþingi ákvað á sínum tíma í lögum um raforkuver að samþykkja Norðlingaölduveituna í samræmi við úrskurð setts umhverfisráðherra eins og hann var þá túlkaður. Þess vegna er það hárrétt hjá Iðnaðarráðherra að menn eigi að taka málið upp á Alþingi og marka þar stefnuna. Það verður næsta skref, menn láta ekki segja sér það tvisvar.

Ég tel eðlilegast að Alþingi samþykki skýra og ótvíræða ályktun um stækkun friðlandsins og að hætt verði við öll áform um framkvæmdir, rétt eins og við Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins lögðum til á flokksþinginu í fyrra. Best væri að þingmenn úr öllum flokkum sameinuðust um málið. Þá verður góð samstaða um gott mál.

Mál sem samkvæmt bestu fyrirliggjandi upplýsingum er þjóðarinnar hjartans mál.

Athugasemdir