Flokkseigendafélagið og sýndarlýðræði.

Pistlar
Share

Í dag birtist í Fréttablaðinu ný könnun um fylgi flokkanna í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Framsóknarflokkurinn fær ekki mann kjörinn en þó er fylgið heldur meira en í öðrum könnunum að undanförnu og mælist 5,4%.

Það finnst mér þó athyglisverðast við könnunina að hún sýnir að fylgi flokkanna hefur ekkert breyst frá síðustu könnun blaðsins fyrir 5 mánuðum. Frá 29. ágúst 2005 er breytingin svo lítil að það tekur því ekki að tala um hana, hún er innan skekkjumarka. Svörun er frekar lítil svo líklega eru skekkjumörkin víðari en t.d. hjá Gallup, en það á við um alla flokka og líklega báðar kannanirnar.

Það vakti athygli mína í þættinum Silfri Egils í dag að Egill Helgason spurði hvort flokkseigendafélagið stæði á bak við framboð Björns Inga Hrafnssonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins. Það er ástæða fyrir þessari spurningu þegar að er gáð.

Frambjóðandinn er einn nánasti samstarfsmaður formanns flokksins. Þangað sækir hann pólitískan styrk og áhrif. Yfirlýstir stuðningsmenn hans eru félagsmálaráðherra og einn þingmanna flokksins í Norðausturkjördæmi. Þau voru öll þrjú samstarfsmenn á skrifstofu flokksins á síðasta kjörtímabili og hófu þaðan sókn sína til frama innan flokksins.

Meðal annarra yfirlýstra stuðingsmanna Björns Inga eru allir aðstoðarmenn ráðherra Framsóknarflokksins, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og þingmaður Vesturlands, formaður fjáröflunarnefndar flokksins og formaður Kjördæmassambands framsóknarfélaganna í Reykjavík norður svo einhverjir séu nefndir.

Þetta er yfirþyrmandi samansafn helstu valdamanna flokksins, innan sem utan sveitarfélagsins, sem eru að gefa út sinn vilja um það hver eigi að taka við forystusætinu af Alfreð, sem ákvað skyndilega að hætta þvert á fyrri yfirlýsingar. Hvers konar prófkjör er háð við þessar aðstæður? Flokkseigendafélagið, sem Egill kallar svo, hefur gefið út línuna, það dylst engum. Þeir sem vilja styða aðra frambjóðendur til forystu í Reykjavík, svo sem Önnu Kristinsdóttur eða Óskar Bergsson, eru settir í þá aðstöðu að ganga gegn vilja valdamikilla manna í flokknum með stuðningi sínum við þau.

Hvað næst? Munu aðstoðarmenn ráðherranna gefa út yfirlýsingu um það hver eigi að leiða flokkinn í öðrum sveitarfélögum, svo sem á Akureyri eða í Ísafjarðarbæ? Hvað svo með alþingiskosningarnar, eigum við þá von á statement frá aðstoðarmanni forsætisráðherra eða sameiginlega frá aðstoðarmönnum ráðherra flokksins um það hver eigi að skipa efstu sæti á lista flokksins í einstökum kjördæmum, t.d. í Norðvesturkjördæmi? Munu formenn kjördæmasambandanna útdeila stuðningsyfirlýsingum eða ætlar alþingismaður Norðausturkjördæmis að blanda sér í uppstillinguna í öðrum kjördæmum, t.d. í Reykjavík norður?

Hér eru menn komnir út fyrir öll eðlileg mörk. Í prófkjöri eiga þátttakendurnir að velja milli frambjóðenda út frá þeirra eigin verðleikum og forystumennirnir eiga að halda sér til hlés. Prófkjör er birtingarform lýðræðis og menn eiga að virða valfrelsi kjósendans. Sýndarlýðræði er engum til gagns.

Athugasemdir