Stærstu mistökin.

Pistlar
Share

Ég var að koma af fundi umhverfis- og auðlindanefndar Norðurlandaráðs, en þangað voru nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd Alþingis boðaðir til þess að ræða við norræna þingmenn um íslensku fiskveiðistjórnunina. Sænskur þingmaður beindi þeirri spurningu til okkar: hver hefðu verið stærstu mistökin sem gerð voru þegar kvótakerfinu var komið á?

Það er oft gott að ræða málin við fólk sem ekki hefur tekið þátt í umræðunni og deilunum hér heima. Það kemur opið og fordómalaust að málinu. Eftir að norrænu þingmennirnir höfðu spurt um kerfið, kosti þess og galla og heyrt svör íslensku þingmannanna fimm, sem voru til svara, kom þessi spurning: hver voru stærstu mistökin.

Eftir nokkra umhugsun svaraði ég spurningunni þannig: Það eru einkum þrjú atriði sem fóru úrskeiðis. Í fyrsta lagi var úthlutun aflaheimildanna ótímabundin. Það veldur því að aflaheimildir losna ekki til endurúthlutunar. Helsti galli kerfisins er einmitt óeðlilega hátt verð á heimildunum, innkoma nýrra manna í greinina er því svo gott sem ómöguleg og samkeppni í greininni er lítil. Það leiðir til stöðnunar.

Annað sem leiðir af þessum mistökum er að útgerðarmenn gera kröfu um að vera viðurkenndir eigendur heimildanna, þrátt fyrir lagaákvæði um að þær séu þjóðareign og almenna pólitíska samstöðu um það. Nokkrir útgerðarmenn hafa nú boðað málshöfðun fyrir dómstólum til þess að fá viðurkenndan eignarrétt sinn. Þessi krafa hefði ekki komið upp ef heimildirnar hefðu verið tímabundnar.

Í öðru lagi svaraði ég því til að það hefðu verið mikil mistök að heimila útgerðarmönnum að selja aflaheimildir sem þeir höfðu ekki keypt og hirða allan ágóða af sölunni. Þessi mistök leiddu af sér eina allra stærstu gjöfina frá stjórnmálamönnum til fáeinna einstaklinga sem um getur í Íslandssögunni. Verðmætin í aflaheimildunum áttu og eiga að vera eign þjóðarinnar, sérstaklega í frumúthlutuninni. Eðlilegt er að útgerðarmenn fái úr andvirði seldra veiðiheimilda, hlut sem stendur undir þeirra kostnaði við að afla heimildanna, og einhvern ágóðahlut.

Loks nefndi ég það sem mistök að ekki hefði verið settar skorður við því hversu mikið af aflaheimildum mætti færa úr einstökum byggðarlögum. Algerlega voru bornir fyrir borð hagsmunir þeirra sem búa í byggðarlögunum og eiga sitt beint eða óbeint undir sjávarútvegi.

Þessi þrjú atriði eru ekki tæmandi, en gera að mínu mati ágætlega grein fyrir helstu mistökunum sem voru gerð, og með því að benda á þessi atriði sérstaklega felst ábending um hverju þarf að breyta. Tillögurnar sem ég setti fram í ræðu minni á sjómannadaginn á Patreksfirði endurspegla þessa greiningu.

Athugasemdir