Ójöfnuðurinn liggur í fjármagnstekjunum

Pistlar
Share

Fjármagnstekjur hafa tífaldast á síðustu 10 árum. Árið 1994 voru tekjurnar samtals 6,2 milljarðar króna en í fyrra voru þær komnar upp í 63.857 milljónir króna. Á sama tíma liðlega tvöfölduðust launatekjurnar. Dreifing fjármagnstekna eftir tekjubilum er með allt öðrum hætti en dreifing launatekna og það veldur því að ójöfnuður vex í þjóðfélaginu.

Aðeins 5% framteljandanna fengu samtals 73% allra fjármagnsteknanna í sinn hlut. Næstu fimmtán prósent tekjuhæstu framteljendanna fengu 10% allra fjármagnsteknanna og þau 80% framteljendanna sem eftir standa fengu samtals rúm16% teknanna í sinn hlut.

Þetta er ótrúlega ójöfn dreifing. Um 11.000 manns, efstu 5% framteljendanna, fá samtals 46.5 milljarða króna. Það gefur hverjum og einum 4,2 milljónir króna að meðaltali, bara á síðasta ári. Allir hinir, 95% framteljendanna, fá um 83.000 kr. hver að meðaltali

Það er líka sláandi hve ójöfnuðurinn hefur vaxið á síðustu 10 árum í dreifingu fjármagnsteknanna. Árið 1994 fengu 5% hæstu framteljandanna um 42% af fjármagnstekjunum í sinn hlut, en í fyrra var hann orðinn 73% eins og áður segir. Það er greinilegt að örfáir Íslendingar eru að afla gríðarlegra tekna.

Fyrst og fremst með sölu hlutabréfa, sem skiluðu liðlega 30 milljörðum af öllum fjármagnstekjunum á síðasta ári Að auki nam arður af hlutabréfaeign um 8,5 milljörðum króna. Samtals gáfu viðskipti með hlutabréf og arður af þeim um 61% allra fjármagnsteknanna. Til samanburðar fengust aðeins um 2,3 milljarðar króna í vexti af innistæðum í bönkum sem eru innan við 4% fjármagnsteknanna.

Af fjármagnstekjum eru aðeins greiddur 10% skattur. Það er lítið í samanburði við launatekjur, en þar er meðalskattprósentan um 25%. Það er að segja um fjórðungur launatekna fer í skatt til ríkis og sveitarfélags. Skattur af launum er um 150% hærri en af fjármagni.

Þetta er allt of mikill munur og reyndar má segja að enginn haldbær rök séu fyrir þessum mun á skattlagningu. Menn hafa beygt sig fyrir þeim rökum að eigendur fjármagnsins myndu fara með það úr landi ef skatturinn yrði hækkaður, en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að una fáum ríkisbubbum að greiða lítið til samfélagsins af miklum gróða sínum.

Fjármagnstekjuskattur hér á landi er með því lægsta sem þekkist. Innan OECD, þar sem eru öll helstu iðnvæddu ríki veraldar, er aðeins eitt ríki með lægri skatt en Íslendingar, annað er með jafnháan skatt, en öll hin ríkin, um 30 talsins, hafa hærri skatt af fjármagnstekjum.

Við eigum að hækka fjármagnstekjuskattinn. ASÍ leggur til að hækka hann í 12%, það er sjálfsagt að taka undir það og jafnvel að hækka skattinn upp í 15%.

Hækkun fjármagnstekjuskattsins og lækkun skatts á lægri laun, hvort sem það er gert með lægri skattprósentu eða hækkun persónuafsláttar er nauðsynleg til þess að draga úr ójöfnuði og bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega.

Framsóknarflokkurinn er félagshyggjuflokkurinn í þessarri ríkisstjórn og það er hans hlutverk að gæta almannahagsmuna og koma í veg fyrir að vegið sé að þjóðfélagsgerðinni með ójöfnuði og þjónkun við fámenna sérhagsmunahópa.

Athugasemdir