Aðskilnaður rannsóknar og saksóknar – Björn og bara Björn.

Pistlar
Share

Fyrr í dag fór fram utandagskrárumræða um skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar í Baugsmálinu svo nefnda. Málhefjandi var Lúðvík Bergvinsson og varpaði hann fram tveimur spurningum. Sú fyrri var: á að breyta núverandi skipulagi, þar sem efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóraembættisins bæði rannsakar mál og gefur út ákæru.

Þeirri spurningu svara ég játandi. Reynslan frá Baugsmálinu og reyndar fleiri málum á undanförnum árum leiðir til þess. Efnahagsbrotadeildin hefur rannsakað stór mál og gefið út ákærur og fengið útreið fyrir dómsstólum. Nú síðast í Baugsmálinu, eftir þriggja ára rannsókn er öllum aðalatriðum í ákæruliðunum 40 vísað frá og eftri standa aðeins 8 atriði.

Upphaf Baugsmálsins var að tekin voru til rannsóknar tvö atriði, annað þeirra var meintur fjárdráttur nokkurra eigenda fyrirtækisins á sínum tíma með þeim hætti að gefa út reikning að upphæð 589 þúsund bandaríkjadala og láta fyrirtækið greiða sér hann. Sakborningum var sem sé gefið að sök að draga verðmæti út úr fyrirtækinu í eiginn vasa.

Við rannsókn málsins kom í ljós að reikningurinn var ekki debet heldur kredit. Sakborningar voru þá eftir allt að leggja inn verðmæti í fyrirtækið í stað hins gagnstæða. Þá hefði nú verið eðlilegt að rannsakendur hefðu lagt þetta atriði á hilluna og einbeitt sér að kanna hitt tilefnið og eftir atvikum að gefa út ákæru.

En það var öðru nær, nú hófst viðamikil rannsókn sem barst um víðan völl og að lokum þegar ákærur voru gefnar út þá voru sakborningar ásakaðir um að villa fyrir mönnum á markaði með því að láta líta svo út að verðmæti fyrirtækisins væri meira en rétt var. Algerlega var snúið á haus hver tilgangur ætlaðs brots var. Þessari ákæru var svo fleygt út úr Hæstarétti. Það er engu líkara en að aðalatriðið hafi verið að ákæra en ekki ákæruefnið.

Þetta dæmi leiðir hugann að stöðu rannsakendanna. Þeir eru búnir að eyða 3 árum í rannsókn og líklega má vænta þess að þeim finnist að allt erfiðið þurfi að skila árangri, sem verður helst mældur í ákærum og dómum. Þess vegna eigum við að skilja á milli rannsóknar og ákæru, eins og er í raun í flestum öðrum málum, þannig að þeir sem taki ákvörðun um saksókn og annist hana séu aðrir en þeir sem rannsökuðu. Það eru gömul og ný sannindi að enginn getur verið dómari í eigin sök.

Síðari spurning Lúðvíks var hvort dómsmálaráðhera eigi að segja sig frá því að skipa nýjan Ríkissaksóknara í Baugsmálinu og láta öðrum það eftir. Ástæða spurningarinnar er sú að Björn Bjarnason hefur tjáð sig mikið um málið allt frá byrjun og sett fram sterkar skoðanir um málið og mennina sem í hlut eiga.

Auðvitað hefur Björn fullan rétt til þess að taka afstöðu og setja hana fram. Það skiptir hins vegar máli þegar dómamálaráðherrann á í hlut og hann þarf að velja saksóknara. Þá er auðveldlega hægt að draga hlutleysi hans í efa og halda því fram að hann velji mann til starfans sem er líklegur til þess að endurspegla vilja ráðherrans.

Það ræðst þó af ummælum ráðherrans um málið og einstaka þætti þess og sakborninga. Því eindregnari sem andstaða hans eða andúð er ljós verður auðveldara að draga hlutleysi hans í efa þegar kemur að því að skipa saksóknarann. Núverandi ríkissaksóknari sagði sig frá málinu einmitt vegna þess að hann taldi að unnt væri að draga hlutleysi sitt í efa.

Það væri að mínu mati einungis sakborningum og verjendum þeirra greiði gerður, ef dómsmálaráðherra skipar sjálfur nýjan saksóknara, svo mörg og eindregin eru ummæli hans á undanförnum árum. Mér sýnist að þeir hafi næg efni til þess að véfengja fyrir dómi skipun saksóknarans, ef þeim sýnist svo, það er ekki sama hvort það er Björn dómsmálaráðherra eða bara Björn sem í hlut á.

Nema honum takist að fá mann til starfans sem verður óumdeildur. Svar mitt við spurningunni er að best væri að dómsmálaráðherra léti öðrum eftir að skipa nýjan saksóknara í málið.

Athugasemdir