Bankakerfið bregst.

Pistlar
Share

Fréttablaðið hefur upplýst að íslenska bankakerfið vill ekki lána til atvinnuuppbyggingar í Arnarfirði. Viðskiptabankinn, sem írskt stórfyrirtæki leitaði til, sagði nei, við lánum ekki.
Kalkþörungaverksmiðjan, sem á að reisa á Bíldudal, nýtir setlög í botni fjarðarins og vinnur úr þeim vöru sem fer í frekari vinnslu erlendis. Minnir verksmiðjan um margt á Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum, sem starfað hefur í nærri 30 ár og er nú að mestu í eigu erlendra aðila.

Verksmiðjan í Arnarfirðinum er talin verða arðbær, enda leggja írsku eigendurnir fram verulegt fé og auk þess kostar ríkissjóður Íslands að miklu leyti nauðsynlegar hafnarframkvæmdir á Bíldudal fyrir verksmiðjuna. En íslenski viðskiptabankinn, einn af þessum sem eru að hagnast um 66 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum þessa árs, sagði þvert nei.

Jafnvel þótt verkefnið sé arðbært þá vill bankinn ekki taka tryggingar fyrir láninu í verksmiðjunni af þeirri einni ástæðu að hún er á Bíldudal. Væri hún reist á höfuðborgarsvæðinu gegndi öðru máli, þá væri bankinn til í að lána. Upplýsingafulltrúi Landsbankans segir í Fréttablaðinu að bankinn láni ef tryggingar eru í lagi, hvort sem það er á landsbyggðinni eða í Reykjavík. Þeir hefðu kannski lánað til bjórverksmiðju á Bíldudal.

Það sem blasir við er það mat viðskiptabankans að tryggingar eru ekki í lagi ef þær eru í Arnarfirðinum. Það blasir líka við að bankinn, sem í hlut á, vill ekki taka þátt í atvinnuuppbyggingu fyrir vestan. Bankinn meira að segja vill beina uppbyggingunni suður.

Ekki urðu aðrir íslenskir bankar til þess að taka málið að sér. Það þurfti erlendan banka til þess að fjármagna verkefnið. Sá banki hafði trú á eigandanum, verkefninu og staðnum. Ekki íslensku bankarnir, þeir lána ekki. Ég er ekki grunlaus um að þetta viðhorf íslensku bankanna komi líka fram þegar fólk sækir um lán til íbúðakaupa. Þá fæst ekkert lán, af því að þeir eru búnir að afskrifa ákveðin landssvæði.

Sú krafa stendur á íslensku bankana að eigendur þeirra gefi skýr svör við spurningunni hvers vegna þeir láni ekki og á hvaða landssvæðum þeir láni ekki. Hvenær hætti Landsbanki Íslands að vera banki allra landsmanna? Var það þegar hann var seldur úr eigu ríkisins fyrir smáaura? Hætti Búnaðarbankinn að þjóna dreifbýlinu þegar hann hvarf ofan í gin Kaupþingsins?

Íslenska bankakerfið hefur brugðist. Það hefur brugðist erlendu fyrirtæki sem vill hætta sínu fé til að efla atvinnulíf á Íslandi. Það hefur brugðist íbúum svæðisins, þar sem verksmiðjan mun rísa og margir þeirra hafa verið áratugum saman viðskiptavinir bankanna og bankakerfið hefur brugðist íslensku þjóðinni, sem hefur trúað því að nýir eigendur bankanna líti á það sem sitt hlutverk að efla og treysta byggð á Íslandi og eftir atvikum í samstarfi við ríkið.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins lét hafa það eftir sér að það væri engin skylda hjá einkarekinni lánastofnun að lána og menn gætu snúið sér til annarrar lánastofnunar ef mönnum þætti vinnulag einnar ekki vera við hæfi. Þessi ummæli lýsa kannski nýjum tíma í fjármálaheiminum best, þar á bæ telja menn sig ekki hafa neinar skyldur, ekki einu sinni til þess að fjármagna arðbær verkefni. Ja, sveiattan.

Athugasemdir