Engin skylda að lána.

Pistlar
Share

“Svo er engin skylda hjá einkarekinni lánastofnun að lána og menn geta þá snúið sér til annarra lánastofnana ef þeim þykir vinnulag einnar ekki vera við hæfi.”
Þetta sagði framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í viðtali við Fréttablaðið í síðustu viku. Tilefnið var að íslenskur viðskiptabanki hafði synjað erlendu fyrirtæki um lánafyrirgreiðslu til þess að reisa kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal. Verkefnið er arðbært en bankinn setti fyrir sig staðsetningu verksmiðjunnar. Erlendur banki hljóp í skarðið og verður verksmiðjan reist.

Gleymum því ekki að þessir sömu viðskiptabankar krefjast þess að Íbúðalánasjóður verði lagður niður og vilja sitja einir að íbúðalánum. Þeir gerðu harða hríð að Íbúðalánasjóði í fyrra og reyndu að koma honum á kné. Það tókst næstum því, en sjóðurinn stóðst áhlaupið og nú beita bankarnir afli sínu að ríkisstjórninni og vilja sem fyrr sitja einir að lánveitingum á þessum markaði. Sú glíma stendur yfir þessar vikurnar.

Ofangreind ummæli vísa inn í þann veruleika sem mun blasa við ef bankarnir fá sitt fram. Viðskiptabankarnir telja sig ekki hafa neinar skyldur til þess að lána. Þeir munu ekki lána á sumum landssvæðum og á öðrum mumu þeir lána lægri lán sem hlutfall af kaupverði en almennt er gert. Lánskjör verða mismunandi, vextir, lánstími, uppgreiðslu- og flutningsskilmálar, svo eitthva sé nefnt.

Ef mönnum líkar þetta ekki geta þeir bara snúið sér annað verður viðkvæðið eins og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði. Vandi íbúðareigenda verður sá að erlendir bankar eru ekki að sinna íslenska markaðnum og það verður ekki hægt að snúa sér eitthvað annað. Menn verða eins og gíslar viðskiptabankanna.

Þeirra sömu viðskiptabanka sem neita að lána til arðbærs verkefnis í atvinnusköpun. Þeirra sömu viðskiptabanka sem stunduðu til skamms tíma óábyrgða útlánastarfsemi á íbúðalánamarkaði. Þeirra sömu viðskiptabanka sem leggjast á stjórnmálamenn og krefjast þess að þeir fjarlægi samkeppnisaðila. Þeirra sömu viðskiptabanka sem vilja auka gróða sinn með því að hækka kostnað almennings af fjármögnun íbúðar sinnar.

Þeirra sömu viðskiptabanka sem líta svo á að þeir hafi engar skyldur, menn geti bara farið eitthvað annað ef þeim líkar ekki þjónustan. Ég er hræddur um að það verði margir Bíldudalirnir í gróðaheimi viðskiptabankanna.

Athugasemdir