Hroki.is

Pistlar
Share

Þeir eru sjálfum sér líkir, helstu forsvarsmenn LÍÚ. Fyrr í sumar kvartaði Samherjaforstjórinn, Þorsteinn Már Baldvinsson, yfir tillögum mínum um bráðnauðsynlegar breytingar á úthlutun fiskveiðiheimilda og krafðist þess að fá frið fyrir stjórnmálamönnum. Það fór ekki á milli mála að hann lítur svo á að það sé hans mál hvernig veiðiheimildum er ráðstafað og að stjórnmálamenn eigi ekki að vera að skipta sér af því.

Stjórnmálamenn hafa talið nauðsynlegt að bregðast við áhrifum af framsali veiðiheimilda með löggjöf um byggðakvóta. Það er viðleitni, fremur veikburða að vísu, til þess að styrkja atvinnlíf í byggðarlögum sem hafa orðið fyrir verulegum samdrætti vegna brotthvarfs veiðiheimilda. Stjórnmálamennirnir axla ábyrgð á vondri lagasetningu með því. En lítið er það, byggðakvótinn 4000 tonn er aðeins um 1% af útgefnum veiðiheimildum ársins og er varla upp í nös á ketti.

Útgerðarfurstarnir, sumir hverjir, axla enga ábyrgð á gjörðum sínum og birtast þjóðinni útbólgnir af hroka og skeytingarleysi. Hann gleymist ekki útgerðarmaðurinn sem gaf Ísfirðingum loforðið fræga þegar hann keypti öfluga útgerð með veiðiheimildum: Guðbjörgin verður áfram gul, áfram ÍS og áfram gerð út frá Ísafirði. Það er þessi, sem krefst þess að fá vinnufrið fyrir stjórnmálamönnum.

Í gær komu nýir menn fram á sjónarsviðið úr þessu liði. Magnús Kristinsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum og Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ og hóta ríkinu málssókn vegna byggðakvótans og línuívilnunar. Þeir sögðu að útgerðarmenn ættu veiðiheimildirnar sem væru teknar til þessarar ráðstöfunar og það jafngilti eignaupptöku að taka þær af þeim. Slíkt hlyti að brjóta gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Verði þeim að góðu. Mér finnst að þeir ættu bara að láta verða af hótunum sínum. Það er engin vafi á því hvernig slík málaferli munu fara. Löggjöfin er algerlega ótvíræð. Veiðiheimildum er úthlutað til eins árs í senn og myndar ekki eignarrétt. Alþingi getur hvernær sem er breytt lögunum, á hvern þann hátt sem menn koma sér saman um. Það getur breytt úthlutunarkerfinu sérstaklega eða jafnvel afnumið það með öllu.

Málaferlin munu aðeins staðfesta þetta. Kannski er það orðið tímabært, þessir talsmenn útgerðarmanna virðast nefninlega trúa því sem þeir segja, að þeir eigi veiðiheimildirnar og engum komi það við hvernig þær eru nýttar. Veiðiheimildir, sem hafa verið keyptar, mynda engan eignarrétt, aðeins rétt til að nýta heimildina samkvæmt ákvæðum laganna. Þeirra sömu laga sem kveða sérstaklega á um það að úthlutunin myndi ekki eignarrétt.

Menn geta aðeins átt það sem þeir kaupa. Það sem er keypt, er réttur sem hægt er að breyta hvenær sem er eða fella niður. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar getur ekki fært mönnum það sem þeir eiga ekki. Það er kjarni málsins. Þeir sem hafa keypt veiðiheimildir vita hvernig lögin eru, þeir vita að Alþingi getur breytt þeim og hljóta því að verðleggja hið keypta út frá þessari vitneskju. Þeir taka áhættu og hafa metið hana við ákvörðun á verðinu. Eitt var kaupendunum algerlega ljóst: þeir eiga ekki veiðiheimildirnar.

Að því kemur að breytt verður ákvæðum laganna um úthlutun veiðiheimilda og þann rétt sem þeim fylgir. Það mun verða fyrr en síðar svo mikið er víst. Þjóðin þolir ekki ranglætið sem fylgir núverandi kerfi. Við þá breytingu tel ég að gæta verði sanngirnis gagnvart þeim sem hafa fjárfest í veiðiheimildum á þann veg að þeim gefist ráðrúm til þess að greiða upp fjárfestinguna og að hafa af henni einhvern arð. En það breytir ekki því að löggjafanum ber engin skylda til þess að gera slíkt.

Magnús Kristinsson sagði í útvarpsviðtalinu í gær að það væri óþolandi staða að hafa byggðakvóta. Það skyldi Magnús athuga að margt er óþolandi í kerfinu eins og það er núna. Það er óþolandi að ungir menn geti ekki hafið útgerð nema að kaupa af magnúsum kerfisins veiðiheimildir fyrir a.m.k. hundruð milljóna króna, það er óþolandi staða fyrir sjómenn að útgerðarmenn einir séu handhafar veiðiheimildanna.

það er óþolandi staða fyrir landverkafólk í Vestmannaeyjum að Magnús selji sinn fisk óunninn til útlanda.Það er óþolandi staða fyrir íbúa Vestmannaeyja að andvirði selds kvóta renni einvörðungu í vasa magnúsanna, ekkert til launafólks, ekkert til bæjarsjóðs. Það er einmitt algerlega óþolandi að útgerðarmenn einir ráðstafi veiðiréttinum að eigin geðþótta. Og svo er hrokinn orðinn óþolandi.

Ég hugsa að það þegar upp verður staðið muni eiga vel við gamla máltækið, að dramb er falli næst.

Athugasemdir