Bankablöffið.

Pistlar
Share

Um daginn var frétt um íbúðalán. fram kom að viðskiptabankarnir hafa náð um helmingshlutdeild í nýjum lánum. íbúðalánasjóður er svo með hinn helminginn. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að bankarnir vilja Íbúðalánasjóð út af markaðnum og ætla sér að sitja einir að kökunni.

Sannarlega er eftir miklu að slægjast, íbúðalán eru líklega um 800 milljarðar króna. Hvert prósent umfram verðtryggingu gefur 8 milljarða króna í gróða á hverju ári. Bankarnir hafa ekki átt neitt frumkvæði í breyttum lánveitingum viðskiptavinum sínum til góða heldur hafa þeir aðeins elt Íbúðalánsjóð. Hækkuðu lánshlutfall og buðu lægri vexti þegar fyrir lá pólitísk samstaða stjórnarflokkanna um þau atriði.

Einhverra hluta vegna eru viðskiptabankarnir svo aumir það þeir vilja losna við samkeppnina við Íbúðalánasjóð og beita nú ítökum sínum í stjórnmálaheiminum til þess að sitja einir að lánveitingunum og til þess að kóróna slappleikann þá á hinn opinberi sjóður að skaffa bönkunum peningana til útlána og taka áhættuna. Til forna hefði verið sagt að þetta væri létt verk og löðurmannlegt eða að lítið legðist nú fyrir einkaframtakið.

Þegar bankarnir hófu sókn sína í íbúðalánin buðu þeir 90% eins og fyrir lá að Íbúðalánasjóður myndi gera. En sumir fóru reyndar lengra og buðu 100% lán. Sem var ábyrgðarleysi eins og bankarnir komust að raun um og hættu fljótlega því. Kapp er best með forsjá. Og nýlegt frétti ég af einum íbúðarkaupanda sem komst að því að bankinn hans vill ekki lána meira um 80% af kaupverðinu. Þannig að eitthvað er farið að rifa seglin á útlánasiglingunni.

En það er fróðlegt að skoða kjörin á lánunum sem bankarnir eru að bjóða. Þar er ekki allt sem sýnist. Ein útgáfan er að boðnir eru 4,15% eða 4,2% vextir, en þegar á reynir er skuldabréfið með 5,1% vöxtum. Lántakandanum er svo boðinn vaxtaafsláttur niður í lægri töluna, en með skilyrðum. Hann verður að færa öll sín viðskipti í bankann og hærri vaxtatölunni er þinglýst í skuldabréfinu. Annað skilyrði er svo um 2% uppgreiðslugjald.

Þetta þýðir að þegar lántakandinn selur íbúðina og flytur ekki lánið með sér þá stendur kaupandanum aðeins til boða 5,1% vextir. Vilji kaupandinn fá lægri vextina verður hann að flytja öll sín viðskipti í bankann. Seljandinn getur af þessum sökum þurft að greiða upp lánið og þá kostar það 2% af skuldinni, sem er auðvitað ekkert annað en viðbótarvextir.

Önnur útgáfa er að boðnir eru 4,2% vextir. En þarna er heldur ekki allt sem sýnist. Vextir skiptast í almenna vexti, sem eru 3,5% og vaxtaálag sem er 0,7%. almenni vaxtahlutinn er breytilegur á 5 ára fresti sem þýðir að lánveitandi getur þá hækkað vextina að eigin höfði. Vaxtaálagið er líka breytilegt og það hvenær sem er, eftir því sem ég fæ best séð. Svo er uppgreiðslugjaldið 2% eins og í fyrra tilvikinu.

Þessi dæmi staðfesta að tilboð bankanna um vexti upp á 4,15% eða 4,2% eru mjög svo villandi. Vextirnir eru hærri og lántakendurnir munu greiða þá þegar upp verður staðið að loknum lánstímanum. Ég giska á að í raun verði vextirnir 6-8% og að innan fárra ára verði það tölurnar sem margir lántakendur munu sjá á gíróseðlum sínum. Árið 2009 verður líklega mörgum erfitt en þá reynir fyrst á 5 ára endurskoðun almenna vaxtahlutans. Aðrir munu verða fyrir vaxtahækkun við eigendaskipti eða vanskil á lánunum.

Það er nefninlega blöff að bankarnir bjóði 4,15% eða 4,2% vexti. Viðskiptaaðferðin virðist mér sú að jafna boð Íbúðalánasjóð um vexti í orði en setja ýmis skilyrði sem plokka milljarða króna árlega upp úr vösum íbúðarkaupenda.

Getur það verið að markaðsvæðingin kalli bara fram vilja og jafnvel samráð til að græða sem mest á lántakandanum en kæfi allan vilja til þjóna viðskiptavininum með hagsmuni hans í huga? Hvað gerist þegar bankarnir fara tapa fé á erlendum fjárfestingum erða loftfimleikum sínum á hlutabréfamarkaðnum? Verður tapið sótt í vasa íbúðareigenda með vaxtahækkun við fyrsta tækifæri?

Ég get ekki varist þessari hugsun og ef svo er, þá þýðir það að samkeppnin sem á að verja viðskiptavinina einmitt fyrir þessari stöðu er ekki til staðar í nægilegum mæli. Að taka Íbúðalánsjóð út af útlánamarkaði við þessar aðstæður væri ekkert annað en að skaða almenning í landinu.

Gleymum því ekki að almenningi stendur í Íbúðalánsjóði til boða lán á lægstu vöxtum eftir almennum reglum og skilmálum sem standa út lánstímann og að það sem kannski skiptir mestu máli er að viðskiptavinurinn er frjáls maður, þarf ekki að sæta hinum og þessum skilyrðum og er ekki beittum vaxtasektum ef út af þeim er brugðið.

Verkefni stjórnvalda er að lækka vextina enn frekar. Það má ekki gleymast að hér á landi eru vextir af húsnæðislánum mjög háir í samanburði við það sem gerist víða erlendis, þegar verðtryggingin er tekin með í reikninginn. Það er stóra málið.

Athugasemdir