Fyrir almenning í landinu.

Pistlar
Share

Ríkið á og rekur sjóð, Íbúðalánasjóð, til þess að gefa almenningi kost á bestu lánum sem völ er á. Sjóðurinn býður öllum, sem standast almennar reglur um greiðslumat, lán á 4,15% vöxtum umfram verðtryggingu. Það eru lægstu fáanlegu vextir til íbúðakaupa sem völ er á hérlendis.

Öllum stendur til boða sama lánshlutfall af kaupverði íbúðar óháð því hvar á landinu íbúðin er. Öllum stendur til boða sami lánstími óháð efnum og búsetu. Öllum stendur til boða sömu vextir. Gildir einu hvort íbúðin er á Raufarhöfn eða í Reykjavík. Gildir einu hvort kaupandinn er verkamaður eða bankastjóri. Það eru allir jafnir.

Áhættan af lánveitingunum er mismunandi eftir einstaklingum. Áhættan er líka mismunandi eftir staðsetningu íbúðar. En áhættan er jöfnuð með kerfinu sem ríkið býður upp á. Þess vegna fá allir sömu kjör og skilmála. Almennu reglurnar sem uppfylla þarf gera það að verkum að áhættan verður tiltölulega lítil.

Af 4,15% vöxtunum fer aðeins um fjórðungur úr einu prósenti í þennan áhættuþátt. Og það dugar til og meira en það. Íbúðalánasjóður hefur verið rekinn með hagnaði síðan hann tók til starfa. Í fyrra varð hagnaðurinn rúmur hálfur milljarður króna. Á þessu ári stefnir í rúmlega einn milljarð króna í hagnað. Það er hægt að lækka vexti enn frekar og það á að gera. Þetta kerfi er fyrir almenning í landinu. Lántakandinn er frjáls maður í sínum viðskiptum í þessu kerfi.

Þetta opinbera íbúðalánakerfi er það sem almenni markaðurinn verður að keppa við. Viðskiptabankarnir verða að geta boðið betur annars eiga þeir ekki að standa í samkeppni við Íbúðalánasjóð. Það hafa þeir ekki getað gert. Þeir bjóða flestum lakari kjör og setja viðskiptavinum sínum einkennileg og óeðlileg skilyrði.

Viðskiptabankarnir hafa á síðustu árum sýnt að þeir hafa á að skipa hæfu fólki og standast erlendum bönkum snúning. Það er engum blöðum um það að fletta. En í íbúðarlánunum eru bankarnir á villigötum. Þeir gera sér mannamun og búsetumun. Á sumum svæðum landsins lána þeir ekkert eða lægra lánshlutfall en á höfuðborgarsvæðinu. Vextir eru mismunandi eftir mönnum, svæðum eða veðhlutfalli.

Þeir krefjast þess að íbúðarlántakandinn færi önnur bankaviðskipti sín að meira eða minna leyti í bankann. Þeir setja ýmis skilyrði sem gera viðskiptavininum illmögulegt að færa sig til annars banka vegna kostnaðar sem af því hlýst. Þeir tryggja sig með ákvæðum um breytilega vexti og breytilegt vaxtaálag ef hið fyrra dugar ekki.

Þetta lánakerfi bankanna er ekki fyrir almenning í landinu. Það er gegn almenningi í landinu. Því er ætlað að hafa milljarða króna af almenningi á hverju ári sem á að greiða hluthöfunum í arð. Lántakendur missa sjálfstæði sitt. Þess vegna kemur ekki til greina að loka opinbera kerfinu. Það getum við ekki gert almenningi í landinu. Viðskiptabankarnir verða að þola samkeppni og vera tilbúnir til þess að stunda heiðarlega og eðlilega samkeppni.

Kristinn H. Gunnarsson.
staddur í húsakynnum Seðlabanka Evrópu
Frankfurt

Athugasemdir