Heildsölubanki – nei takk

Pistlar
Share

Bankarnir gera nú harða hríð að Íbúðalánasjóði og vilja hrekja hann út af sviðinu. Það er ekki eins og þeir græði ekki nóg um þessar mundir, gróðinn er talinn í tugum milljörðum króna þetta árið. Nú er krafan að bankarnir sitji einir að húsnæðislánum til einstaklinga og að Íbúðalánasjóður hætti að veita þeim samkeppni. Útlán sjóðsins nema um 500 milljörðum króna og bankarnir vita sem er að mikið er hægt að græða á hverju prósenti í vöxtum.

Samtök atvinnulífsins ályktar um málið á þann veg og vill að sjóðurinn gegni eingöngu félagslegu hlutverki. Framkvæmdastjóri sambands banka og verðbréfafyrirtækja slær svipaðan tón í grein í Mbl. og segir að grimm samkeppni ríki á milli bankanna um húsnæðislán til einstaklinga , "ekki einungis um vaxtakjör heldur einnig hvað lánaúrval varðar, svo sem lengd láns, afborgunarskilmála o.fl.".

Þegar fyrir lá að því yrði hrint í framkvæmd að hækka almennt lánshlutfall Íbúðalánasjóðs upp í 90% brugðust viðskiptabankarnir hart við. Þeir hófu samkeppni á þessu sviði og buðu húsnæðislán allt upp í 100% og á sömu vöxtum í orði kveðni og Íbúðalánasjóður býður. Samkeppni þeirra er af hinu góða og sannar svo ekki verður véfengt að starfsemi Íbúðalánasjóðs er nauðsynlegt.

Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að bankarnir fóru ekki í samkeppnina til þess að keppa við Íbúðalánasjóð heldur til þess að koma honum á kné, losna við hann út af markaðnum. Það var gert með því að viðskiptabankarnir greiddu upp lán viðskiptavina sinna við Íbúðalánasjóð og settu sjóðinn í þann vanda að vera með milljarða króna í handbært fé sem skiluðu lítilli sem engri ávöxtun upp í þau lán sem sjóðurinn hafði tekið til að lána til einstaklinga. Á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins má lesa að samtökin telji að Íbúðalánasjóður hafi tapað allt að 15 milljörðum króna síðustu 12 mánuði vegna þessara uppgreiðslna bankanna.

Upplýst hefur verið að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hafi lagt til fyrir 2 árum að Íbúðalánasjóður hætti að lána húsnæðislán en yrði í þess í stað heildsölubanki eða endurfjármögnunarsjóður. Það þýðir að bankarnir lánuðu en Íbúðalánsjóður legði þeim til fjármagnið. Þetta var einmitt þegar var verið að undirbúa 90% lánin. Þessari tillögu bankanna var hafnað og svar þeirra var uppgreiðsluleiðin.

Tilgangurinn er ritstjóra Morgunblaðsins augljós. Í leiðara blaðsins frá 23. júlí sl. segir " að með þeirri byltingu á húsnæðismarkaðnum sem Kaupþing banki hafði frumkvæði að í fyrrasumar hafi bönkunum tekist að knýja fram fyrstu skrefin í skipulagsbreytingum á húsnæðislánamarkaðnum í takt við það, sem þeim hugnaðist sjálfum, sbr. bréf þeirra til félagsmálaráðherra fyrir tveimur árum". Ekki fer á milli mála hvar blaðið stendur í málinu og ritstjórinn segir að taka verði afstöðu til þess á næstu vikum og mánuðum hvert eigi að vera hlutverk Íbúðalánasjóður.

Þetta er einmitt kjarni málsins. Viðskiptabankarnir vilja ekki keppa á íbúðalánamarkaðnum samkvæmt þeim lögum sem Alþingi hefur sett og hefja aðgerðir til þess að knýja fram breytingar á leikreglunum þannig að þær verði eftir þeirra höfði. Það er mikið áhyggjuefni fyrir almenning. Hann mun borga meira vegna þess að samkeppnin minnkar. Þetta mál er líka áhyggjuefni vegna þess að það sýnir hversu langt menn í viðskiptalífinu eru tilbúnir að ganga til þess að ná sínu fram og komast hjá því að starfa á alvöru samkeppnismarkaði.

Þessari orrahríð um Íbúðalánsjóð í síðasta mánuði lauk með því félagsmálaráðherra opnaði, greinilega nauðugur, fyrir það að skoða heildsöluleiðina, með ákveðnum skilyrðum þó, og sagði það spennandi viðfangsefni. Hvað þýðir það? Eiga fjármálaöflin sér pólitíska bandamenn sem eru að knýja fram breytingarnar sem viðskiptabankarnir vilja fá fram, að setja Íbúðalánasjóð ofan í sína skúffu? Slíkar hugmyndir hafa ekki verið ræddar innan Framsóknarflokksins, eftir því sem ég veit best og ekki þykir mér líklegt að þeim verði vel tekið.

Gleymum því ekki að það eru aðeins 6 ár síðan lögin um Íbúðalánsjóð voru sett. Þá var ákveðið að áfram myndi ríkið beita sér fyrir því að almenningur um land allt ætti kost á húsnæðislánum á bestu fáanlegum kjörum. Eignarhald ríkisins tryggir það. Vextir umfram verðtryggingu hafa lækkað og eru nú 4,15%. Þeir væru mun hærri ef ríkið hefði ekki rekið viðskiptabankana til þess að bjóða lægri vexti.

Íbúðalánasjóður er rekinn þannig að hann standi undir sér. Ríkið hefur ekki þurft að leggja honum til fé og útlánin eru ekki niðurgreidd. Eigið fé sjóðsins hefur vaxið þann tíma sem hann hefur starfað úr tæpum 7 milljörðum króna í tæplega 13 milljarða króna um síðustu áramót. Ríkið hefur tryggt lægstu vexti og getur knúið fram enn meiri lækkun þeirra. Það er raunhæft að lækka vextina niður í 2% umfram verðtryggingu.

Sjóðurinn tryggir landsmönnum öllum aðgang að lánum á sömu vöxtum óháð efnahag og búsetu. Það er hið félagslega hlutverk hans. Lánin eru ákveðið hlutfall af markasverði íbúðar, þannig að þar sem er lágt íbúðaverð verður lánið lágt. Tekjulágir lántakendur fá sömu vexti og aðrir ef þeir standast á annað borð greiðslumat. Breytingin sem bankarnir kalla eftir þýðir vafalaust að vextir munu hækka sérstaklega á þessa hópa og sums staðar á landinu munu þeir hætta lánveitingum. Síðan er málið afgreitt með því að þessum breytingum eigi ríkið eigi að mæta með niðurgreiddum lánveitingum íbúðalánasjóðs úr ríkissjóði.

Þetta er það sem ekki má gerast, að skipta þjóðinni upp eftir efnahag og búsetu. Þess vegna segi ég nei takk við hugmyndinni um íbúðaheildsölubanka. Íbúðalánasjóður áfram er besta svarið.

Athugasemdir