Sala Símans: gott verð en vaxandi samþjöppun

Pistlar
Share

Þá er komið að því, að selja Símann. Á því máli eru margir fletir. Svo sem hvort eigi yfir höfuð að selja Símann og þá með eða án grunnnets. Hvað þá varðar vísa ég til fyrri skrifa minna, sem finna má á heimasíðunni. En skoðum verðið. Fyrir fjórum árum voru samþykkt lög um sölu fyrirtækisins og það auglýst til sölu. Hætt var við sölu þá þar sem ekki fékkst ásættanlegt verð. Sumir áhugamenn um sölu Símans, m.a. innan stjórnarflokkanna, vildu ekki fresta sölunni og töldu raunar að allt væri í fári ef salan færi ekki fram að sinni. Þeir hömruðu á tveimur staðhæfingum um verðhrun og úreldingu.

Þær gengu út á að vegna tækniframfara kæmu fram nýjar og ódýrari lausnir og því úreltist sá búnaður sem fyrir er og af því leiddi að verðmæti Símans færi hratt minnkandi. Það yrði því að selja fyrirtækið strax ef einhverja peninga ætti að fá fyrir það. Hraðsölumenn voru talsvert áberandi einmitt þegar tekist var á um hvort ætti að fresta sölunni eða ekki. Önnur rök voru einnig höfð uppi af hálfu söluáhugamanna, sumra hverra, sem kalla má hefðbundin einkavæðingarrök. Þau voru þannig að aðalatriðið væri að einkavæða fyrirtækið, en verðið skipti í raun engu máli.

Gott verð

Það er fróðlegt að fara yfir þessi rök nú, þegar fyrir liggur söluverð Símans. Eftir sölu bankanna og verðið sem fékkst fyrir þá hafa einkavæðingarrökin gufað upp. Það heyrist ekki nokkur maður halda því fram að söluverðið skipti ekki máli. Menn gera sér grein fyrir því að það þýðir ekki að bjóða þjóðinni upp á þann málflutning lengur að það sé í lagi að gefa mönnum milljarða króna. Hefðbundnu einkavæðingarrökin eru út af borðinu.

Söluverðið nú afgreiddi hraðsölumennina í eitt skipti fyrir öll. Það þarf ekki að eyða orðum á þann málflutning. Stjórnarformaður Símans, Rannveig Rist, dró niðurstöðuna saman í Kastljóssþætti eitthvað á þennan hátt: Fyrir 4 árum gerðu stjórnvöld sér vonir um 40 milljarða króna fyrir fyrirtækið, nú fá þau um 80 milljarða króna. Það er söluverðið 67 milljarða kr., arðgreiðslu ársins um 6 milljarða og kaupandinn yfirtekur áhvílandi lán.

Síminn úreltist ekki á þessum fjórum árum heldur tvöfaldaðist verðmæti hans. Það var eins gott að hraðsölumenn réðu ekki ferðinni. Þjóðin hefði orðið af 40 milljörðum króna. Niðurstaðan er þessi: pólitískur ofuráhugi fyrir einkavæðingu getur orðið þjóðinni dýr. Ráðlegast er að hófsamir stjórnmálamenn takir ákvarðanir í þessum efnum sem öðrum.

Blæðir landsbyggðin?

Eitt er þó sem þarf að skýra betur. Formaður einkavæðingarnefndar Jón Sveinsson kynnti útboðsskilmála í byrjun apríl og sagði skv. frásögn Mbl. “að við söluna yrði m.a. horft til verðs, fjárhagslegs styrks, lýsingar á fjármögnun, reynslu af fyrirtækjarekstri og þjónustu í þéttbýli og dreifbýli næstu fimm árin. Enn væri þó ekki búið að ákveða hvað einstakir þættir fengju mikið vægi og það kæmi til greina að samið yrði við aðila sem ekki byði hæsta verðið en væntanlega yrði munurinn að vera tiltölulega mjög lítill til að verðið réði ekki nánast úrslitum”.

Hvað varð um þessi atriði? Hver eru áform væntanlegs kaupanda um þjónustu í þéttbýli og dreifbýli og hvernig voru bjóðendur bornir saman að þessu leyti? Hverjar voru kröfur ríkisins? Við þessu verður að fást svör, sérstaklega þegar upplýst er nú að verðið eitt ræður ákvörðun ríkisins um það hverjum er selt, en sagt að hinir þættirnir hafi verið afgreiddir á fyrra stigi sölunnar. Ég hef ekki séð neitt um það hvernig sú afgreiðsla var og tel mig þó hafa fylgst vel með söluferlinu.

Verður það landsbyggðin sem blæðir fyrir hið háa verð sem greitt er fyrir Símann með lakari þjónustu? Kári Jónasson bendir á þetta óbeint í sjónarmiði sínu í Fréttablaðinu 30. júlí þegar hann segir “að það verði að treysta því að hagnaðarsjónarmiðin komi ekki niður á notendum Símans í hinum dreifðu byggðum landsins, en vegna hins háa verðs virðist ljóst að reka verður fyrirtækið af mikilli hagsýni, svo fjárfestingin borgi sig”.

Vaxandi samþjöppun

Hitt fer varla á milli mála að salan leiðir af sér vaxandi samþjöppun í íslensku viðskiptalífi. Ekkert varð af því að erlendir aðilar keyptu og kæmu inn í þennan heim og tækjust á við íslensku viðskiptasamsteypurnar um völd og áhrif í íslensku samfélagi eins og Morgunblaðið óskaði í ritstjórnargrein 5. apríl síðastliðinn. Engir nýir ríkisbubbar koma fram á sjónarsviðið í viðskiptaheiminum og niðurstaðan verður að þessar fáu grúppur sem eiga orðið flest bitastætt hér á landi eiga nú meir en áður.

Ég tek undir áhyggjur Morgunblaðsins, sem fram koma í ritstjórnargreininni, en þar segir: “Einkavæðing Símans getur komið miklu góðu til leiðar, ef rétt er á haldið. En hún getur líka orðið til þess, að æ erfiðara verði að vinda ofan af þróuninni í átt til æ meiri samþjöppunar auðs og áhrifa í íslenzku samfélagi. Það er að sjálfsögðu enn ekki of seint að koma í veg fyrir það”. Það eru bankarnir sem virðast vera helstu gerendur á leiksviði viðskiptalífsins. Að þessu sinni er það KB bankinn sem greinilega ræður för.

Löggjöf um hringamyndun

Lykilatriðið er að takmarka eignarhald og ráðandi stöðu fjármálastofnana í fyrirtækjum, sérstaklega í öðrum atvinnugreinum. Það ásamt kröfum um dreifða eignaraðild í fyrirtækjum við ákveðnar aðstæður getur snúið þessari öfugþróun við. Hver man ekki eftir áróðrinum fyrir nokkrum árum um að þjóðin ætti fiskimiðin í gegnum sjávarútvegsfyrirtækin, sem mörg hver voru almenningsfyrirtæki? Núna eru þau langflest orðin einkafyrirtæki örfárra. Gróðapungarnir vilja ekki almenningseign heldur sölsa undir sig fyrirtækin ef þeir mögulega geta. Það er ekkert nema löggjöf sem getur tekið á þessu.

Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins, sem áður er vitnað til, er einmitt bent á þetta:” Það er sjálfsagt ekki hlutverk framkvæmdanefndar um einkavæðingu að hafa skoðun á því hvort sala Símans eykur á samþjöppun í viðskiptalífinu eður ei. Það hefði aftur á móti að sjálfsögðu verið í valdi stjórnarflokkanna, sem skipa fulltrúa sína í nefndina, að búa þannig um hnútana að sala fyrirtækisins færi ekki fram fyrr en sett hefðu verið lög á Alþingi, sem kæmu böndum á viðskiptasamsteypurnar, sem leynt og ljóst stefna að því að skipta atvinnulífinu á milli sín. Stjórnarflokkarnir virðast ekki treysta sér í þann slag.”

Vonandi reynist ritstjóri Morgunblaðsins ekki sannspár um þor stjórnarflokkanna, en það er ekki eftir neinu að bíða.

Athugasemdir