Háskólinn á Akureyri: hvar eru strákarnir ?

Pistlar
Share

Á laugardaginn fór fram brautskráning frá Háskólanum á Akureyri. Brautskráðir voru 290 kandidatar frá 6 deildum skólans. Íþróttahöllin var troðfull og athöfnin hátíðleg eins og í þau fyrri skipti sem ég hef verið viðstaddur.

Það var mikið lán fyrir Akureyri og raunar landsbyggðina alla þegar ráðist var í það að stofnsetja háskóla. Ekki vantaði úrtöluraddirnar og það var engu líkara en að menntun væri staðbundið fyrirbæri og þrifist hvergi á Íslandi en á Melunum í Reykjavík. Bábiljurnar eiga það til að vera langlífar, ég man enn eftir umræðunni sem fór fram þegar stofnaðir voru menntaskólar víðs vegar um landið utan Reykjavíkur.

Stórfelld gengisfelling á menntuninni var viðkvæðið og nemendur þessara skóla áttu ekki að eiga neitt erindi í Háskóla Íslands með svona "minni háttar" stúdentspróf. Þetta heyrðist líka þegar Háskólinn á Akureyri tók til starfa fyrir átján árum. En skólinn er löngu búinn að afsanna þessar sjálfhverfu fullyrðingar. Nú eru við skólann liðlega 1500 nemendur og hefur nemendur fjölgað mjög hratt eftir að byrjunartímabilið var yfirstigið.

Aukin menntun er besta svarið sem hvert byggðarlag eða landssvæði á við hröðum breytingum í nútímasamfélaginu. Það einkennist af hraðri þróun atvinnulífsins þar sem störf taka miklum breytingum á skömmum tíma vegna tækniþróunar eða beinlínis úreldast og önnur ný koma í staðinn. Meiri þekking verður að vera til staðar og hver vinnufær maður verður að mennta sig meira en áður var og auk þess að tileinka sér nýja þekkingu til þess að halda velli. Háskóli er grundvallaratriði fyrir landssvæði til þess að geta haldið velli og sótt fram, þess vegna var það lán að skólinn skyldi komast á legg. Rannsóknir sýna að um 80% nemenda frá H. A. velja sér störf á landsbyggðinni eftir að námi lýkur.

En það var þrennt sem vakti athygli mína á útskriftardaginn og varð tilefni líflegra umræðna við eldhúsborðið heima, þar sem leitað var skýringa.

Það fyrsta var kynjahlutfallið. Brautskráðar voru 233 konur en aðeins 57 karlar. Konur voru 80% útskrifaðra en karlar aðeins 20%. Þetta fannst mér merkilegt. Frá heilbrigðisdeild voru brautskráðar 78 konur en enginn karl. Frá kennaradeild útskrifuðust 102 konur en aðeins 16 karlar. Jafnvel frá viðskiptadeild, þar sem búast mátti við að karlar röðuð sér í, reyndist annað upp á tenginum. Af 70 nemendum voru aðeins 29 karlar en 42 konur luku prófi frá deildinni eða 60%. Því vaknaði spurningin : hvar eru strákarnir ?

Annað sem vakti athygli mína var breytilegur aldur brautskráðra nemenda. Áður var það meginreglan að nemendur voru á þrítugsaldri þegar þeir luku fyrstu háskólagráðu og hafðu hafið nám að jafnaði fáum árum eftir stúdentspróf. Nú er öldin önnur. Nemendur eru á öllum aldri ef svo má segja. Háskólanám er greinilega ekki lengur bundið við ungt fólk. Sérstaklega er þetta áberandi varðandi konurnar.

Þriðja atriðið sem ég hnaut um var hversu margir nemendur höfðu stundað nám sitt með fjarnámssniði. Tæp 40% brautskráðra eða 111 nemendur voru í fjarnámi. Möguleikarnir til þess að stunda námið hafa gjörbreyst. Hefðbundna staðnámið er ekki lengur eina leiðin heldur aðeins ein leið af mörgum til þess að afla sér menntunar.

Samandregin svörin við eldhúsborðið við spurningunni um strákana voru þau að í mörgum tilvikum væru þeir búnir að ljúka sínu háskólaprófi og konan væri seinna á lífsleiðinni að drífa sig í nám og ljúka því. Það getur skýrt hátt hlutfall kvenna og breytilegan aldur þeirra við útskrift og ekki síður að þær velji fjarnámsformið frekar vegna fjölskylduaðstæðna. En samt, þrátt fyrir þessar skýringar, stendur eftir í kollinum á mér spurningin: hvar eru strákarnir ?

Athugasemdir