20.000 tonn – fiskur fyrir ál – jafnræði.

Pistlar
Share

Pistill vikunnar markast af sjómannadeginum. Hér fyrir vestan var afbragðsveður, glampandi sól framan af degi og hlýrra en undanfarnar vikur, þótt það mætti hækka hitastigið. Við Elsa tókum daginn snemma, drógum fánann að húni við nýja húsið okkar að Traðarstíg12. Er hugsa að fyrri eigandinn, Karvel Pálmason, hefði orðið órólegur ef ekki hefði verið flaggað á sjálfan sjómannadaginn. Síðan keyrðum við vestur á Patreksfjörð og tókum þátt í veglegum hátíðarhöldum þeirra Barðstrendinga. Sjómannadagurinn er orðinn að fjögurra daga hátíð sem árlega dregur hundruð manna til Patreksfjarðar þessa helgi.

Ég hafði tekið að mér að flytja hátíðarræðu dagsins. Ræðan er komið á heimasíðuna undir greinar og má finna hana á forsíðunni. Í ræðunni kom ég víða við, kom inn á Evrópusambandsaðild og ítrekaði afstöðu mína og Framsóknarflokksins, við eigum ekkert erindi þangað inn. Kom inn á væntanlega kosningu um sameiningu sveitarfélaga og hvatti Barðstrendinga til þess að sýna stjórnvöldum að svæðið gæti blómgast og dafnað á sömu forsendum um auðlindastefnu og unnið er eftir á Austurlandi, að nýta auðlindirnar heima í héraði. Það er skynamleg stefna og á jafnvel við í sjávarbyggðum landsins og annars staðar.

Þá dró ég fram eftir bestu getu kostina við að búa í íslensku sjávarplássi. Þeir eru margir og laða fólk til búsetu . Atvinnumálin eru hins vegar oft þung í skauti og síðasta vika er lýsandi dæmi um óöryggið sem fylgir sjávarútveginum. Fyrirtækin selja að lokum gjaldeyri en ekki fisk og þegar gengi verður langvarandi hátt eins og nú er þá kemur það beint niður á þeim. Tekjurnar minnka án þess að útgjöldin fylgi á eftir. Fyrirtækið Bílddælingur er búið að grípa til uppsagna. Eigendurnir vilja ekki lengur tapa peningunum sínum í rekstri sem í raun gengur vel og skilar góðri framlegð, en svo hækkar gengið og áður en menn vita af er komin taprekstur.

Stjórnvöld verða að láta þetta til sín taka, enda er hagstjórnin þeirra verkefni. Það verður að viðurkennast að teflt er á tæpasta vað í efnahagsstjórnuninni. Stjóriðjuframkvæmdir eru miklar með tilheyrandi þenslu, ýtt er undir frekari framkvæmdir á því sviði, miklar skattalækkanir hafa verið lögfestar, þær eru langt í það tvöfalt meiri en við framsóknarmenn töldum skynsamlegt fyrir kosningar og hækkun húsnæðislána ásmt lækkun vaxta hefur valdið sprengingu í lánveitingum og verðhækkun húsnæðis. Það er greinilega verk að vinna til þess að stilla af alla þessa þætti svo gengið skrúfist ekki upp úr öllu valdi. Það er nú þegar miklu hærra en forsendur fjárlaga miðast og stefna verður að því að gengið verði skv. þeim.

Ég varpaði fram þeirri tillögu að á næstu árum verði færðar veiðiheimildir til sjávarbyggða sem ekki njóta góðs af atvinnuuppbyggingunni vegna stóriðjuframkvæmda eða þenslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Að minnsta kosti 20 þúsund tonn af bolfiski árlega þarf til þess að hleypa einhverjum krafti í byggðarlögin. Það verði þeirra álver. Þetta er nauðsynlegt annars munu þessi byggðarlög dragast aftur úr og missa fólk. Sjávarplássin eiga að njóta sinnar auðlindar í hafinu eins og önnur byggðarlög munu njóta auðlindarinnar í vatnsföllunum eða jarðhitanum.

Loks fór ég yfir fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er orðið lokað kerfið. Inn í það kemst enginn án þess að hafa mikið fé undir höndum til að greiða fyrir veiðiheimildirnar. Hvaðan á það fé að koma ? Með því að erfa þá sem fyrir eru ? Kerfið leiðir af sér mikla samþjöppun veiðiheimilda og einokun, nýliðun er útilokuð. Nýliðarnir eru í svipuðum sporum og leiguliðar stórhöfðingja í fyrri öldum. Geta fengið að veiða en eigendurnir ráða verðinu og geta skrúfað það upp ef þeim sýnist svo. Atvinnugrein án nýliðunar ber feigðina í sér.

Það þarf að gera grundvallarbreytingu á kerfinu og best er að gera það jafnt og þétt í öruggum skrefum. Að öðrum kosti er hætt við að sjóði upp úr innan fárra ára og þá er ekki víst að menn rati á skynsamlegustu leiðina úr úr ógöngunum. Ég tel að bygja þurfi á því að gera veiðiheimildirnar tímabundnar, síðan að fella niður aflahlutdeildirnar og hafa eingöngu aflamark og loks að ríkið hafa ávallt veiðiheimildir til leigu sem nýir aðilar hafa aðgang að til jafns við þá sem fyrir eru. Að öðru leyti vísa ég til ræðu minnar sem er birt á heimasíðunni á forsíðunni undir tenglinum greinar.

Athugasemdir