Jafnréttismálin : mikið verk að vinna

Pistlar
Share

Af því tilefni að í dag eru 90 ár síðan konur fengu kosningarétt á Íslandi eru jafnréttismálin tekin fyrir í pistli dagsins. Niðurstaðan kemur strax: það er mikið verk að vinna enn, þótt áleiðis hafi miðað síðustu áratugina. Launamunur kynjanna er enn verulegur, það eru líklega flestir sammála um að vinna þurfi bug á því óréttlæti sem hann er. En málið er ekki svo einfalt, það snýst ekki bara um að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. Það snýst líka um að bæði kynin hafa jafnan aðgang að störfunum, að það séu ekki bara karlarnir sem fá vel launuðu störfin eða yfirmannsstöðurnar o.s.frv. Þar held ég að meginvandinn liggi í dag.

Konurnar hafa sótt fram á mörgum sviðum. Konur voru um 80% af brautskráðum kandidötum við Háskólann á Akureyri um síðustu helgi. Ég vakti athygli á því í síðasta pistli mínum og velti fyrir mér spurningunni: Hvar eru strákarnir? Einn ágætur vinur minn sendi mér línu og benti á að strákarnir þyrftu ekki eins mikla menntun og stelpurnar til þess að fá góð laun og að þeir fengju frekar góðu stöðurnar, jafnvel þótt þeir væru minna menntaðir en stelpurnar.

Það er mikið til í þessari ábendingu. Það virðast greidd miklu hærri laun fyrir störf í fjármálaheiminum en fyrir umönnum fólks. Gildismatið snýst um peninganlegan gróða en ekki líkamlegan eða andlegan. Karlarnir eru einmitt mjög áberandi í slíkum störfum en konur í umönnunarstörfum. Svo eru það góðu stöðurnar. Hvað skyldu margar konur hafa verið skipaðar í forstjórastöður hjá ríkinu undanfarin ár eða í sendiherrastöðurnar? Það er hægt að telja upp hvern strákinn á fætur öðrum sem hefur fengið fína stöðu hjá ríkinu, en hvað með stelpurnar sem hættu á Alþingi? Hvaða stöður hafa þær fengið Ingibjörg Pálmadóttir eða Lára Margrét Ragnarsdóttir? Af hverju fengu þeir Júlíus Hafstein og Markús Örn Antonsson sendiherrastöður? Jú, það er nefnilega ennþá mikill strákaklúbbur til hjá hinu opinbera, ekki hvað síst í stjórnmálunum.

Við skulum byrja hjá okkur sjálfum. Framsóknarflokkurinn hefur að mörgu leyti síðustu ár góða sögu í jafnréttismálum. En það hefur sigið á ógæfuhliðina og því þarf að breyta. Nú er aðeins ein kona í ráðherrastöðu fyrir flokkinn en fjórir karlar. Þetta endurspelgar að hugur fylgir ekki máli þegar kemur að því að framfylgja góðri jafnréttisstefnu flokksins. Það er ekki nóg að gera samþykkt um jafnan hlut karla og kvenna eða setja ákvæði um það í lög flokksins, ef því er ekki fylgt þegar á reynir.

Ráðherrastöðurnar eru þær eftirsóttustu í stjórnmálum og við val í þær verður að fara að stefnu flokksins, annars er hún hjómið eitt. Á síðasta ári þegar valdir voru ráðherrar fyrir flokkinn varð strákaklúbburinn ofan á. Þá vék stefna flokksins fyrir eiginhagsmunum strákanna. Gripið var í það hálmstrá í málafylgjunni að konur væru aðeins um 30% af félagsmönnum og því væri óeðlilegt að þær skipuðu hærra hlutfall af ráðherrastöðunum. Því fylgdi ekki útskýring á því af hverju hlutfall kvennanna ætti að vera aðeins 20% af ráðherrum flokksins en ekki 40%.

Þessu er best að svara með því að stefnan er ákvörðun um það hvert menn vilja ná og það verður aðeins gert með því að sýna viljann til þess í verki. Við viljum að konur verði fleiri í flokknum og til þess að svo verði störfum við eftir leikreglum innan flokksins sem konum finnast eðlilegar, sanngjarnar og aðlaðandi. Einn liður í því er að leysa upp strákaklíkurnar og starfa eftir almennum og skýrum leikreglum.

Annað mál sem flokkurinn getur fært til betri vegar. Jafnréttisstýran Valgerður Bjarnadóttir, hætti fyrir tæpum 2 árum vegna þess að hún hafði ekki stuðning ráðherra lengur í starfi sínu. Það var ekki vegna frammistöðu hennar í starfi, heldur vegna máls sem kom upp hjá Leikfélagi Akureyrar. Mannaráðning þar var dæmd í undirrétti hafa brotið gegn jafnréttislögum en Valgerður stóð að ráðningunni ásamt öðrum. Við það missti hún trúnað ráðherra að sögn. Nú liggur fyrir hæstaréttardómur þar sem fyrri dómi var snúið við og Valgerður sýknuð. Þegar það lá fyrir var of seint að snúa við, Valgerður gat ekki fengið starfið aftur, en hún vildi eðlilega fá frekari starfslokasamning en í boði var, 6 mánaða laun. Það var ekki orðið við því og síðast, þegar ég vissi, voru málaferli framundan.

Þarna verður að gera bragarbót. Annað er afleitt fyrir jafnréttisbaráttuna og heldur verra fyrir Framsóknarflokkinn. Jafnréttisstýran fyrrverandi hrökklaðist úr starfi að ósekju. Ég skora á félagsmálaráðherra að ná samningum við Valgerði Bjarnadóttur um málalyktir annað hvort með starfslokasamningi eða ráða hana til starfa um einhvern tíma að verkefnum á þessu sviði. Málalyktir hafa orðið með ýmsum hætti þegar strákarnir eiga í hlut, samanber starfslok fyrrverandi forstjóra Byggðastofnunar, og Framsóknarflokkurinn verður að sýna að ekki er gerður munur á kynjum við sambærilegar aðstæður.

Það er svo alveg sérmál hvort eigi að ýta manni úr embætti vegna starfa hans á öðrum vettvangi ótengdum starfi hans. Það má, að mínu mati, ræða það sjónarmið félagsmálaráðherra, en þá væntanlega í víðara samhengi svo sem því hvort alþingismenn, ráðherrar eða trúnaðarmenn flokksins eigi við einhverjar aðstæður að víkja úr starfi vegna starfa sinna á óskyldum vettvangi.

Jafnréttismál eru mikil alvöru mál. Það er ekki nóg að gera metnaðarfullar samþykktir á fundum eða hafa yfir góð orð á tímamótum. Það verður að sýna viljann í verki, hugur þarf að fylgja máli. Það hefur verið gert innan Framsóknarflokksins og flokkurinn hefur notið þess í kosningum. Að undanförnu hefur annar vilji verið meir upp á borðum og ég efa ekki að það er hluti af skýringunni á döpru gengi flokksins. Þessu er hægt að breyta, með því að sýna réttu verkin.

Athugasemdir