Lítið traust á Alþingi og alþingismönnum.

Pistlar
Share

Lítið traust á Alþingi og alþingismönnum.

Í síðasta mánuði birti Gallup könnum, sem fyrirtækið hafði gert, um trauts til stofnana þjóðfélagsins. Sem fyrr nýtur Háskóli Íslands mest traust þjóðarinnar og bera 86% traust til skólans. Heilbrigðiskerfið, lögreglan, Umboðsmaður Alþingis, Ríkissáttasemjari og Þjóðkirkjan nutu öll mikils trausts, frá 55% til 70%. Alþingi og dómskerfið sitja á botninum með aðeins traust 35% þjóðarinnar hvort um sig. Það verður að segja að þetta er afleit útkoma fyrir stjórnmálamennina. Traust á Alþingi minnkaði um 8 prósentustig frá síðustu mælingu, sem gerð var í fyrra.

Það er fróðlegt að bera mat þjóðarinnar á Alþingi saman við viðhorf til fjölmiðla. En síðasta ár hafa fjölmiðlar verið mjög í eldlínu þjóðmálanna. Fjölmiðlamálið sjálft á síðasta ári olli líklega harðari deilum en dæmi eru um á síðari árum og þar voru fjölmiðlamennirnir í skotlínunni. En málið var að því leyti til einsdæmi að forseti Íslands neitaði að undirrita lögin.

Skömmu eftir að því máli lauk í júlí á síðasta ári með því að fjölmiðlalögin voru dregin til baka gerði Gallup könnun um viðhorf til nokkurra starfsstétta. Þar voru alþingismenn í neðsta sæti, aðeins 20% svarenda voru jákvæðir til þeirra en 42% voru neikvæðir. Það verður að segjast útkoma alþingismanna er hrikaleg samanborið við viðhorf til þeirra 6 starfsstétta annarra sem voru í könnuninni. Þeir voru eini hópurinn þar sem fleiri voru neikvæðir til en jákvæðir, til þeirra voru fæstir jákvæðir og flestir neikvæðir.

Lögfræðingar voru næstlægstir, til þeirra voru 52% jákvæðir og 21% neikvæðir. Efstir voru læknar, þar voru 85% jákvæðir og aðeins 5% neikvæðir. Aðrir sem voru greinilega í góði áliti þjóðarinnar voru kennarar, prestar og lögreglumenn. Fjölmiðlamenn voru einn hópurinn, sem var í könnuninni. Viðhorf þjóðarinnar til þeirra var í ágúst 2004 greinilega miklu jákvæðara en til alþimgismanna, 62% aðspurðra voru jákvæði til fjölmiðlamanna en aðeins 14% neikvæð. Til viðbótar þeim könnunum sem að ofan eru nefnd eru til kannanir sem sýna gríðarmikið traust sem þjóðin ber til Ríkisútvarpsins, og á það við báðar fréttastofur RÚV.

Annað fjölmiðlamál hefur geysað síðustu vikur og nú snýr það að Ríkisútvarpinu. Ég á þar auðvitað við fréttastjóraráðninguna á útvarpinu. Bæði þessi fjölmiðlamál hafa snúist upp í átök milli stjórnmálamanna og fjölmiðlafólks. Traust á Alþingi minnkaði um nærri fimmtung eftir átökin í fyrra og ég er ekki viss um að alþingismenn hafi aukið hróður sinn í fréttastjóramálinu. Það er að vísu ólíkt fyrra málinu, stjórnmálamennirnir eru ekki eins miklir gerendur í því. Útvarpsstjóri er sá sem hefur tekið hinar umdeildu ákvarðanir.

Nokkuð hefur borið á þeim viðhorfum að fréttamenn hafi bæði nú og í fyrra gengið of langt, og að vandi einstakra stjórnmálamanna eða flokka stafi af því. Auðvitað getur eitthvað verið til í því, en ef við höfum í huga mat þjóðarinnar á fjölmiðlum og fjölmiðlafólki annars vegar og Alþingi og alþingismönnum hins vegar þá verður ekki umflúin sú staðreynd að stjórnmálamennirnir eru í verulegum vanda og verða að líta í eigin barm eftir skýringum.

Athugasemdir