Vegafé 2004 – 2008: Það vantar rúma fjóra milljarða króna.

Pistlar
Share

Fjármagn til vegamála dregst saman um 4,4 milljarða króna á árunum 2004 – 2008 samkvæmt því sem lesa má út úr nýrri tillögu að samgönguáætlun sem er fyrir árin 2005-2008 þegar hún er borin saman við frá fyrri fjögurra ára áætlun, 2003 – 2006, og langtímaáætlun, 2003 – 2014. Þær áætlanir voru samþykktar í mars 2003. Samdrátturinn er um 5,5%. Minnkunin kemur fyrst og fremst niður á framkvæmdafé, en það dregst saman um tæplega 3,8 milljarða króna á þessu 5 ára tímabili.

Gildandi fjögurra ára áætlun er fyrir árin 2003 – 2006 og er seinni hlutinn, árin 2005 og 2006, endurskoðuð með nýju áætluninni. Síðan er bætt við árunum 2007 og 2008, en í langtímaáætluninni er áætlun um fjárveitingar fyrir árin 2007-2010. Helmingur af þeim fjárveitingum samsvarar þá árunum 2007 og 2008, sem er síðari hluti nýju áætlunarinnar.

Loks þarf að færa áætlanirnar frá mars 2003 til þess verðlags sem tillagan að fjögurra ára áætlun er á. Athyglisvert er að vegagerðarvísitalan hefur hækkað um 8% frá fjögurra ára áætluninni í mars 2003 og um 10% frá því verðlagi sem langtímaáætlunin er á.

Framkvæmdum hefur verið frestað árin 2004 og á þessu ári, 2005, og gert ráð fyrir frestun á næsta ári, 2006, síðan er bætt við fjármagni árin 2007 og 2008 og ef allt gengur upp þá á niðurstaðan að verða óbreytt fjármagn til vegamála. Það er hins vegar ekki raunin.

Líklega er stærsta hluta skýringarinnar að finna í því að tölurnar í nýju tillögunni að samgönguáætlun hækka ekki til samræmis við hækkandi verðlag. Það þýðir einfaldlega samdrátt í fjárveitingum sem því nemur og sá samdráttur kemur aðallega fram í framkvæmdunum. Á þessu 5 ára tímabili verður að draga úr framkvæmdum um tæplega 4 milljarða króna frá því sem ákveðið var á vordögum 2003. Það munar um það og kemur fram þegar skoðaðar eru tillögurnar um framkvæmdir.

Frestun fjárveitinga árin 2004 – 2006 reiknuð á verðlaginu sem nýja tillagan er á er samtals um 7,4 milljarða króna ( 2004: 1.969 mkr., 2005: 2.729 mkr., 2006: 2.678 mkr.) , en aukningin 2007 er 1.343 mkr. ( 16.898 mkr. – 15.555 mkr.) og 2008 er aukningin 1.673 mkr. ( 17.228 mkr. – 15.555 mkr.). eða samtals aukning þessi tvö ár 3.016 mkr. Mismunurinn er 4.360 mkr. sem er það sem upp á vantar. Það munar um minna.

Athugasemdir