Leiðrétting á utanríksmálaályktun flokksþingsins

Greinar
Share

Nokkuð hefur verið rætt um ESB hluta utanríkismálaályktunarinnar sem samþykkt var um helgina á flokksþinginu. Mistök urðu við birtingu ályktunartextans á vef flokksins og í Morgunblaðinu. Þar stóð að "á vettvangi flokksins skal halda áfram upplýsingaöflun og vinnu við mótun samningsmarkmiða og undirbúning hugsanlegra aðildarviðræðna.".

Þarna snerist við orðalagið sem samþykkt var og gerir það að verkum að svo virðist sem ályktunin gangi lengra en hún í raun gerir og eru þó báðar útgáfurnar mjög varfærnar og ganga skammt. Hið rétta orðalag er "hugsanlegs undirbúnings aðildarviðræðna" og er textinn þannig réttur :

Á vettvangi Framsóknarflokksins skal halda áfram upplýsingaöflun og vinnu við mótun samningsmarkmiða og hugsanlegs undirbúnings aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Niðurstöðu þeirrar vinnu skal bera undir næsta flokksþing – til kynningar.
• Komi til aðildarviðræðna við ESB skulu niðurstöður slíkra viðræðna bornar undir þjóðaratkvæði.

Munurinn er sá að ályktunin felur ekki í sér heimild til þess að undirbúa aðildarviðræður, ef gera á það þarf sérstaka samþykkt flokksþings til þess.

Það sem felst í ályktuninni er þá:
– ákvörðun um að afla upplýsinga og móta samningsmarkmið.

Það sem ekki felst í ályktuninni er:
– ekki er samþykkt að ganga í ESB
– ekki er samþykkt að hefja aðildarviðræður við ESB
– ekki er samþykkt að undirbúa aðildarviðræður við ESB

Ekkert af þessu þrennu getur forysta flokksins gert eða staðið að án þess að fá áður samþykkt flokkþings fyrir.

Mér sýnist að samþykktin nú sé mjög svipuð og samþykkt síðasta flokksþings fyrir tveimur árum, en þá var samþykkt m.a.:"áfram verði unnið að samningsmarkmiðum Íslendinga á sviði evrópusamskipta á grundvelli skýrslu Evrópunefndar framsóknarmanna" og ennfremur "kynna ber Evrópumálin vel fyrir öllum almenningi og vanda mjög þær stefnuákvarðanir sem íslenska þjóðin þarf á næstu árum að taka. Ef til ákvörðunar um aðildarviðræður kemur skal flokksþing kallað saman áður til að fjalla um það sérstaklega."

Athugasemdir