Skólagjöld tekin upp hjá 700 nemendum

Pistlar
Share

Í gær voru samþykkt sem lög frá Alþingi afnám laga frá 2002 um Tækniháskóla Íslands og í framhaldinu verður skólinn sameinaður Háskólanum í Reykjavík. Ég studdi ekki frumvarpið heldur sat hjá. Fyrir því eru ærnar ástæður, þó ekki formlegt efni frumvarpsins heldur það sem af því leiðir. Annars vegar að skólagjöld verða innheimt af þeim sem munu hefja nám í tækni- og rekstrardeildum Tækniháskólans eftir breytinguna og hins vegar að samkeppnisstaða háskóla á vegum ríkisins gagnvart öðrum skólum verður áfram algerlega óviðunandi.

Ég tel ekki ástæðu til að leggjast gegn því að skólinn verði á höndum einkaaðila. Þeir hafa í gagnum aldirnar sýnt að þeir geta rekið háskóla með miklum sóma. Ríkisrekstur er ekki forsenda menntunar á háskólastigi. Að vísu er einkahlutafélagsformið lítið notað erlendis og ég set fyrirvara um það, að því leyti að ég tel ekki gangi að reka skóla með arðsemissjónarmið að leiðarljósi.

Markmkið menntamálaráðherra er að innleiða samkeppni sem mest á háskólastiginu og þessi sameining tveggja skóla er í þeim yfirlýsta tilgangi og þá væntanlega á nýi skólinn að veita einkum Háskóla Íslands samkeppni um nemendur og námsframboð. Að vissu marki er ég sammála því, að nauðsynlegt er að hafa samkeppni og get staðið að því að ríkið beiti sér fyrir því að koma henni á.

En þá er komið að því sem skilur á milli af minni hálfu. Ég er andvígur skólagjöldum og tel að ríkið verði að tryggja skólunum, sem eiga að vera í samkeppni hver við annan, jafnræði í fjárveitingum frá ríkinu. Það sem ráðherrann er að gera gengur gegn báðum þessum atriðum.

Skólagjöld verða tekin upp í rekstrar- og tæknideildum Tækniháskólans við það eitt að flytja námið undir hatt nýs skóla. Í dag eru um 700 nemendur í þessum deildum og ætla má að skólagjöld hvers nemanda verði þau sömu og eru í Háskólanum í Reykjavík eða um 200 þúsund kr. fyrir skólaárið. Ekki er gert ráð fyrir að ríkisháskólarnir muni bjóða upp á þetta nám, þannig að mér sýnist óvíst að það verði í boði án skólagjalda.

Niðurstaðan er aukin skólagjaldavæðing á háskólastiginu. Það er algerlega gegn minni skoðun og reyndar gegn samþykktri stefnu Framsóknarflokksins.Ég spyr hver verða næstu skref á þessari leið ? Verður öðrum ríkisháskólum eða einstökum deildum þeirra breytt í einkahlutafélög og þar með tekin upp skólagjöld ? Verður ríkisháskólunum meinað að bjóða upp á nýtt nám og allri þróun í námsframboði beint í farveg einkaskóla og þeim gefið sjálfdæmi um innheimtu skólagjalda fyrir námið ? Hvert er ferðinni heitið ?

Samkeppnisskilyrðin eru afleit ríkisháskólunum í óhag. Þeir fá minna greitt fyrir hvern nemanda en einkaaðilarnir sem nemur skólagjöldunum. Það er ótrúlegt að ríkið sjálft skapar vísvitandi þessi ójöfnu skilyrði með því að lána nemendum fyrir öllum skólagjöldunum umfram innritunargjöld. Endurgreiðslur lántakandans eru aðeins um 50% af verðgildi lánsins þannig að þegar upp er staðið er námslánið að hálfu leyti styrkur úr ríkissjóði til viðkomandi einkaskóla, sem skólinn fær til viðbótar almennu framlagi eins og ríkisskólarnir.

Hvers konar vitleysa er þetta ? Svarið er að mínu mati: þetta er pólitísk ákvörðun um að veikja ríkisháskólana og beina nemendum í vaxandi mæli í nám þar sem eru tekin skólagjöld. Það gengur ekki að standa svona að málum. Í samkeppni verður ríkið að gera opinberum skólum kleift að keppa. Núverandi stefna er fráleit hvað þetta varðar.

Athugasemdir