Stofna skal háskóla á Ísafirði innan þriggja ára.

Pistlar
Share

Stofna skal háskóla á Ísafirði innan þriggja ára

Flokksþingi Framsóknarflokksins, hinu 28. í röðinni, lauk seint í dag, eftir þriggja daga stíf fundahöld. Um 750 manns voru skráð til leiks, sem er til marks hvað flokksþing er geysilega stór samkoma. Þarna kemur saman fólk úr öllum hérðuðum landsins, af öllum aldri, úr öllum stéttum og á saman eina helgi.

Orðið samkoma er réttnefni, því að menn eru ekki bara að ræða saman um stjórnmál og takast á um áherslur í einstökum málum, heldur skemmta menn sér saman, drekka saman kaffi og skiptast á fréttum, endurnýja gömul kynni og kynnast nýju fólki. Þetta eru einstaklega skemmtilegir dagar og ég held að segja megi að allir sem komið hafa á flokksþing séu sama sinnis.Ég er strax farinn að hlakka til næsta flokksþings.

Það var áberandi á flokksþinginu hvað margir tóku til máls í almennum umræðum og ræddu um stöðu flokksins af mikilli hreinskilni. Ýmis erfið mál hafa komið upp síðustu mánuði, sem óþarft er að tíunda hér, og hinn almenni flokksmaður, grasrótin, lét í sér heyra. Í umræðunum var margt vel sagt, sem þingmenn og kjörin forysta flokksins þarf að íhuga vel og vinna úr. Það er einmitt heillandi að á flokksþingi kemur fólk og segir meiningu sína umbúðalaust og gerir sér ekki mannamun. Það er í flokknum af hugsjón og þykir vænt um flokkinn sinn.

Mér fannst ég fá mikinn stuðning við margt af því sem ég hef verið að leggja áherslu á undanfarið ár. Það þarf meira jafnvægi innan flokksins, öflugri félagslegar áherslur og draga úr hægri slagsíðunni. Gott jafnvægi í þeim efnum er einmitt mesti styrkur flokksins. Langt stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn getur verið varasamt fyrir félagshyggjuflokk. Það fékk Alþýðuflokkurinn að reyna á viðreisnarárunum. Eftir 12 ára samstarf gekk flokkurinn klofinn til kosninga, fékk hroðalega útkomu og var 16 ára að ná sér. Þetta verðum við að varast.

Hæst bar nokkuð hörð skoðanaskipti um viðhorf til Evrópusambandsins, þar sem tókust á þeir sem eru fylgjandi eða verulega hallir undir aðild Íslands að sambandinu og hinir sem eru því andvígir. Niðurstaðan var í raun svipuð og gildandi Evrópustefna, ekki er útilokað um alla framtíð að sækja um og menn reyni að gera sér grein fyrir hver eigi að vera markmið Íslands ef til kemur að sótt verði um, en flokkurinn er í raun andvígur aðild og ekkert er gefið undir fótinn með að því verði breytt. Ég tel þetta ágæta niðurstöðu enda engin ástæða fyrir okkur Íslendinga að gerast aðilar.

Samþykkt var tillaga sem ég stóð að ásamt Magnúsi Stefánssyni, Ívari Jónssyni og Albertínu Elíasdóttur um að efla Landbúnaðarháskóla Íslands og háskólann á Hólum og að stofna skuli háskóla á Ísafirði innan þriggja ára. Það er mér og eflaust fleirum mikið gleðiefni að Framsóknarflokkurinn skuli hafa gert það að sinni stefnu að stofna háskóla á Ísafirði. Það er stærsta atvinnu- og byggðamál Vestfirðinga um þessar mundir og sérstaklega var ánægjulegt var að fá Ísfirðinginn Albertínu Elíasdóttur til þess að mæla fyrir tillögunni á flokksþinginu.
Ekki fleiri fréttir af flokksþingi að sinni, meira síðar.

Athugasemdir