Einkavæðing Landsvirkjunar umdeild – Færri fyrirtæki – minni samkeppni

Pistlar
Share

Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar um kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Áform ríkisins er að sameina Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða hf. í eitt fyrirtæki. Þessi áform lýsa þeirri framtíðarsýn að á raforkumarkaðnum varðandi framleiðslu og sölu starfi tvö stór fyrirtæki, annað í eigi ríkisins og hitt einkum í eigu Reykjavíkurborgar. Þá kemur fram í yfirlýsingunni að stefnt er því síðar að breyta sameinuðu fyrirtæki í hlutafélag og selja það a.m.k. að hluta til.

Margt má segja um þessi áform. Fyrst það að endurskipulagning raforkumarkaðarins leiðir eðlilega til þess að menn velta fyrir sér skipulagi, eignarhaldi og samkeppni. Það er ekki óeðlilegt að iðnaðarráðherra leggi fram hugmyndir sínar þar um til umræðu í þjóðfélaginu og beiti sér fyrir málefnalegri umræðu í Framsóknarflokknum.

Ég læt í ljós efasemdir um að tvíkeppni leiði til raunverulegrar samkeppni. Það byggi ég á reynslunni, en þar sem tvö og jafnvel þrjú stór fyrirtæki hafa verið á tilteknum markaði hefur tilhneigingin verið sú að skipta markaðnum á milli þeirra með formlegu eða óformlegu samráði. Nærtækast er að benda á samráð olíufélaganna. Við þessar aðstæður er það neytandinn sem borgar brúsann, hann borgar meira en nauðsynlegt er. Sporin hræða.

Hlutafjárvæðing og síðar einkavæðing Landsvirkjunar í núverandi formi eða stækkaðri mynd er algerlega órædd í Framsóknarflokknum og ekki tímabært að gefa út stefnumarkandi yfirlýsingu á þessu stigi. Ég tel sjálfsagt að taka það mál til umræðu og skoða alla fleti málsins, en einkavæðing Landsvirkjunar er ekki stefna flokksins og ég er ekki fylgjandi henni miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.

Það er svo alveg sérstök útgáfa að ætla fyrirtækjum í eigu opinberra aðila að vera helstu samkeppnisaðilar. Er ekki einkavæðing bankanna og Landssímans rökstutt með því að hið opinbera eigi ekki að standa í samkeppnisrekstri ? Og að það séu einkaaðilar sem séu færastir um að starfa í samkeppnisumhverfi ? Eigum við kannski að skipta Landssímanum í tvö fyrirtæki, bæði í eigu ríkisins og láta þau svo keppa á fjarskiptamarkaðnum ?

Annað í þessu máli stingur í augu. Það er að ætla að sameina Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða hf. í eitt fyrirtæki. Það er ekki í samræmi við áherslur framsóknarmanna og reyndar fleiri í Norðvesturkjördæmi. Formaður Framsóknarflokksins skipaði 10 manna nefnd úr Norðvesturkjördæmi til þess að gera tillögur um atvinnu- og byggðamál. Nefndin gerði í nóvember sl. einróma eftirfarandi tillögu til formannsins:

"Kannaðar verði forsendur þess að sameina starfsemi Rarik á Vesturlandi og Norðurlandi Vestra Orkubúi Vestfjarða hf. Höfuðstöðvar fyrirtækisins verði á Ísafirði, en rekstur starfsstöðva í kjördæminu verði um leið tryggður. Markmiðið með þessari tillögu er að byggja upp sterkt orkufyrirtæki í Norðvesturkjördæmi, sem væri betur í stakk búið til að takast á við aukna samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku. Búast má við að velta O.V. myndi þrefaldast við þessa aðgerð. Orkubú Vestfjarða er mikilvægt fyrirtæki á Vestfjörðum, sem m.a. má marka af því að heildartekjur þess á árinu 2003 voru 1.010 milljónir króna og heildarlaunagreiðslur 336 milljónir króna til 64 starfsmanna."

Kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi tók undir áherslur nefndarinnar og ályktaði auk þess á þennan veg:

"Orkufrekur iðnaður skiptir miklu máli í kjördæminu. Þingið leggur áherslu á að virkjuð og virkjanleg orka í NV-kjördæmi verði nýtt innan kjördæmisins. Þingið vill að ríkisstjórnin ákveði formlega að næsta uppbygging iðnaðar- og/eða iðjuvera verði í norðanverðu NV-kjördæmi og verði m.a. orka þess svæðis nýtt til þeirrar uppbyggingar. Þá leggur þingið til að ríkisstjórnin leggi til fjármuni á móti heimaaðilum í leit að hentugum iðnaðar og iðjukostum og beini aðilum sem sýna áhuga á að fjárfesta í atvinnu á Íslandi í Norðvesturkjördæmið."

Í umræðu um málið verður að taka tillit til þessara sjónarmiða og annarra sem kunna að koma fram. Niðurstaðan verður að endurspegla eindreginn vilja manna í flokknum.

Athugasemdir