Nefndaseta – óskoraður réttur þingmanns

Greinar
Share

Síðastliðið þriðjudagskvöld var innsiglað í þingflokknum samkomulag um störf mín í nefndum þingsins. Þar með er tekin aftur ákvörðun þingflokksins frá því í haust, þar sem ákveðið var að ég ætti enga aðild að nefndum þingsins. Þingstörf mín verða frá og með næsta hausti með sama hætti og voru á síðasta vetri. Ekki er víst að ég verði nákvæmlega í sömu nefndum og áður, þar sem nefndarstörfin skiptast nú á milli 7 þingmanna í stað 6 eftir að ráðherrum fækkaði um einn síðastliðið haust. Nú þegar tek ég sæti í 3 fastanefndum og verð varaformaður í þeim öllum, sjávarútvegsnefnd, umhverfisnefnd og EFTA nefndinni.

Samkomulag næst ekki nema menn slái af og geri málamiðlun. Ég féllst á að hafa ekki fulla aðild að nefndastarfi þingsins það sem eftir lifir af þessum þingvetri, það eru líka takmörk fyrir því hvað er skynsamlegt að gera miklar breytingar svo seint, en á móti er því lýst yfir að ég njóti trausts þingflokksins til starfa í nefndunum. Menn sammælast um að slá striki yfir ágreiningsefnin og einbeita sér að því að vinna flokkinn út úr þeirri erfiðu stöðu sem hann hefur sigið í síðustu mánuði.

Ég hygg að menn hafi áttað sig á því að afstaða mín í umdeildum málum var ekki orsök erfiðleika flokksins, þvert á móti tel ég að hún hafi styrkt flokkinn. Þar hefur annað komið til og innri ágreiningur í þingflokknum torveldaði mönnum að takast á við þann vanda. Ég vildi leggja mitt af mörkum til þess að ná niðurstöðu innan þingflokksins svo menn geti snúið sér að aðalatriðinu, almennri stöðu flokksins.

Ég er þeirrar skoðunar að ágreining innan þingflokks sem snýst um starfshætti eða samskipti verði að leysa innan hópsins. Ég var reiðubúinn að ræða þau mál á opinberum vettvangi ef til þess hefði komið, en tel ekki að slíkt hefði leitt til samstöðu eða sátta. Að öllum má finna og allir geta gert betur og er þar enginn undanskilinn. Skýringar sem voru gefnar í haust voru fremur óljósar og stundum í hálfkveðnum vísum, en ég ákvað að sitja á mér og lagði áherslu á að menn yrðu að gæta að því að eiga leið til baka því það hlyti að vera markmiðið.

Mér er ekki kunnugt um að áður hafi þingmaður verið útilokaður frá starfi á Alþingi með þessum hætti. Mér er til efs að mönnum hafi dottið í hug að gera slíkt. Þingmaður sækir umboð sitt til kjósenda sinna, en ekki annarra þingmanna eða forystumanna í flokki. Það hefur enginn þingmaður umboð til þess að svipta annan þingmann rétti sínum til starfa á Alþingi. Það hefur heldur enginn forystumaður í flokki umboð til þess.

Stærð þingflokks ákvarðar styrk hans á Alþingi og þar með fjölda nefndasæta. Sérhver kjörinn þingmaður leggur með sér sinn skerf sem kjósendur hans hafa ákvarðað. Þingmennirnir, sem skipa þingflokkinn, verða síðan að koma sér saman um það í hvaða nefnd hver og einn fer, en rétturinn til að vera í nefndum er þingmannsins. Hann hefur traust kjósenda til þeirra starfa.

Það brýtur grundvallarreglu lýðræðisins þegar hópur þingmanna tekur sér vald til að svipta einn úr sínum hópi þessari aðstöðu til starfa á Alþingi, það gengur gegn rétti þingmannsins en ekki síður er vegið að rétti kjósenda. Það getur hver ímyndað sér hvaða ástand skapast ef menn halda áfram á þessari braut. Kjósendur verða í stöðugri óvissu um það hvort þeir hafi einhver áhrif með þátttöku í kosningum og þingmenn geta búist við því að verða settir út af sakramentinu hvenær sem er og af hverri þeirri ástæðu sem menn kunna að gefa upp á hverjum tíma. Jafnvel settir á skilorð eða reynslulausn. Þessi staða jafnast á við fáránleikann í Undralandi Lísu.

Af þessum augljósu ástæðum er ekki hægt að semja um skerta stöðu á Alþingi. Ég hef ekkert umboð frá kjósendum mínum til þess og félagar mínir hafa ekkert umboð frá sínum kjósendum til þess.

Athugasemdir