Svæðislokun í Breiðafirði: Taka á meira tillit til atvinnuhagsmuna

Greinar
Share

Í dag, 15. febrúar 2005, fóru fram utandagskrárumræður á Alþingi um vöxt og viðgang þorsks í Breiðafirði. Tilefnið var að stóru svæði á sunnanverðum Breiðafirði var lokað fyrir línuveiðum með reglugerð í nóvember sl. og tók fyrir að mestu veiðar línuflotans frá Snæfellsnesi þann tíma sem bannið stóð eða í hálfan annan mánuð. Málshefjandi var Sigurjón þórðarson.
Ég tók þátt í umræðunni og lagði áherslu á eftirfarandi atriði:

Meiri rannsóknir og áður en gripið er til svo róttækra aðgerða

Það hefur komið mér á óvart hvað takmarkaðar rannsóknir fara fram áður en Hafrannsóknarstofnun leggur til svæðislokun með reglugerð og auk þess þarf að fylgjast með svæðinu reglulega meðan á lokun stendur. Kenningar um hægvaxta fisk, tiltölulegan smáan og kynþroska eru ekki úr lausu lofti gripnar. Mat á ávinningi þess að geyma fiskinn og veiða síðar eru hvílir á því hvað fiskurinn þyngist á tímanum og það er háð umtalsverðri óvissu.
Mér finnst það alltaf jafnskrýtið að vísindastofnun eins og Hafrannsóknarstofnun skuli starfa þannig að forstjórinn talar fyrir hönd stofnunarinnar og gefur út hina skoðun hennar. Sérstaklega þegar í hlut á fræðigrein þar sem þekkingu er verulega áfátt eins og fiskifræðin er svo ég tali ekki um hið flókna samspil í vistkerfi hafsins. Það hljóta að vera álitamál sem vísindamennirnir eiga að rökræða um og ekki liggur fyrir einhlít niðurstaða. Það er að mínu mati ekki hollt fyrir fræðigreinina að vera svo bundin einni ríkisstofnun og skynsamlegt að styðja starfsemi utan Hafrannsóknarstofnunar og skapa þannig nauðsynlega fjölbreytni.

Taka meira tillit til hagsmuna atvinnurekstrarins

Svæðislokun er grundvölluð á því að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna. Það er ekki lokað vegna þess að stofninn sé að öðrum kosti í útrýmingarhættu eða að veiðarnar skaði verulega stofninn, heldur er lagaheimildin einvörðungu bundin hagkvæmri nýtingu stofnsins. Það sem metið er hvenær vænta má þess að veiddur fiskur skili mestum tekjum. Mér finnst að til þessa hafi of lítið verið litið til fjárhagslegra hagsmuna þeirra sem stunda veiðarnar eða hafa atvinnu sína af þeim á annan hátt. Svo viðamikil lokun sem var í Breiðafirðinum einfaldlega tók fyrir línuútgerðina og fjölmargir misstu vinnu sína og fyrirtækin töpuðu miklum tekjum. Þarna þarf að vega saman þessa hagsmuni, hugsanlegan ávinning af því að veiða fiskinn síðar og skaðann af því að banna veiðarnar. Það má ekki bera svo fyrir borð atvinnuhagsmunina eins og gert hefur verið.

Beita veiðarfærastýringu í meira mæli

Þriðja atriðið sem ég lagði áherslu á er að leggja meira upp úr því að þróa veiðarfærin þannig að þau veiði síður þann fisk sem vernda á. Gerð og lögun veiðarfærisins, svo sem króksins, eða beitan sjálf hefur umtalsverð áhrif á veiðarnar og því er að mínu mati skynsamlegra að takmarka veiðar við tiltekna gerð veiðarfærisins eða beitunnar fremur en að banna veiðarnar alveg. Hið opinbera á að beita sér sérstaklega fyrir rannsóknum og þróun á gerð veiðarfæranna. Ég minni á það sem gerðist fyrir fáum árum að snjallir útgerðarmenn komust að því að þeir gátu með tiltekinni beitu einbeitt sér að veiðum á ýsu og sneitt hjá þorski.

Athugasemdir