Heimasíðan kristinn.is

Pistlar
Share

Í dag hef ég tekið í notkun heimasíðu, kristinn.is, og feta þar í fótspor margra sem hafa nýtt sér netið til þess að koma á framfæri skoðunum sínum eða öðru sem menn vilja vekja athygli á. Ég mun nota heimasíðuna einkum á þann hátt og setja fram skoðun mína á þjóðfélagsmálunum og blanda saman við frásögn af atburðum og öðru sem ég tel eiga erindi til almennings.
Á heimasíðunni hefur verið safnað saman greinum, pistlum, ræðum, viðtölum og öðru sem tengist þingmannsferli mínum, allt frá marsmánuði 1991. Ekki er kollheimt af gömlu efni, en því verður skotið inn á síðuna eftir því sem það kemur í leitirnar. Víst er að margt hefur breyst á þessum 14 árum, um sumt má segja að þar er lýst sjónarmiðum sem eru barn síns tíma og skoðanir mínar hafa breyst, en annað hefur staðist tímans tönn og á enn fullt erindi í þjóðfélagsumræðuna.

Ég tel rétt að menn hafi aðgang að efninu eins og það var sett fram á sínum tíma og geti kynnt sér það. Alls eru 120 greinar, pistlar og annað efni að finna á heimasíðunni. Hægt er að finna það allt í tímaröð undir heitinu pistlar og auk þess að efnið er flokkað i í 8 flokka og með því að smella á t.d. sjávarútvegsmál á forsíðunni koma upp allar greinar sem þeim málaflokki tilheyra allt frá árinu 1991, samtals 36 greinar.
Þá eru 9 myndasyrpur, sem má fá upp með því að smella á myndir á forsíðunni. Ég hef tekið mikið af myndum í gegnum árin og smátt og smátt munu fleiri syrpur koma á vefinn bæði af nýju og eldra efni.
Allar ábendingar um það sem betur má fara eru vel þegnar.

Við búum við lýðræðisskipulag og það þrífst ekki nema að menn séu óhræddir við að setja fram skoðanir sínar og færa fyrir þeim rök. Menn verða að vera frjálsir og óþvingaðir í umræðunni. Þegar menn láta hótanir eða refsiaðgerðir stjórna sér þá er lýðræðið í miklum vanda. Bæði vegna þess og ekki síður hins að þá eru til menn sem beita slíkum aðferðum. Ég vona að allir séu sammála um það að slíkt eigi ekki að líða, ekki undir neinum kringumstæðum. Lýðræðið er ekki sérstaklega til það tryggja ákveðnum skoðunum framgang, heldur til þess að tryggja að allar skoðanir geti koma fram og skipulag sem mælir fyrir um aðferðir til að komast að niðurstöðu. Ef það er samkomulag um aðferðina þá er líklegt að menn uni niðurstöðunni, þótt ósammála séu. Lýðræðislegt skipulag er ekki varanlegt í sjálfu sér, heldur verður stöðugt að rækta þau gildi sem það hvílir á. Lítil heimasíða eins manns er lítið framlag til þess, en framlag samt.

Athugasemdir