Hækkum skattinn

Pistlar
Share

Það á að hækka fjármagnstekjuskatt. Hann er nú 10%, en til samanburðar er skattur á launatekjur yfir skattleysismörkum tæplega 40%. Þetta er mikill munur, reyndar allt of mikill munur. Norski hægri maðurinn Kare Willoch, fyrrverandi forsætisráðherra , lét í sér heyra með eftirminnilegum hætti fyrir rúmu ári einmitt um þetta atriði. En norska skattkerfið er ekki ósvipað því íslenska að þessu leyti. Willoch telur að skattkerfinu sé með þessu beitt til þess að grafa undan mikilvægum gildum í samfélaginu, áður var sagt "vinnan göfgar manninn" en nú gildir: "fjármagnið göfgar manninn". Hann er þeirrar skoðunar að vinnulaun séu of hátt skattlögð meðan laun fjármagnsins njóti skattfríðinda.

Ég er sammála norska hægri manninum, þessi skattastefna verðlaunar þá sérstaklega sem afla sér tekna af fjármagni og ýtir undir það viðhorf að slík tekjuöflun njóti sérstakrar velvildar þjóðfélagsins og að tilgangurinn helgi meðalið við þá iðju. Litið er á óprúttnar aðferðir manna í fjármálaheiminum með umburðarlyndi og jafnvel velþóknun af því að af þeim fæst mikill gróði og hagsmunir annarra verða að víkja fyrir svo mikilvægu markmiði. Í þessu felst að athafnamennirnir á þessu sviði eru leystir undan því að bera nokkra ábyrgð og verðlaunaðir með lágum sköttum af risagróða. Willoch hitti naglann á höfuðið, það er verið að grafa undan mikilvægum gildum í samfélaginu. Vissulega mega menn græða vel, en það leysir þá ekki undan þeirri ábyrgð að taka þátt í að fjármagna samfélagslegan kostnað, þvert á móti þeir eiga að greiða skatta eins og aðrir, að minnsta kosti ekki lægri, og vera stoltir af. Hvernig getur það verið sanngjörn útdeiling byrðanna að öryrkinn greiði tæplega 40% skatt af bótum sínum yfir skattleysismörkum en athafnamaðurinn greiði 10% skatt af sínum fjármagnstekjum þótt þær nemi tugum milljóna króna ? Svarið er einfalt, það er ekki sanngjarnt.

Á síðasta ári voru framtaldar fjármagnstekjur tæplega 64 milljarðar króna. Dreifing þeirra var þannig að 5% tekjuhæstu framteljendurnir töldu fram 46,5 milljarða króna eða 73% allra fjármagnsteknanna. Það gerir 4,2 milljónir króna pr. einstakling í þessum tekjuhópi. Af þessu tekjum greiddu menn aðeins 10% skatt. Þetta er ekki rétt skipting að mínu mati, menn eiga að greiða meira af fjármagnstekjum og hið eðlilega markmið er að skattgreiðslur af fjármagnstekjum verði sambærilegar við vinnulaun. Það á því ekki bara að huga að því að lækka skatta af vinnulaunum heldur á líka að hækka skattinn á fjármagnstekjurnar. Það er í fullu samræmi við eðlileg siðferðileg gildi í þjóðfélaginu. Það væri varlegt skref að hækka fjármagnstekjuskattinn úr 10% í 15% að þessu sinni og ekki telst það hátt miðað við skattlagningu fjármagnstekna í þeim 30 ríkjum sem eru innan OECD. Aðeins Íslendingar og Grikkir eru með lægri skatt en 15%, þrjár þjóðir eru með 15% skatt og í Bandaríkjunum er skatthlutfallið 19,7%. Þeir eru margir sem hafa tekjur af fjármagni og fer fjölgandi. Það er vel, en af þeim tekjum eiga menn að greiða skatta eins og hinir sem selja vinnuafl sitt. Auðvitað.

Athugasemdir