Á heimasíðu sinni skýrir Valgerður Sverrisdóttir aðild sína að þeirri ákvörðun að útiloka mig frá störfum fyrir þingflokks Framsóknarmanna innan þings sem utan. Telur hún að ákvörðunin þurfi ekki að koma neinum á óvart "þegar atburðir síðustu mánaða og ára eru hafði í huga" og vísar svo til þess að "stefna Kristins hefur verið á skjön við meginstefnu flokksins í mikilvægum málaflokkum svo sem atvinnumálum, efnahagsmálum, utanríkismálum". Klykkir hún svo út með því að hún geti ekki krafist þess að ég sé og verði framsóknarmaður, það ákveði ég sjálfur.
Aðeins 61% tryggð kjósenda flokksins
Ég hef skoðað afstöðu stuðningsmanna Framsóknarflokksins í 6 stórum og umdeildum málum. Í þeim öllum fara viðhorf meirihluta stuðningsmannanna saman við mín sjónarmið. Hins vegar held ég að í þeim öllum séu skoðanir Valgerðar í minnihluta og oft í verulegum minnihluta. Skyldi Valgerður segja að stuðningsmenn flokksins séu ekki framsóknarmenn eða hefur það breyst svo, sem felst í því að vera framsóknarmaður að mati Valgerðar, að framsóknarmennirnir hafa ekki áttað sig á því og eru að verða viðskila við prókúruhafa Hinnar Réttu Skoðunar Flokksins. Ég tek eftir því að í rannsóknum Gallup kemur fram að svonefnd tryggð kjósenda við stjórnmálaflokka er minnst við Framsóknarflokkinn og hefur nánast hrunið á síðustu árum. Í ágúst 2002 birtir Gallup athugun og þar er tryggð kjósenda flokksins aðeins 75,6% miðað við kosningarnar 1999 og er sú lægsta af öllu flokkum. Hinn stjórnarflokkurinn nýtur þá stuðnings 91,6% kjósenda sinna. Tveimur árum síðar, ágúst 2004, kemur önnur könnun á því sama. Þá ætla aðeins 61,0% þeirra sem kusu flokkinn í fyrra að styðja hann nú. Tryggðin er hins vegar miklu hærri hjá Sjálfstæðisflokknum eða 84,6%.. Hvers vegna eru kjósendurnir að yfirgefa flokkinn í miklu meira mæli en hjá öðrum flokkum og hvers vegna er staðan svona góð hjá hinum stjórnarflokknum ? Augljóst, Framsóknarflokkurinn er að standa að ákvörðunum sem kjósendur flokksins eru ósáttir við en þær ákvarðanir falla á hinn bóginn kjósendum Sjálfstæðisflokknum vel í geð.
Kjósendur og Kristinn sammála
Ég hef beitt mér fyrir breytingum á kvótakerfinu en Valgerður staðið á móti. Gallup upplýsir í síðasta mánuði að aðeins 39% stuðningsmanna flokksins styðji óbreytt kerfi, 53% þeirra vilja breyta því og 8% leggja það niður. Fyrir tveimur árum gerði Gallup könnun um sölu Símans, 64% stuðningsmanna flokksins vildi ekki selja. Aðeins 9% stuðningsmanna flokksins studdu stríð við Írak og 54% vildi ekki stríð undir neinum kringumstæðum. sbr. Gallup í febrúar 2003. Samt var tekin ákvörðun sem aðeins 9% stuðningsmanna flokksins studdu. Í mars 2003 sýnir könnun Fréttablaðsins að 63% kjósenda flokksins eru andvígir ákvörðun ríkisstjórnarinnar í Íraksmálinu. Í fjölmiðlamálinu var ríkisstjórnin í miklum minnihluta samkvæmt öllum könnunum og í gegnum allar útgáfur málsins. Í júlí voru aðeins 36% kjósenda flokksins sem ætluðu að staðfesta fjölmiðlalögin en 53% kjósendanna ætluðu að greiða atkvæði gegn lögunum. ‘Aform ríkisstjórnarinnar um að setja skilyrði um aukinn meirihluta til þess að fella lögin úr gildi studdu aðeins 32% kjósenda flokksins en 62% þeirra voru andvígir. Ákvörðun forseta Íslands um að synja um staðfestingu á lögunum studdu 51% kjósenda flokksins en aðeins 40% voru á móti. Fleiri mál get ég nefnt svo sem afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu, einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og framkvæmd jafnréttissamþykkta flokksins. Í öllum þessum málum tel ég með rökum að afstaða mín sé í góðu samræmi við vilja meirihluta stuðningsmanna flokksins.
Þeir eru margir sem eru mjög hugsi yfir því hvert stefnir með lýðræðið eftir átök undanfarins árs, þar sem ríkisstjórnin hefur verið helsti gerandinn. Sveinbjörn Eyjólfsson, oddviti í Borgarfjarðarsveit og áður aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra flutti góða hátíðarræðu 17. júní sl. í Borgarnesi. Hann velti þessu fyrir sér og sagði m.a.: "Lýðræði er ekki síður menning en stjórntæki. Þeir sem fara hverju sinni með vald verða að hlusta. Það dugir ekki lengur að tala og gera lítið úr skoðunum annarra sem e.t.v. eru manni ekki sammála. Í Íraksmálinu var ekki hlustað og í raun virðist enginn hafa tekið þessa ákvörðun. Málið var ekki rætt á Alþingi og fólkið í landinu fékk ekki að tjá sig. Hér voru gerð mikil mistök sem endurspeglast í þeirri stöðu sem nú er uppi að forseti lýðveldisins neitar að staðfesta lög er varða eignarhald á fjölmiðlum." Er þetta ekki kjarni málsins, menn þurfa að gera meira af því að hlusta og minna af því skipa fyrir.
Athugasemdir