Háskóli á Ísafirði : margföldunaráhrif meiri en af stóriðju

Greinar
Share

Innan Framsóknarflokksins hefur verið unnið að því að afla stuðnings við stofnun sjálfstæðs háskóla á Ísafirði. Kjördæmisþing flokksins í Norðvesturkjördæmi ályktaði í síðasta mánuði því til stuðnings. Sérstök nefnd var skipuð í vor um atvinnu- og byggðamál í kjördæminu og skilaði hún af sér viðamikilli skýrslu sem kynnt var á kjördæmisþinginu. Vestfirðingar áttu 3 fulltrúa í nefndinni, en það voru Guðni Geir Jóhannesson, Kristján Jóhannsson og Sigurður Viggósson. Þeir stóðu sig vel eins og skýrslan ber með sér.
Meðal þess sem nefndin leggur til, og kjördæmisþingið gerði að stefnu flokksins, er að innan þriggja ára verði stofnaður háskóli á Ísafirði á sviði rekstrar- og verkfræði sjávarútvegs, vinnuvísinda, frístundafræða og fjölmenningarfræða. Einnig verði hugað að listgreinum á háskólastigi. Starfsemi háskólans á sviði rekstrar- og verkfræði verði byggð á nýrri miðstöð eldis- og veiðitækni á Ísafirði sem verði staðsett í háskólanum og verði hluti af honum. Samhliða verði haldið áfram að efla rannsóknir á svæðinu og kannaðar forsendur þess að stofnuð verði alþjóðleg rannsóknarstofnun við háskólann með þátttöku erlendra aðila sem tengi saman rannsóknir á sviði sjávarútvegs og umhverfismál.
700 manns á svæðinu
Stefnt er að því að í háskólanum verði 400 nemendur og bent á að í kjördæminu séu aðeins 4% háskólanema landsins en þar búi 11% landsmanna. Bent er á að háskólar sporni við byggðaröskun og bent á reynsluna af Háskólanum á Akureyri. Þeir renni nýjum stoðum undir atvinnulíf og auki fjölbreytni þess. Varleg áætlun gerir ráð fyrir skóla af þeirri stærð, sem nefndin leggur til, fylgi 25 – 30 ársverk við skólann, auk afleiddra starfa og að íbúar á svæðinu verði um 700 fleiri en ef enginn skóli væri. Þessari fólksfjölgun fylgir fjölgun fyrirtækja, bættur hagur sveitarfélaga, lægra vöruverð og aukið þjónustustig. Svo það fer ekki milli mála að mikill ávinningur fylgir stofnun háskóla og á mörgum sviðum.
háskólasetur ekki lausnin
Nefndin gerir ráð fyrir að háskólasetur verði undanfari sjálfstæðs háskóla og það er athyglisvert hvernig hún rökstyður það að háskólasetur getur ekki verið lausnin: "Þegar til lengri tíma er litið er mikilvægt að háskóli sé stofnaður fremur en háskólasetur í tengslum við Háskóla Íslands. Háskólar leika mikilvægt hlutverk í byggðaþróun, þar sem þeir stuðla að því að svæðisbundin þekking sé hagnýtt til hins ýtrasta. Þeir stuðla að því að sérfræðingar starfi og búi á viðkomandi svæði og tryggja þannig varanleg samskipti við atvinnulíf svæðisins og nærsamfélag. Háskólar stuðla því að staðbundin þekking vaxi og dafni á svæðinu. Forsenda vaxtar staðbundinnar þekkingar og nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi sem af henni sprettur er að traust til langs tíma skapist milli aðila. Háskólasetur, sem eru hluti af utanað komandi háskólum er ekki eins fært um að skapa slíkt traust."
Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að rannsóknir hér á landi bendi til þess að margföldunaráhrifin séu meiri af háskóla en af stóriðju. Það er athyglisvert og segir okkur að þótt engin verði málmbræðslan eru ýmsar leiðir opnar og að það að byggja upp þekkingarsamfélag skilar miklum árangri og kannski haldbetri þegar horft er til lengri tíma.
fordómar og hagsmunagæsla
Við er að glíma ýmsa þröskulda á leiðinni til sjálfstæðs háskóla á Ísafirði. Þeir helstu eru fordómar og hagsmunagæsla. Fordóma þeirra, sem halda að þekking sé bundin við ákvæðin landssvæði og týnist utan þeirra. Þessar bábiljur voru mjög áberandi þegar sótt var á að stofna menntaskóla um landið á sínum tíma og aftur þegar Háskólinn á Akureyri var stofnaður. Var ekki einhvern tíma talið af vitringum í Kaupmannahöfn að ekki væri hægt að stofna háskóla á Íslandi ? Svo eru það þeir sem missa spón úr aski sínum ef nýr háskóli yrði til á Ísafirði, þeir eru óþreytandi úrtölumenn sjálfstæðs háskóla en halda fram háskólaseturshugmyndinni. Menn eiga að varast þokukenndar hugmyndir og loðnar tillögur. Mikilvægast er fyrir Vestfirðinga að hafa markmiðið skýrt og stefna að því. Þá mun árangur nást á skömmum tíma. Markmiðið er sjálfstæður háskóli á Ísafirði.
Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir