Á að lækka erfðafjárskatt?

Greinar
Share

Svarið er já. Ástæðan er sú að um það er samið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar segir að á kjörtímabilinu verði erfðafjárskattur samræmdur og lækkaður. Fyrir þeirri stefnu eru líka gild rök. Í gildandi lögum er ýmisleg sem sætir gagnrýni. Ráðherra hefur ýmsar matskenndar heimildir til að undanþiggja ákveðna aðila greiðslu erfðafjárskatts. Málsmeðferðarreglur erfðafjárskatts, sem og álagning, eftirlit og innheimta hans hafa verið frábrugðnir því sem almennt gildir um aðra skatta. Skattayfirvöld hafa lítið komið að álagningu og eftirliti með skattinum og ágreiningsmál hafa ekki verið kæranleg til yfirskattanefndar. Þetta á sér sögulegar skýringar. Frá 1952 til ársins 2000 rann skatturinn í erfðafjársjóð, sem hafði það hlutverk að endurhæfa fólk sem ekki gat sér sér farborða og sjóðurinn heyrði undir Félagsmálaráðuneytið. Þessu var breytt fyrir 3 árum, sjóðurinn lagður niður og málaflokkurinn fluttur til fjármálaráðherra. Þá er skatthlutfallið gegnrýnt, en það fer stighækkandi eftir upphæð gjaldstofns og sifjatengslum og getur orðið allt að 45%.
Allt þetta gerir það að verkum að nauðsynlegt er að setja ný lög um erfðafjárskatt og færa framkvæmd nær því sem er um skatta og lækka hlutfallið og draga þannig úr miklum jaðaráhrifum. Áform stjórnarflokkana eru að lækka skattinn í 5% í lægra þrepi og 10% í hærra þrepi. Við það lækka tekjur ríkissjóðs um helming að því er áætlað er eða um 300-400 milljónir króna á ári.
Að lokum skal sett fram það sjónarmið að eðlilegt er að greiddur sé erfðafjárskattur. Það er gert í flestum ríkjum OECD svo dæmi séu nefnd. Ástæðan er einföld, einstaklingur fær með erfðum verðmæti sem hann hefur ekki aflað sér sjálfur og meginregla skattalaga er sú að slíkar tekjur séu skattskyldar og skiptir þá ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru, sbr. 7. gr. laga um tekju- og eignarskatt. Þessi verðmæti falla undir þessa skilgreiningu, en segja má að tekið sé tillit til sérstaks eðlis þeirra með því að hafa skattinn verulega lægri en almennt gildir.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir