Lenging Þingeyrarflugvallar: 153 mkr.

Greinar
Share

Lenging Þingeyrarflugvallar er kominn aftur á dagskrá. Í nýsamþykktri samgönguáætlun fyrir árin 2003-2006 eru 153 mkr. ætlaðar til verksins. Árið 2003 eru 5 mkr. vegna undirbúnings við lengingu flugbrautar á Þingeyri. Árið 2004 eru 51,3 mkr. til lengingar flugbrautarinnar og 39 mkr. árið eftir og loks 58,2 árið 2006. Samtals eru þetta 153,5 mkr. og loksins hefur verið tekin ákvörðun um langþráða lengingu brautarinnar.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að flugbrautirnar á Ísafirði og Þingeyri veita saman meira flugöryggi inn á norðanverða Vestfirði ef unnt er að nýta brautina á Þingeyri til fullnustu og með þessari framkvæmd verður bætt úr möguleikum Þingeyrarvallarins. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir fólk og atvinnulíf í Dýrafirði og styrkir flug til Þingeyrar.

Þegar áætlunin var fyrst lögð fram á Alþingi var ekki gert ráð fyrir fé til þessara framkvæmda og við fyrri umræðu málsins, sem fram fór 4. febrúar vakti Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður athygli á því að ekki var gert ráð fyrir neinum fjárveitingum til þess að bæta aðstæður á Þingeyri, sem fyllilega væri þó þörf á og minnti þar sérstaklega á lengingu flugbrautarinnar.Þingmaðurinn sagði að lokum :”Ég hygg að að það verði að skoða vandlega hvort ekki sé rétt að gera ráð fyrir því að bæta fjárveitingum inn á Þingeyri á þessu áætlunartímabili.”
Í meðförum Alþingis var tekið tillit til þessarar ábendingar og meirihluti samgöngunefndar lagði til þessar fjárveitingar til þess að lengja flugbrautina. Tillagan var svo samþykkt með 41 samhljóða atkvæði, þar sem aðeins þingmenn Samfylkingarinnar sátu hjá.

Athugasemdir