Frjálslyndir ævintýramenn

Greinar
Share

Í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var fyrir Morgunblaðið kom í ljós að þau tvö mál sem skipta kjósendur mestu máli eru skattamál og velferðarmál.Það er sérstaklega athyglisvert að skoða málflutning Frjálslynda flokksins í þessum tveimur stóru málaflokkum.

Skattalækkun um 50 milljarða króna
Í skattamálum eru tvö aðalmál, hækkun persónuafsláttarins og annaðhvort afnám tekjutengingar á barnabótum eða 10 þús. kr. persónuafsláttur með hverju barni undir 16 ára aldri. Í viðtali við Mbl. sunnudaginn 20. apríl nefnir formaður flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson, 10 þús. kr. hækkun persónuafsláttarins, en á vefsíðu flokksins er upplýst að stefna flokksins er að hækka persónuafsláttinn á tveimur árum í 46.000 kr. á mánuði sem þýðir liðlega 19 þús. kr. hækkun. Þetta eru kostnaðarsamar breytingar, 10 þús. kr. persónuafsláttur fyrir hvert barn undir 16 ára aldri kostar u.þ.b. 8 milljarða króna á ári, ef hann nýtist að fullu og hækkun persónuafsláttarins um 10 þús kr. kostar ríkið um 22 milljarða króna og hækkun um 19 þús. kr. kostar um 42 milljarða króna á ári. Árlegur kostnaður við tillögur Frjálslynda flokkins eru um 30 milljarðar króna strax á næsta ári og hækkar í um 50 milljarða króna árið 2005 og er þá ekki lagt mat á aðrar tillögur um velferðarútgjöld og lækkun skatta sem flokkurinn boðar. Þetta er svipuð fjárhæð og nú fer til allra heilbrigðismála; sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, hjúkrunarheimila o.s.frv. Þótt tillögurnar séu ágætar og hugurinn efalaust góður þá er þetta glórulaus ævintýramennska í fjármálum ríkisins sem mun leiða af sér verðbólgu og óstöðugleika á nýjan leik. Tillögurnar slá út loforðaflaum Sjálfstæðisflokkins og er þá langt til jafnað.
Ekki síður er ástæða til að hafa áhyggjur af ábyrgðarleysi eða kæruleysi í ríkisfjármálum. Formaður flokksins virðist ekki hafa gert sér grein fyrir fyrir kostnaði af hækkun persónuafsláttarins og vanáætlaði hann verulega. Taldi Guðjón Arnar að kostnaður af 10 þús. kr. hækkun væri 10 milljarðar króna þegra hið rétta er 22 milljarðar króna. Viðbrögð hans voru í viðtali við RÚV telja kostnaðinn lægri þar sem talsverður hluti útgjaldanna kæmi aftur til ríkisjóðs vegna tekna ríkissjóðs af veltusköttum. Í Morgunblaðsviðtalinu telur formaðurinn að kostnaður við 30 milljarða króna útgjöld sé ekki nema 14 milljarðar króna.Svona geta ábyrgir stjórnmálamenn ekki talað eða heldur Guðjón Arnar virkilega að hægt sé að auka útgjöld ríkissjóðs t.d. um 100 milljarða króna og að einungis þurfi að afla tekna fyrir tæpum helming útgjaldanna ? Svona ábyrgðarleysi verður aðeins leyst með seðlaprentun og af henni leiðir verðbólga. Skattastefna Frjálslyndra er aðför að efnahagslegum stöðugleika. Það er líklega eins gott að fjármálasnillingarnir í Frjálslynda flokknum komist ekki í fjármálaráðuneytið.

Velferðarmál 9 milljarðar kr.
Umfjöllun Frjálslyndra um velferðarmál ber þess merki að sjávarútvegsmálin eru höfuðmál flokksins og stefna þeirra er stuttaraleg. Í raun vísa þeir aðeins til velferðartillagana ASÍ og segjast taka undir þær að miklu leyti. Ákaflega lítið fer fyrir eigin framlagi þeirra í þessum málaflokki sem kjósendur telja svo mikilvægan. Með þessu er engan veginn gert lítið úr tillögum ASÍ heldur er verið að benda á að áhugasvið Frjálslynda flokksins liggur ekki í velferðarmálum. Kostnaður við tillögur Alþýðusambandsins er áætlaður af þeim sjálfum um 9 milljarðar króna, sem verður að teljast mjög varleg áætlun svo ekki sé meira sagt.
Samanlagður kostnaður við tillögur Frjálslynda flokksins í skatta- og velferðarmálum er um 60 milljarðar króna á ári, þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda. Engin tillaga um tekjuöflun er í málefnaskrá Frjálslynda flokksins fyrir þessar kosningar. Það er ekki nokkur leið að hrinda þessum loforðum í framkvæmd án þess að missa öll tök á fjármálum hins opinbera, sem mun leiða til óðaverðbólgu. Frjálslyndir eru sannkallaðir ævintýramenn í efnahagsmálum, þar róa þeir á pólitísku sóknarmarki.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir