Við erum á réttri leið

Pistlar
Share

Ásthildur Cesil Þórðardóttir skrifar á netið og spyr á hvaða leið við erum til hjálpar þeim sem minnst mega sín. Svar mitt er : við erum á réttri leið.
Ásthildur víkur að yfirlýsingu Framsóknarflokksins fyrir síðustu Alþingiskosningar um milljarð króna til baráttu gegn vímuefnanoktun til viðbótar reglubundnum fjárveitingum og telur að lítið hafi orðið úr efndum. Greinilegt er að Ásthildi er málið mikilvægt enda kynnir hún sig sem móður sem þekkir vel til þessara mála af eigin reynslu. Vímuefnanotkun er mikið böl og það eru því miður margar mæður (og feður) sem þekkja til þessara mála af eigin raun. Meðal annars í Framsóknarflokknum og það var m.a. ástæða þess að flokkurinn lét þessi mál til sín taka sérstaklega fyrir síðustu kosningar. Þá brást Ásthildur ekki nógu jákvætt við að mínu mati og fann þessu loforði okkar Framsóknarmanna flest til foráttu. Það var miður, allir sem vilja þessu máli vel eiga að taka höndum saman, ekki veitir af. Þetta er ekki þinglýst mál Ásthildar eða Frjálslynda flokksins. Ég vil hvetja hana til þess að leggja okkur og öðrum lið í málinu, vinna með okkur en ekki gegn okkur. Þá næst líka meiri og betri árangur.

Liðlega hálfur annar milljarður króna.
Grein Ásthildar er því miður ekki vönduð og virðist mest lagt upp úr að sverta stjórnvöld og þá sem unnið hafa af miklum dugnaði og heilindum á undanförnum árum að úrbótum í málaflokknum. Því verður að svara. Fyrst um meintar vanefndir á milljarðinum. Hið rétta er að það loforð hefur verið efnt að fullu og meira en það. Liðlega 1600 milljónum króna hefur verið varið í sérstökum fjárveitingum á kjörtímabilinu til margra verkefna á þessu sviði. Þau eru auknar forvarnaraðgerðir, stuðningur við frjáls félagasamtök á svið forvarna og meðferðarúrræða, fjölgun meðferðarúrræða hjá ríkinu, samræming starfsemi lögreglu og tollgæslu svo helstu dæmi séu nefnd.
Til Unglingadeildar SÁÁ, byggingar og reksturs, hefur verið varið um 260 mkr. á árunum 1999-2003 í sérstakar fjárveitingar til viðbótar öðrum fjárveitingum til SÁÁ. Önnur meðferðarheimili fengu 223 mkr. í viðbótarfjárveitingar á þessum tíma, það eru Virkið,

Krossgötur, Byrgið, SÁÁ og Krísuvíkurskóli.
Til geðheilbrigðismála var varið 279 mkr. til Barna- og unglingadeildar Landssspítalans, Barnaverndarstofu, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og barnageðlækna á stofum og enn er undirstrikað að þetta voru viðbótarfjárveitingar m.a. tengdar fyrrgreindu loforði en ekki aðrar reglubundnar fjárveitingar. Samtals eru þessar fjárveitingar um 820 mkr. hjá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Í Félagmálaráðuneytinu eru fjárveitingarnar um 550 mkr. til Barnaverndarstofu, BUGL, Krossgatna, Götusmiðjunnar, Byrgisins og Skjöldólfsstaða og um 350 mkr. í Dómsmálaráðuneytinu til fíkniefnalöggæslu. Samtals eru þetta liðlega 1600 mkr.
Framsóknarflokkurinn hefur staðið við umrætt kosningaloforð að fullu og vel það. Því á Ásthildur Þórðardóttir að fagna og koma til liðs við okkur framsóknarmenn í þessu máli.

Unnið í samáði við Byrgið.
Þá víkur Ásthildur að málefnum Byrgisins og telur þar illa að verki staðið hjá stjórnvöldum. Leyfir sér meira að segja að segja:”’Eg á ekki orð til að lýsa hneykslan minni á öllu þessu máli. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að í raun og veru er enginn vilji til að vinna vel og heiðarlega að þessum málum heldur er kastað til þess höndum á allan hátt.” Hér er ómaklega vegið að mörgum sem unnið hafa að málefnum Byrgisins og málinu almennt og að væna allt þetta fólk um að vilja ekki vinna heiðarlega er fyrir neðan allar hellur og ég skora á Ásthildi að draga þau til baka og biðjast afsökunar.
Rockville er á landi bandaríska hersins sem er í landskilum. Íslenska ríkið stendur frammi fyrir tveimur kostum, að leyfa starfsemi Byrgisins að vera áfram í Rockville en það þýðir að leyfa verður hernum að skila landinu eins og það er og losa hann undan kvöðum um að hreinsa svæðið bæði af húsum og hugsanlegri mengun í jarðvegi. Allur kostnaður við hreinsun myndu þá falla á ríkið. Hinn kosturinn sem varð ofan á er að gera hernum að standa við samninga og kvaðir í þeim varðandi landskilin. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að kaupa húsnæði fyrir starfsemi Byrgisins og ríkið mun greiða allan kostnað við kaupin og auk þess gera samning við Byrgið um rekstur heimilisins sem tryggir starfsemina inn á fjárlög ríkisins. Hvort tveggja eru nýmæli og ástæða til þess að hrósa ríkisstjórninni fyrir en af einhverjum ástæðum kýs Ásthildur að rífa niður það sem vel er gert. Að lokum var ákvörðun um kaupin á Efri Brú tekin með fullri vitund forsvarsmanna Byrgisins. Þeir fóru á vettvang með hluta af vinnuhóp ríkisstjórnarinnar og skoðuðu húsnæðið og lýstu yfir mikilli ánægju með það. Kaupin voru ákveðin eftir þá ferð.

Vandinn vegna neyslu fíkniefna er mikill og víst er að mikið verk er þar óunnið. Hitt er deginum ljósara að Framsóknarflokkurinn hefur staðið við sín fyrirheit í málinu og að margir flokksmenn vilja leggja sig fram í baráttunni við þessa vá. Við vitum að í öðrum flokkum er líka fólk sem vill vinna af heilindum að sama markmiði og mestum árangri náum við með því að taka höndum saman. Vinnum saman hönd í hönd og ég vona að Ásthildur taki í hönd okkar og láti af þeirri iðju að ófrægja sína bestu samherja í þessu hjartans máli hennar.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir