Framsókn: Kjölfestan í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar

Greinar
Share

Framsókn: kjölfestan í bæjarstjórn

Núverandi meirihluti í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur mátt glíma við aðstæður á þessu kjörtímabili sem eru um margt óvenjulegar. Síðustu áratugir hafa einkennst af uppbyggingu og stórstígum framförum sem fyrst og fremst hafa hvílt á sjávarútvegi, því fylgir að sveitarfélagið nýtur góðs af í tekjum og möguleikum til að veita íbúunum góða þjónustu.
Því er ekki að leyna að síðustu ár hafa einkennst af varnarbaráttu, samdráttur í útgerð, fækkun íbúa og lækkandi tekjur gera það að verkum að sveitarfélagið safnar skuldum og við bætast síðan úrlausnarefni vegna sameiningar sveitarfélaganna fyrir 6 árum. Þessar aðstæður verður að hafa í huga þegar lagt er mat á árangur á kjörtímabilinu.

Ég tel að meirihlutaflokkarnir hafi náð að mörgu leyti góðum árangri og skili af sér góðu búi við lok kjörtímabilsins. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins hefur gjörbreyst við sölu á hlut sveitarfélagsins í Orkubúi Vestfjarða hf og sveitarfélagið hefur öðlast fjárhagslega getu til þess að sækja fram í þjónustu og uppbyggingu. Ávinningurinn er mikill og kannski fyrst og fremst í þeim möguleikum sem í hendi eru fyrir bæjarfélagið til þess að snúa vörn í sókn.
Á móti kemur að því geta fylgt annmarkar að sveitarfélögin ráði ekki framtíð fyrirtækisins og rekstri. Því er hins vegar til að svara að almennt gildir um atvinnurekstur að sveitarfélögin koma ekki að honum og til lengri tíma litið er vandséð að hlutverk sveitarfélaga verði að eiga og reka orkufyrirtæki. Því má heita fullvíst að breytingar hefðu orðið fyrr eða síðar á þátttöku sveitarfélaga í þessari atvinnugrein. Ríkisvaldið ákvað að bjóða sveitarfélögunum að kaupa af þeim eignarhlut þeirra á mjög góðu verði og því er ekki að neita að auðvitað var verið að koma peningum úr ríkissjóði til sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Það má færa rök fyrir því að um sértæka aðgerð hafi verið að ræða, þótt ég ætli ekki að halda því fram. Engin sérstök nauðsyn var fyrir ríkið að eignast allt fyrirtækið og menn mega ekki gleyma því að ríkissjóður hafði áður yfirtekið allar langtímaskuldir fyrirtækisins. Auk þess liggur svo fyrir að engar umtalsverðar breytingar verða á rekstri Orkubúsins á næstu árum. Ríkisstjórnin var ekki að koma að þessu máli til þess að gera Vestfirðingum óleik, heldur þvert á móti er ásetningur stjórnarflokkanna að styrkja byggð á Vestfjörðum með aðkomu að málinu. Meirihluti bæjarstjórnarinnar og stjórnarflokkarnir unnu saman að þessu máli og náðu niðurstöðu sem allgóð samstaða er um.
Ég vil nefna annað mál sem hefur hvílt þungt á vestfirskum sveitarfélögum en það er félagslega íbúðakerfið. Vegna fólksfækkunar hafa sveitarfélögin þurft að innleysa margar íbúðir sem ekki hafa selst og jafnvel staðið auðar. Nú er verið að lögfesta tillögur sem ríkisstjórnin og fulltrúar sveitarfélaga hafa náð saman um og stórlega léttir á sveitarfélögunum kostnaði við rekstur kerfisins og heimilar að hefja sölu íbúða út úr kerfinu á markaðsverði.
Í báðum þessum málum hefur bæjarstjórnarmeirihlutinn tekist á við vandamál og fundið lausnir á þeim í viðræðum við ráðherra ríkisstjórnarinnar sem bæta hag sveitafélagsins. Þetta kalla ég góðan árangur og Framsóknarflokkurinn hefur komið rækilega að þessum málum bæði í bæjarstjórn og ríkisstjórn. Bæjarfulltrúi flokksins Guðni Geir Jóhannesson hefur að mínu viti staðið sig afar vel og haft gott samstarf við ráðherra flokksins við úrlausn þessara mála. Þegar allt er á botninn hvolft skiptir mestu máli fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar að fulltrúar þeirra nái að leysa úr málum með farsælum hætti. Þar liggur helsti styrkur Framsóknarflokksins.
Þegar kjörtímabilið er gert upp í heild sinni verður ekki annað sagt en að stöðugleiki hafi ríki í stjórn bæjarins og leyst hafi verið úr erfiðum málum með farsælum hætti þannig að staða bæjarfélagsins er góð og veruleg sóknarfæri fyrir hendi. Því hefðu fáir trúað fyrir fáum árum að svo vel tækist til. Framsóknarflokkurinn er greinilega að njóta þess nú að fólk kann að meta verk hans á kjörtimabilinu, flokkurinn býður fram mjög frambærilegan lista og hefur meðbyr eftir því sem best verður fundið. Í öðru sæti listans er Svanlaug Guðnadóttir og takmarkið er að tryggja henni sæti í bæjarstjórn og þar með styrkja Framsóknarflokkinn sem kjölfestu í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Atvinnumálin eru sem fyrr helstu málin í pólitískri umræðu. Samdráttur í sjávarútvegi og tilflutningur aflaheimilda hefur kallað á aðgerðir til atvinnuuppbyggingar af hálfu stjórnvalda. Nokkuð hefur verið unnið á því sviði þótt ég leyni því ekki að mér finnst að miði miklu hægar en ég vildi. Í vetur hefur gætt vaxandi stuðnings við því að beita hinu opinbera með beinum eða óbeinum hætti í atvinnumálum, jafnvel að grípa til sértækra aðgerða eins og í tilviki Íslenskrar erfðagreiningar hf.
Besta lausnin fyrir Vestfirðinga er að gera almennar breytingar á lögum um stjórn fiskveiðar sem tryggja jafnræði innan atvinnugreinarinnar hvað varðar öflun veiðiheimilda, það mun leiða af sér að útgerðin dafnar í fjórðungnum, en meðan það næst ekki fram verður að leita annarra leiða. Byggðakvóti er sértæk aðgerð innan núverandi kerfis og tekist hefur einkum fyrir tilstilli framsóknarflokksins að taka frá veiðiheimildir sem ráðstafað er til byggðarlaga í samræmi við samdrátt í útgerð. Fyrir þremur árum fengust 1500 tonn í byggðakvóta til 5 ára sem Byggðastofnun hefur úthlutað. Nú verður þessi kvóti framlengdur ótímabundið og verður til úthlutunar að nýju eftir 2 ár, auk þess að önnur 1500 tonn bætast við um næstu fiskveiðiáramót. Strax verður úthlutað 500 tonnum til ráðstöfunar á þessu fiskveiðiári. Sjávarútvegsráðuneytið mun úthluta þeim tonnum í samráði við Byggðastofnun og mér sýnist einsýnt miðað við samdrátt í aflaheimildum á Vestfjörðum að af þessum 1500 tonnum verði verulegum hluta ráðstafað þangað. Þá voru 2300 tonn ráðstafað í byggðakvóta til báta í smábátakerfinu við lagabreytingu um það kerfi fyrr í vetur og annaðist sjávarútvegsráðuneytið úthlutunina á þeim kvóta. Samkvæmt lögunum er ráðherra falið að úthluta til báta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem eru að verulegu leyti háðar veiðum krókaaflamarksbáta og setur hann síðan nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins. Samtals er byggðakvóti orðinn á þremur árum um 5300 tonn af botnfiski og þótt það sé að mínu viti allt of lítið þá er samt veruleg bót að því. Ég tel að meðan núverandi kerfi er við lýði þurfi a.m.k. 5% af veiðiheimildunum að vera ráðstafað með þessum hætti, en það er um 20.000 tonn.
Að lokum vil ég vekja athygli á því fram kemur í áliti meirihluta sjávarútvegsnefndar Alþingis nú við afgreiðslu frumvarpsins um stjórn fiskveiða að "meirihlutinn telur að endurskoða þurfi þessar reglur (um þorskígildi) svo og reglur um kvótanotkun og slægingarstuðul og að taka þurfi á spurningunni um undir- og yfirstuðul vegna stærðar fisks. Meirihlutinn álítur nauðsynlegt að endurskoðun verði lokið í tæka tíð svo að nýjar reglur geti tekið gildi við upphaf fiskveiðiársins 2003/2004." Hér er í raun hreyft miklu máli sem lýtur að því að beita undirstuðli varðandi kvótanýtingu við veiðar á fiski undir tiltekinni meðalþyngd eða stærð og yfirstuðli við veiðar á stórm fiski og með því tengja saman verðmætis fisksins og kvótanýtingu enda nauðsynlegt að dreifa veiðiálaginu á allan veiðistofninn en ekki einblína á stærsta fiskinn og jafnvel framkalla of þunga sókn í hann. Breyting af þesu tagi getur skipt miklu máli fyrir Vestfirðinga þeim til hagsbóta.
Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir