Það þarf pólitískan vilja

Greinar
Share

Stjórn Byggðastofnunar ákvað á fundi sínum í Bolungavík þann 20. júní sl. að eignast allmarga senda sem stofnunin á veð í og beita sér fyrir því að stækka útsendingarsvæði sjónvarpsstöðva um landsbyggðina. Þrjár stöðvar hafa snúið sér til stofnunarinnar með ósk um atbeina hennar í þessu skyni. Það eru Norðurljós vegna útsendinga Sýnar, Íslenska sjónvarpsfélagið vegna Skjás eins og Aksjón á Akureyri. Stjórnin samþykkti að fela starfsmönnum að undirbúa tillögur um uppsetningu þeirra á stöðum í dreifbýlinu í samráði við þessi þrjú fyrirtæki og aðra aðila sem kunna að gefa sig fram.
Tildrögin eru þau að Byggðastofnun veitt fyrir nokkru fyrirtæki lán til þess að koma upp dreifikerfi fyrir starfsemi sína, en það gekk ekki eftir og fyrirtækið hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar nú lýtur að því að ganga að veði stofnunarinnar fyrir láninu, sem eru sendarnir, og nýta þá til þess að auka fjölbreytni þjónustu á þessu sviði á landsbyggðinni. Ekki er ætlunin að stofnunin eigi eða standi að rekstri dreifikerfis, annaðhvort verða sendarnir seldir viðkomandi fyrirtæki eða lagðir fram sem hlutafé í því.
Minna má á að fyrir nokkrum árum ákvað stjórn Byggðastofnunar að kaupa svonefnda byggðabrú og láta koma henni upp. Það var forsenda þess að hægt var að nýta netið til þess að halda fundi á mörgum stöðum í senn og taka upp fjarkennslu m.a. á háskólastigi. Þarna sýndu stjórnmálamenn frumkvæði þegar aðrir héldu að sér höndum.
Íbúar margra staða á landsbyggðinni hafa óskað eftir bættri þjónustu á þessu sviði, t.d. er mjög óskað eftir aðgangi að útsendingum Sýnar af íþróttaáhugamönnum. Fyrirtækið bendir hins vegar á að vegna fámennis sé ekki líklegt að tekjur standi undir stofnkostnaði og rekstri dreifikerfisins. Þetta á við um fjölmarga fámenna staði um land allt.
Þá er spurningin þessi: eiga markaðslögmálin ein að ráða eða á hið opinbera að koma að málinu og stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu ? Þessarri spurningu er greinilega svarað í forystugrein Mbl. sl. sunnudag á þann veg að það sé óeðlilegt og Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri gerir slíkt hið sama svo furðulegt sem það nú er af hálfu yfirmanns ríkisstofnunar sem hefur byggt upp sitt dreifikerfi fyrir opinbert fé og lögbundið afnotagjald.
þarna er stjórn Byggðastofnunar algerlega ósammála þessum tveimur aðilum. Það er líka hlutverk stofnunarinnar að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni skv. lögum um Byggðastofnun. Sem dæmi um þátt stofnunarinnar í uppbyggingu byggðar má nefa að á síðasta ári var Viðskiptaháskólanum á Bifröst veitt ábyrgð fyrir lánum til þess að reisa skólahúsnæði, sem gerir skólanum kleift að auka framboð af námsefni og fjölga verulega nemendum við skólann. Það styrkir byggðina. Með sama hætti er það talið styrkja byggð að auka þjónustustig á ýmsum sviðum , meðal annars í afþreyingu, íbúar á fámennum stöðum landsins eiga rétt á því að hið opinbera beiti sér í þessu skyni.
Það er svo sem ekkert einsdæmi, ríkið styrkir áætlunarflug um landið t.d. til Hafnar í Hornafirði og Morgunblaðið nýtið sér þjónustuna sem þannig er unnt að veita og dreifir blaði sínu austur með flugi Flugleiða. Leiða má rök að því að með þessu sé dreifingin niðurgreidd úr ríkissjóði og ef ekki kæmi til niðurgreiðslu verði viðskiptavinir blaðsins að greiða hærra verð eða fá lakari þjónustu. Dreifikerfi R’UV væri ekki svo víðfemt sem raun ber vitni nema vegna þess að ríkið hefur greitt fyrir óarðbæra hluta þess.
Ríkið styrkir byggingu íþróttahúsa og sundlauga um landið, einkum í fámennum byggðarlögum í því skyni að auka þjónustu við íbúana á viðkomandi stöðum. Ríkið styrkir rekstur óperuhúsa og leikhúsa í miklum mæli og ekki er spurt hvort þeir sem kaupa þessa þjónustu eigi ekki einir að standa undir kostnaðinum. Þvert á móti er talið sjálfsagt að skattgreiðendur borgi brúsann að miklu leyti. Nú hefur verið ákveðið að ríkið leggi fram marga milljarða króna til þess að byggja tónlistarhús í Reykjavík, sem þýðir einfaldlega að starfsemin geti ekki staðið undir stofnkostnaði.
Öll þessi dæmi sýna að almenn samstaða er um að beita opinberu fé til þess að bæta þjónustu við íbúana, stundum svæðisbundið og stundum bundið við ákveðna áhugahópa.
Ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar um að beita sér fyrir uppbyggingu dreifikerfis fyrir sjónvarpsefni er í samræmi við almenn viðhorf landsmanna og í fullu samræmi við hlutverk stofnunarinnar. Það eru ekki aðeins íbúar dreifbýlisins sem njóta góðs af ákvörðuninni heldur einnig íbúar höfuðborgarsvæðisins þegar þeir ferðast út á land. Spurningin sem undrandi ferðamenn bera fram er hvers vegna dreifikerfi RÚV er víða svo lélegt sem raun ber vitni, hvers vegna dreifikerfi gsm Símans um landið er mjög takmarkað hjá fyrirtæki í eigu þjóðarinnar sem græðir á tá og fingri og hvers vegna dreifing á efni sjónvarps og útvarps er ekki víðtækari en raun ber vitni. Þetta er í raun spurning um pólitískan vilja og annað ekki.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir