Hrokinn hjá framkvæmdastjóra LÍÚ

Greinar
Share

Fyrir rúmri viku gerði ég að umtalsefni í viðtali við Mbl. að fáir aðilar væru orðnir ráðandi í sjávarútvegi og að sumir þeirra beittu sér gegn þeim sem hafa aðrar skoðanir en þeim þóknaðist.Benti ég á að forsvarsmenn LÍÚ hefðu ítrekað reynt að koma á mig höggi sem stjórnarformann Byggðastofnunar í framhaldi af skýrslum um sjávarútveg sem stofnunin hefði unnið eða látið vinna. Framkvæmdastjóri LÍÚ bregst við ummælum mínum í grein við Mbl. í síðustu viku og rekur 2 mál sem hann telur sýna pólitíska spillingu og óráðsíu af minni hálfu sem stjórnarformaður Byggðastofnunar. Bæði þessi mál staðfesta hins vegar að LÍÚ og Friðrik Arngrímsson fyrir þeirra hönd er ekki að vinna málefnalega heldur að vakir annað fyrir þeim. Fyrra málið er 20 mkr. lánveiting til útgerðarfyrirtækis á Ísafirði vegna togarans Kristínar Logos. Um það segir Friðrik í grein sinni:”knúði Kristinn forstjóra stofnunarinnar til að greiða út lán til útgerðar togara sem skráður er í Belize og Rússlandi. Ekkert annað en pólitísk spilling og óráðsía blasir við þeim sem skoðar þetta mál”.

Kristin Logos
Málsatvik eru þau að fyrirtækið aflaði sér veiðiheimilda í rússlenskri lögsögu og gerði þar út skip til rækjuveiða. Aflinn var seldur rækjuverksmiðjum á Íslandi, sem nota bene eru á landsbyggðinni. Fyrst er að athuga hvers vegna LÍÚ gerir að umtalsefni lánveitingu til útgerðarfyrirtækis. Er eitthvað við það að athuga að lána til útgerðar til veiða í erlendri lögsögu og hvers vegna er LÍÚ bara að gera athugasemd við þetta eina mál, en þau skipta árlega hundruðum í íslenska lánakerfinu og örugglega eru þau ekki öll áhættulaus. Í öðru lagi þá var ég ekki í stjórn Byggðastofnunar þegar lánveitingin var ákveðin og kom ekki að því máli. Í minn hlut kom hins vegar að framfylgja samþykkt stjórnarinnar.Það skiptir engu hver skoðun mín eða forstjórans var á samþykkt stjórnarinnar, það ber að framfylgja henni og það lagði ég fyrir forstjórann, þegar ég hafði gengið úr skugga um að slíkt bryti ekki í bága við lög eða reglugerð um stofnunina. Og forstjórinn gerði það þegar honum var hið sama ljóst svo og eftir símtöl hans við aðra stjórnarmenn. Ég tel ástæðulaust að gagnrýna lánveitingu stjórnarinnar í þessu máli, lánveitingin samrýmdist hlutverki stofnunarinnar um að styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni og þótt vitað væri að áhætta fylgdi málinu og þá er það einmitt hlutverk Byggðastofnunar að taka áhættu í útlánum umfram það sem viðskiptabankarnir gera. Bæði Iðnaðarráðuneytið og Ríkisendurskoðun fylgjast með störfum stofnunarinnar og gera að sjálfsögðu athugasemdir ef þeim sýnist ástæða til. Engin athugasemd hefur komið fram frá þessum aðilum varðandi umrædda lánveitingu eða útborgun lánsins. Þetta var Friðrík Arngrímssyni og félögum hans hjá LÍÚ ljóst áður en þeir fóru með það á opinberan vettvang á síðasta ári, en gerðu það samt.

Skýrslur um sjávarútveg
Síðara málið varðar skýrslur sem unnar voru um sjávarútvegsmál á síðasta ári, önnur af starfsmönnum stofnunarinnar, hin af utanaðkomandi hagfræðingi, Haraldi L. Haraldssyni. Um það segir Friðrik:”Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur einnig gert athugasemdir við illa unnar skýrslur sem Kristinn hefur látið vinna fyrir Byggðastofnun eða látið starfsmenn stofnunarinnar vinna í pólitískum tilgangi”.
Þessi orð lýsa ótrúlegum hroka og yfirlæti. Sagt er berum orðum að starfsmenn Byggðastofnunar vinni illa og í pólitískum tilgangi. Þessar ásakanir eiga sér enga stoð í veruleikanum og Friðriki ber að biðjast afsökunar á þeim. Ég held hins vegar að maður sem ber svona ásökun fram opinberlega telji að hægt sé að fá menn til að vinna með þeim hætti sem Friðrik lýsir og hlýt að spyrja hvort hann hafi fengið menn til að vinna fyrir sig og LÍÚ á þennan veg.

Starfsmenn þróunarsviðs Byggðastofnunar unnu skýrslu um áhrif kvótasetningar aukategunda hjá krókabátum á byggð á Vestfjörðum. Skýrslan staðfesti að fyrirhuguð kvótasetning myndi hafa mikil og vond áhrif á atvinnulíf í fjórðungnum, m.a kemur fram að störfum við smábátaútgerð fækkum um 160-200 að mati Landssambands smábátaeigenda og miðað við upplýsingar frá samtökum fiskvinnslustöðva mátti gera ráð fyrir að ársverkum í fiskvinnslu myndi fækka um 93. LÍÚ gagnrýndi skýrsluna í bréfi sem Friðrik birtir í Mbl. Það lét hann hins vegar ósagt, að athugasemdir hans voru teknar til athugunar en leiddu ekki til þess að meginniðurstöður skýrslunnar breyttust og fékk hann svarbréf þar um. Það er makalaust að Friðrik ber þungar ásakanir á starfsmenn Byggðastofnunar af því að þeir eru að miklu leyti ósammála athugasemdum hans og standa við eigin athuganir í málinu. Sama má segja um skýrslu Haraldar L. Haraldssonar sem heitir sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi. Þar dregur höfundur fram ýmsar merkilegar upplýsingar svo sem um samband kvótaflutninga frá byggðalögum og íbúafjölda, skuldasöfnun í sjávarútvegi síðustu ár og hraða samþjöppun kvótans í fá fyrirtæki á síðustu árum. Hún sætti gagnrýni frá LÍÚ. Báðar skýrslurnar eru vel unnar af mönnum sem eru vel að sér og trúverðugir í störfum sínum. Þess vegna höfðu þær veruleg áhrif.Í mínum huga er málið ákaflega einfalt. Skýrslurnar voru Friðrik og félögum ekki að skapi. Þær benda á hluti sem verður að færa til betri vegar í stjórnuninni á sjávarútveginum en LÍÚ vill verja óbreytt núverandi eignarhald á kvótanum og berst með kjafti og klóm fyrir því. Viðbrögð þeirra er að ráðast gegn þeim sem að málinu stóðu og freista þess að gera þá ótrúverðuga. Það er kjarni málsins.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir