Fjármálaráðuneyti á villigötum

Greinar
Share

Í lok ágúst birtist í vefriti fjármálaráðuneytisins upplýsingar um opinber framlög til heilbrigðismála á Íslandi. Þar er því haldið fram að þau séu hæst hér á landi árið 2000 meðal landa innan OECD. Ennfremur er fullyrt að íslendingar séu í 4. sæti með samanlögð heilbrigðisútgjöld opinberra aðila og einkaaðila.
Þessi frétt vakti mikla athygli og hafði áhrif á opinbera umræðu sem í gangi var um íslenska heilbrigðiskerfið og fjármögnun þess. Fjárskortur Landsspítala-háskólasjúkrahúss kveikti umræðuna og hún snerist einmitt um það að fé skorti til spítalans svo hann gæti sinnt þeim verkefnum sem honum eru falin. Fullyrðingar fjármálaráðuneytisins sveigðu umræðuna inn á þá braut að ekki skorti fé heldur væri því illa varið og lausnin væri meiri einkavæðing. Sumir alþingismenn hlynntir einkavæðingu gripu tækifærið og tefldu fram rökum fjármálaráðuneytisins sjónarmiði sínu til stuðnings og á síðum dagblaðanna mátti sá sömu áhrif, en lengst gekk ritstjóri DV sem beinlínis fullyrti að íslenska heilbrigðiskerfið væri í miklum ógöngum og einkenndist af skipulögðu ofbeldi gagnvart einkarekstri með tilheyrandi sóun og afleiðingin væri verri lífskjör á Íslandi en ella.
Það er alveg ljóst að útspil fjármálaráðuneytisins var einkavæðingarsinnum í heilbrigðiskerfinu kærkomin hjálp í umræðunni um fjárskort Landsspítalans-háskólasjúkrahúss.
opinber framlög hæst á Íslandi?
Ég held að það sé rétt að athuga fullyrðingar fjármálaráðuneytisins. Fyrst þá fullyrðingu að opinber framlög séu hæst á Íslandi af löndum innan OECD. Með því er átt við hlut ríkis og sveitarfélaga en ekki annarra aðila, svo sem atvinnurekenda, trygginga eða sjúklinga sjálfra. Norræna hagskýrslunefndin á sviði heilbrigðis- og tryggingarmála (NOSOSKO) tekur saman tölur um útgjöld á þessu sviði. Á fréttavef heilbrigðis- og tryggingarráðuneytisins er upplýst nýlega að árið 2000 hafi útgjöld íslenska ríkisins verið 7,6% af vergri þjóðarframleiðslu, mun lægri en útgjölda sænska ríkisins 8,4% og þess norska 8,5%. Þar með eru þegar tvö ríki með hærri opinber útgjöld en Ísland. Auk þess þarf að hafa í huga að í sumum löndum innan OECD greiða atvinnurekendur hluta af kostnaðinum eða tryggingar sem menn taka og það lækkar hlut hins opinbera. Ef sömu reglur giltu á Íslandi yrði hlutur ríkisins mun minni. Þar sem flokkun á útgjöldum milli heilbrigðis- og félagsmála er ekki alltaf eins milli landa er öruggara að skoða þessi útgjöld saman. Þá kemur í ljós að á Norðurlöndunum þau eru langlægst á Íslandi 19,7% af VÞF, en 25,5% – 32,3% á hinum Norðurlöndunum árið 2000. Það væri fróðlegt að gera sama samanburð við önnur lönd innan OECD en Norðurlönd. Fullyrðingin um hæstu opinberu framlögin er greinileg vafasöm svo ekki sé fastar að orði kveðið.
í 4. sæti í heildarkostnaði?
Næst er að skoða heildarkostnaðinn sem hlutfall af VÞF. Heilbrigðis- og tryggingarráðuneytið birtir upplýsingar um hann á fréttavef sínum. Þar er Ísland í 6. sætið árið 2000 en ekki í 4. sæti eins og fjármálaráðuneytið heldur fram. Með hærri kostnað er Íslendingar eru Kanadamenn, Frakkar, Þjóðverjar, Svisslendingar og Bandaríkjamenn. Ég hef aflað mér frekari upplýsingar um þetta og skv. þeim eru Íslendingar í 8. til 15. sæti árin 1990 til 1998 og að meðaltali þessi ár í 10. sæti af þjóðum innan OECD. Það er nokkuð langur vegur frá þessum tölum til þeirra sem lesa má í vefriti fjármálaráðuneytisins.
gríðarlegur vöxtur í útgjöldum ?
Í vefriti fjármálaráðuneytisins er því haldið fram að gríðarlegur vöxtur hafi verið í heilbrigðisútgjöldum síðustu áratugi. Árið 1970 hafi útgjöldin verið 3,2% af vergri landsframleiðslu, 5,5% árið 1980 , 6,8% árið 1990 og loks áætlað vera yfir 7,5% árið 2000. Ég get ekki tekið undir þetta. Efnahagur þjóðarinnar hefur tekið stakkaskiptum frá 1970 og landsframleiðsla liðlega þrefaldast. Þjóðin er miklu ríkari en hún var árið 1970 og þótt hlutur heilbrigðisþjónustu hafið vaxið á tímabilinu er aukningin tiltölulega lítill hlutur af verðmætisaukningunni og ég tel ekki um gríðarlegan vöxt að ræða í ljósi þess að nú er veitt miklu meiri heilbrigðisþjónusta en áður var, sjúkdómum haldið niðri eða læknaðir sem áður var ekki átt við. Að veita fleirum meiri þjónustu og lengur kostar peninga og þetta er gert vegna þess að almennur vilji er til þess.
Til viðbótar þessu þá er fullyrðingin um gríðarlegan vöxt í útgjöldum hæpin síðustu 20 árin svo ekki sé fastar að orði kveðið. Upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um útgjöld hins opinbera frá 1980 – 2000 leiða í ljós að árið 1983 voru útgjöldin 6,3% af VLF en 7,6% árið 2000. Þessi aukning er ekki gríðarlegur vöxtur á neinn mælikvarða. Árin 1990 –98 eru útgjöldin lægri á hverju ári mæld sem hlutfall af landsframleiðslu en 1988 þegar þau voru 7,37% og það er ekki fyrr en 1999 og 2000 sem útgjöld hins opinbera verða hærri en árin 1988 og 1989. Þessi ár, þ.e. 1990 til 1998 eru útgjöldin 2,5 milljörðum kr. til 4,8 milljörðum kr. lægri hvert ár en árið 1988 og samtals þessi 9 ár um 35 milljörðum kr. lægri en það ár. Meginniðurstaðan er að á síðasta áratug var ekki um neinn vöxt að ræða í útgjöldum til heilbrigðismála í hlutfalli af landsframleiðslu þegar áratugurinn er metinn í heild og kannski er hluti vandans nú einmitt sú staðreynd.
Ég held að það sé ráðlegt fyrir fjármálaráðuneytið að endurskoða tölur sínar sem birtust í vefritinu 29. ágúst og mér finnst að það megi líka endurskoða viðhorfið til heilbrigðismála sem þar kom fram. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er ráðuneytið á villigötum.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir