Hvers vegna einkavæðing?

Pistlar
Share

Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Tommy Tompson, var hér á ferðinni á dögunum og kynnti sér íslenska heilbrigðiskerfið. Hann verður að teljast nokkuð marktækur í þessum efnum og auk þess þrautkunnugur málaflokknum heimafyrir.
Umræða um íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið mikil síðustu vikurnar, einkum vegna fjárskorts Landsspítalans-háskólasjúkrahúss. Hefur umræðan snúist um það hvort nægilegt fé renni til heilbrigðismála eða hvort stefna eigi á meiri einkavæðingu og þá verði ekki þörf á auknu fjármagni. Er m.a. sótt á að einkavæða heilsugæsluna.
Skýrslur Ríkisendurskoðunar um rekstur Heilsugæslunnar í Reykjavík og um samninga Tryggingastofnunar við sérfræðilækna varpa ljósi á stöðu mála og fæ ég ekki séð að þær styðji við hugmyndir um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu nema síður sé. Ljóst er að þeir sem tala fyrir einkavæðingu þurfa að færa betur rök fyrir máli sínu eftir að þessar skýrslur komu út.

Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna var ekki í nokkrum vafa eftir að hafa kynnt sér íslenska kerfið. Í viðtali við ríkisútvarpið kom eftirfarandi fram hjá honum:

* Á Íslandi greiðir hið opinbera 85% af kostnaði Íslendinga vegna heilbrigðisþjónustu. Í Bandaríkjunum þarf hver einstaklingur að greiða mun hærri upphæð úr eigin vasa.

* Um 8% af landsframleiðslu Íslendinga fer til heilbrigðismála en um 14% í Bandaríkjunum.

* Heilbrigðiskerfið á Íslandi er mun skilvirkara en í Bandaríkjunum og þjónar landsmönnum vel.

* Íslendingar standa betur að vígi en Bandaríkjamenn í heilsugæslu og þeir geta mikið af Íslendingum lært.

Niðurstaða bandaríska heilbrigðisráðherrans var þessi :hann sagðist ekki sjá hvers vegna Íslendingar ættu að breyta sínu heilbrigðiskerfi og stefna á frekari einkavæðingu. Hann geti tæplega gefið Íslendingum heilræði þegar kemur að þessum málaflokki. Hann sé frekar kominn til að læra.
Þetta er afdráttarlaus niðurstaða ráðherrans sem stýrir ráðuneyti heilbrigðismála í Bandaríkjunum, ráðuneyti sem veltir árlega svo háum fjárhæðum að einungis fjögur þjóðríki í heiminum eru með hærri fjárlög. Líklega er einkavæðing í heilbrigðiskerfinu hvergi meiri en einmitt í Bandaríkjunum og fáir þekkja það betur en einmitt Tommy Tompson. Þess vegna er álit hans alveg sérstaklega athyglisvert. Það ber að fara varlega í því að breyta Íslenska heilbrigðiskerfinu og í ljósi ofangreinds álits er frekari einkavæðing varla vænleg lausn fyrir landsmenn. Tvískipt heilbrigðiskerfi, fyrir ríka og snauða, er ekki það sem óskað er eftir hér á landi.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir