Eiknavæðingartrúboð ritstjóra DV

Greinar
Share

Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um heilbrigðismál síðustu vikur vegna fjárhagsvanda Landsspítalans – háskólasjúkrahúss. Það dylst engum sem fylgst hefur með málinu að vandi spítalans er að fjárframlög ríkisins eru of knöpp miðað við þau verkefni sem stofnuninni eru falin. Aukin fjárframlög eru óhjákvæmileg hvernig sem á málið er litið. Ritstjóri DV, Óli Björn Kárason er á öðru máli. Aukin fjárframlög heita á hans máli í leiðara 30. ágúst sl. fjáraustur, sem hann varar við og telur að lausnin sé að auka samkeppni innan kerfisins og gera samkomulag við einkaaðila um þjónustu. Þetta er ítrekað í leiðara 2. september með þeim orðum að vandinn sé ekki fjársvelti heldur samkeppnisleysi og skipulagt ofbeldi gagnvart einkarekstri með tilheyrandi sóun. Afleiðingin sé svo verri lífskjör en ella. Ritstjórnargrein 31. ágúst heitir rándýrt ráðleysi og lýkur á þessum orðum: "Vandinn felst ekki í því að framlögin séu skorin við nögl. Hann felst í því að þeim er sóað".
"útgjöld umfram fjárlög öll árin"
Á dögunum kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um samninga Trygggingarstofnunar við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna. Þar er úttekt á einkavæðingunni í heilsbrigðiskerfinu. Niðurstöðurnar eru sláandi. Gagnstætt því sem ritstjóri DV heldur fram þá gilda samkeppnislög. Ákvæði þeirra laga hafa girt fyrir að takmarka hafi mátt aðgang einstakra lækna að samningi við Tryggingarstofnun. Sérfræðilæknir einfaldlega tilkynnir að hann hafi hafið störf og fær sjálfkrafa saming við stofnunina óháð því hvort þörf er á fleiri sérfræðingum á viðkomandi sviði, enda segir Ríkisendurskoðun eðlilega að kaup Tryggingarstofnunar á þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðilækna hafi ekki byggt á mati fyrir þörf á þjónustunni, auk þess hafi Tryggingarstofnun af ýmsum ástæðum ekki fullkomið vald á þróun útgjalda vegna sérfræðihjálpar. Niðurstaðan er að útgjöld sjúkratrygginga hafi vaxið ár frá ári og á tímabilinu 1997-2001 jukust þau um 133% og voru umfram fjárlög öll árin. Það er mikil hækkun á aðeins fjórum árum, dæmi: útgjöld vegna klínískra sérfræðilækna aukast úr 662 mkr. í 1.547 mkr. Ýmsar skýringar eru á þessum hækkunum eins og gengur, en samt þarna er einkareksturinn í hnotskurn, það kerfi sem ritsjóri DV, Óli Björn Kárason, vill taka upp. Samkeppni milli sérfræðinga og útkoman er skýr: vaxandi útgjöld sem erfitt er að hemja. Spurningin er þessi: loksins þegar ritstjórinn tekur fyrir í skrifum sínum umrædda skýrslu Ríkisendurskoðunar, hvenær sem það nú verður, mun hann tala um sóun í sérfræðingakerfinu? Og verður hann sammála Ríkisendurskoðun sem telur að endurskoða verði hvort eðlilegt sé að samkeppnislög nái til heilbrigðisstétta og ef ekki hvernig vill hann koma á sem hagkvæmustum kaupum á heilbrigðisþjónustu ?
75% starf – 22,5 mkr.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að dæmi eru um að sérfræðingar séu í starfi á opinberri sjúkrastofnun en samt með umfangsmikinn einkarekstur. Nefnd eru dæmi um mann í 75% starfi sem fær 22,5 mkr. í brúttógreiðslu frá Tryggingarstofnun, annar er í 100% starfi og fær 22,8 mkr. Þetta getur ekki gengið, að menn séu á báðum stöðum. Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við þetta og bendir á að í Danmörku er sérfræðilæknum settar skorður, þeim er óheimilt að vera samtímis í sjálfstæðum rekstri og í fullu starfi á sjúkrahúsi hins opinbera. Greiðsluþátttöku hins opinera eru auk þess miklar skorður settar í Danmörku gegnum tilvísunarkerfi og takmarkanir á fjölda meðferða sem taka m.a. til einstakra sjúklinga. Hver er afstaða ritstjórans til þessarar athugasemdar ? Hvaða skorður vill hann setja á frelsi manna til að gera út á ríkissjóð ? Þögnin er æpandi.
Heilbrigðisútgjöld lítið aukist
Staðreyndin er nefninlega sú að skv. tölum Þjóðhagsstofnunar hafa útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála ekki vaxið mikið síðustu árin. Útgjöldin árin 1988 og 1989 voru 7,3-7,4% af landsframleiðslu. Frá 1990 – 1998 voru útgjöldin hvert ár lægri og voru á bilinu 6,8% til 7,1%. Tvö næstu ár hækkaði hlutfallið og var árið 2000 um 7,6% af landsframleiðslu sem er síðasta árið sem tölur eru tiltækar um.Hækkunin verður að mestu skýrð með launahækkunum í kjölfar svonefndar aðlögunarsamninga árið 1998 sem fjármálaráðuneytið gerði. Athyglisvert er að framlög til almennra sjúkrahúsa, sem er stærsti liðurinn í opinberum heilbrigðisútgjöldum, er árið 2000 lægri en var árin 1987-89 mælt sem hlutfall af landsframleiðslu. Heilbrigðisútgjöld hafa í raun ótrúlega lítið aukist síðustu 15 árin. Því fer nefninlega fjarri að þessi málaflokkur einkennist af stöðugum fjáraustri eins og Óli Björn Kárason heldur fram. En hvað gera menn ekki til þess að koma óorði á kerfið og ýta undir einkarekstur ?

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir