Greinargerð vegna stefnumótandi byggðaáætlunar 2001 – 2005

Greinar
Share

Stefnumótunarskjalið er að mörgu leyti heildstætt og unnt að byggja stefnumörkun og tillögugerð á henni. Það er engu að síður ekki fullunnið og þarf að bæta þar nokkru við. Einkum vantar meira afgerandi stefnu til lífskjarajöfnunar með almennum aðgerðum og bæta þarf við sértækum aðgerðum sem beinast að tilteknum svæðum. Hugmyndir um vaxtarsvæði og byggðakjarna er lítt skilgreind og þarf bæði að skilgreina betur svæðin og hlutverk þeirra. Þá er nauðsynlegt að benda á sértækar aðgerðir tengdar hverju svæði.

2. kafli: ástand og horfur.

aukið þjóðfélagslegt misrétti
Í 2. kaflanum ástand og horfum í þróun byggða í landinu er vakin athygli á því að tekju- og eignabil hafi aukist í þjóðfélaginu og að margt bendi til þess að það muni aukast áfram á næstu árum. Nefnt er sem dæmi að meðaltekjur á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað en á landsbyggðinni lækkað. Á Vestfjörðum hafi lækkun vísitölu atvinnutekna verið mest eða úr 111 árið 1995 í 92 árið 2000. Hætta er talin á að þjóðfélagslegt misrétti aukist í kjölfarið með vaxandi vandamálum í kjölfarið. Þá er bilið milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins talið aukast þar sem eignarhald á fyrirtækjum og hlutabréfum þjappist í æ ríkara mæli saman á höfuðborgarsvæðinu og að þeir efnameiri búi flestir þar.
Það vantar algerlega tillögur til úrbóta en við blasir, í ljósi þess að sjávarútvegur er langþýðingarmesta atvinnugreinin utan höfuðborgarsvæðisins, að óhjákvæmilegt er að stöðva samþjöppunna í greininni og stuðla að meiri dreifingu atvinnustarfseminnar.

neikvæð afstaða til stórra landssvæða
Kaflinn 2.4 sem fjallar um horfur og væntingar er allt of neikvæður. Í textanum skín í gegn að enginn vilji er til aðgerða á neinu svæði landsbyggðarinnar nema í Eyjafirði.
Svo dæmi séu tekin segir um Húnaþing, að fólki hafi fækkað mikið og atvinna dregist saman og að ekki sé útlit fyrir annað en að fólki muni áfram fækka nema eitthvað nýtt komi til. Síðan er enga tillögu að finna. Um Vestfirði segir að ekki sé ráðlegt að gera ráð fyrir að íbúum fjölgi þar á næstu árum. Það er ekki sagt að það sé ekki líklegt heldur tekið dýpra í árinni og sagt að það sé ekki ráðlegt. Svona texti sendir frá sér skilaboð sem ekki verða skilin nema á einn veg.
Tillaga um sérstaka byggðaáætlun fyrir aðeins eitt svæði, Eyjafjörð, í þessu samhengi, er afleit og ég vara við henni. Ekki er nema gott eitt um það að segja að hið opinbera ætli sér að styrkja Eyjafjarðarsvæðið, en algerlega óásættanlegt að önnur svæði, sem jafnvel standa verr að vígi, verði ekki styrkt með sambærilegum aðgerðum. Ef einungis á að grípa til sérstakra aðgerða utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar á þeim hluta svæðisins þar sem best er staðan felst í því skýr afstaða gegn öðrum hlutum svæðisins.

heildstæð stefna fyrir öll landssvæði
Kafli 2.5. um byggðakjarna þarf að vera mun ítarlegri. Gefa þarf heildstæða lýsingu á vaxtarsvæðum og byggðakjörnum landsins, skilgreina hlutverk og áhrifasvæði þeirra og aðgerðum sem eiga að styrkja þá. Samanlagt þurfa vaxtarsvæðin og byggðakjarnarnir að ná til allra svæða landsins og tillögurnar að lýsa stefnu stjórnavalda um byggð á Íslandi.

4. kafli: tillögur um stefnumörkun.
Í þessum kafla er fjallað meira almennt um atriði sem síðar koma nánar fyrir í 5. kafla og þá í tillöguformi. Skipting áætlunar í 12 stefnumarkandi áherslusvið er nokkuð tæmandi að mínu mati, en ég geri þó þá athugasemd sem fyrr að það er of mikil þröngsýni fólgin í því að horfa aðeins á að efla Akureyri sem byggðakjarna.

þróunarstarf og ráðgjöf
Ég tek undir að rétt er að endurskipuleggja allt þróunarstarf á landsbyggðinni, fyrst og fremst er þó nauðsynlegt að auka við fjármagnið. En ekki er rétt að skipta Byggðastofnun upp og draga þróunarsviðið út úr í nýja stofnun með öðru atvinnuþróunarstarfi svo sem landbúnaði. Ég tel nauðsynlegt fyrir stofnun sem sinna á fjárhagslegum stuðningi við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni að styðjast við sérfræðinga á þróunarsviði. Á hinn bóginn er einboðið að ráðgjöf verði samræmd og síður atvinnugreinabundin en nú er. Þá hef ég efasemdir um að blanda um of saman atvinnuráðgjöf og almennri svæðisbundinni hagsmunagæslu og sé ekki að ávinningur verði af því.

endurskipulagning sjóðakerfis
Fyllilega tímabært er að enduskipuleggja stuðningskerfi atvinnulífsins eins og lagt er til. Þar þarf þó fyrst að ákveða hlutverk og hvaða tækjum beita á til þess að ná árangri, fremur en að einblína á rekstrarlega hagræðingu af sameiningu sjóða. Ég tel að styðjast eigi við í verulegum mæli reynslu Norðmanna, sem er að nokkru byggð á fyrirmynd frá Evrópulöndum og byggja upp stofnun sem beitir sér fyrir uppbyggingu í atvinnumálum með stofnstyrkjum, hlutafjárkaupum og lánveitingum í beinum tengslum við atvinnulífið.
Mestum árangri með skjótum hætti verður náð með sameiningu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Byggðastofnunar. Einboðið er að Átak til atvinnusköpunar verði sameinað nýju stofnunni, enda ekki lengur í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að sjóðir séu vistaðir í ráðuneytum undir beinni stjórn ráðherra. Eðlilegt er að Ferðamálasjóður verði lagður niður og felldur til hinnar nýju Byggðastofnunar einkum í ljósi þess að útlán til ferðamála eru að langmestu leyti í Byggðastofnun. Til viðbótar tel ég að kannað verði hvort ekki er unnt að leggja Framtalssjóði Nýsköpunarsjóðs inn í hina nýju stofnun ásamt því að taka til athugunar hlutverk fjárfestingarhlutafélaga viðskiptabankanna í meirihlutaeigu ríkissjóðs. Hins vegar tel ég að fara þurfi varlega í að sameina landsbúnaðarsjóðina einnig og vísa þar til reynslu Norðmanna.
Með þessum hætti verður búinn til ný stofnun sem á að starfa á landsvísu að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu.

hlutverk sveitarfélaga
Nauðsynlegt er að styrkja stjórnsýslu í héraði, en fækkun sveitarfélaga að óbreyttu hlutverki þeirra mun ekki skila miklum árangri. Því tek ég ekki undir þær hugmyndir að beina eigi einkum sjónum að fjölda þeirra heldur eigi að setja fram tillögur um hlutverk þeirra, svo sem ákvörðunarvald, skattlagningarheimildir, verkefni o.s.frv. Að mínu mati liggur vanmáttur sveitarstjórnarstigsins í hlutverki þess en ekki fjölda sveitarfélaga. Minnt er á að í síðustu byggðaáætlun er kveðið á um að stefnt verði að því að auka hlut sveitarfélaga í opinberum rekstri og miðað við að hann verði eigi minni en helmingur.

aðgerðir til jöfnunar
Varðandi jöfnun búsetuskilyrða er lagt til að fram fari heildarathugun á opinberum aðgerðum sem eiga að jafna búsetuskilyrði í landinu og síðan lagðar fram heildstæðar tillögur. Um þetta er það að segja að þegar liggur fyrir allmikil þekking á þessu og í síðustu byggðaáætlun voru nokkrar tillögur um aðgerðir sem einmitt voru byggðar á fyrirliggjandi upplýsingum. Hér eru allar forsendur til aðgerða fremur en að leggjast í rannsóknarvinnu, þótt ekki sé mælt á móti því að stöðugt sé fylgst með á því sviði.

aðgerðir fremur en frekari athuganir
Sama má segja um jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna. Þar þarf ákvörðun um aðgerðir fremur en könnun og athugun. Áhrif af opinberum álögum á flutningskostnað eru þekkt svo og orkukostnaður og mismunandi veðhæfni eigna.

5. kafli. tillögur um aðgerðir.

Efling opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni.
Þessi tillaga er svipuð og 6. liður í síðustu byggðaáætlun. Lítið ávannst og aðallega var það vegna þess að vilji ráðherra reyndist lítill sem enginn þegar á reyndi. Til lítils er að setja svona tillögu fram nema sýnt verði fram á að hugur fylgi máli.

Jöfnun búsetuskilyrða fólks.
Þessi tillaga á að vera um aðgerðir en ekki athugun. Það er ekki nóg að kanna möguleika á skattalegum aðgerðum heldur á að kveða upp úr með það að þeim verði beitt. Í síðustu byggðaáætlun var ályktað um að grípa til aðgerða til þess að auðvelda fólki í strjálbýli atvinnusókn og huga að leiðum til að lækka kostnað því samfara. Einkum var horft til þess að kostnaðurinn yrði frádráttarbær frá skatti. Ekki er þörf á að skoða þetta frekar, nú er spurt um viljann.

Skattalegar aðgerðir.
Ég legg til að skattalegum aðgerðum verði beitt til þess að jafna búsetuskilyrði einstaklinga annars vegar til þess að mæta tilteknum kostnaði við atvinnusókn og menntun og hins vegar til þess að stuðla að búsetu ungs fólks og menntafólks á landsbyggðinni. Þær verði skilgreindar sem almennar aðgerðir og beinast því ekki að tilteknum svæðum heldur fremur að skilgreindum aðstæðum.
Til viðbótar tillögu um endurgreiðslu afborgana námslána sem er í skjalinu þá verði: 1. kostnaður við atvinnusókn frádráttarbær ( miðað verði við tiltekinn kmfjölda dag hvern og fjárhæð að hámarki).
2. Kostnaður við nám verði frádráttarbær frá skatti hjá nemanda eða framfæranda hans þegar sækja þarf nám fjarri heimili.
3. Veitt verði ívilnun á tekjuskatti á landssvæðum þar sem fólki hefur fækkað verulega og tekjur eru lágar.
4. Til þess að stuðla að uppbyggingu atvinnu og aukinni fjölbreytni verði veitt ívilnun á tryggingargjaldi fyrirtækja.
Til athugunar undir þessum lið væri einnig að beita auknum persónuafslátti til mótvægis við hærri framfærslukostnað, svo sem hærra vöruverð vegna flutningskostnaðar.

Beinar jöfnunaraðgerðir.
Hér eru einnig svonefndar almennar aðgerðir. Þær verði þessar helstar :
1. Áfram verði húshitunarkostnaður með rafhitun lækkaður með auknum niðurgreiðslum, en niðurgeiðslur nái einnig til dýrra hitaveitna.
2. Styrkir til námssóknar verði hækkaðir verulega, en fjárhæð taki mið af því hvort skattalegar aðgerðir nái til einnig námskostnaðar.
3. Verð á félagslegum íbúðum , þar sem húsnæði er meira en þörf er á vegna fólksfækkunar, verði selt eða fært til markaðsverðs. Ríkissjóður beri kostnaðinn.
4. Uppbygging á fjarskiptakerfum – gagnaflutningum, gsm, útvarp ( rás 1 og 2) og sjónvarp.
5. Lækkaður verði kostnaður við flutning og dreifingu á vöru og þjónustu með því að fella niður skattlagningu (þungaskatt og virðisaukaskatt).

Ekki verður fjallað frekar um aðrar tillögur sem eru í stefnumótunarplagginu en þegar er komið fram í umfjöllun að framan, að öðru leyti en því að nauðsynlegt er að skýra betur byggðakjarnahugmyndina og laga hana að íslenskum veruleika.

Vaxtarsvæði og byggðakjarnar.

Svo að vel fari tel ég að skilgreina þurfi tvenns konar svæði, annars vegar vaxtarsvæði sem eru þannig að áhrifasvæði þeirra skarast ekki og hins vegar kjarnasvæði/ byggðakjarnar sem eru flestir að nokkru leyti og jafnvel að verulegu leyti á áhrifasvæði einhvers vaxtarsvæðis. Samtals eru skilgreind 4 vaxtarsvæði og 10 kjarnasvæði með byggðakjarna.
Vaxtarsvæðin eru höfuðborgarsvæðið, norðanverðir Vestfirðir, Eyjafjörður og miðAusturland með Reykjavík, Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði/Fjarðabyggð sem þungamiðju.
Utan vaxtarsvæðanna eru byggðakjarnar sem gegna mikilvægu hlutverki hver á sínu svæði. Svæðin eru Akranes/Borgarfjörður, Snæfellsnes (Grundarfjörður), V- Barðastrandarsýsla (Patreksfjörður), Húnavatnssýslur (Blönduós), Skagafjörður (Sauðárkrókur), Þingeyjarsýslur (Húsavík) , A- Skaftafellssýsla (Höfn) Suðurlandsundirlendi (Selfoss) , Vestmannaeyjar og Suðurnes (Reykjanesbær).

Stækka á áhrifasvæði vaxtarsvæðanna þar sem því verður við komið með samgöngubótum (vegagerð, jarðgöng). Sama á við um þjónustusvæði byggðakjarnanna. Á Vestfjörðum verði svæðin tengd saman með jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og nauðsynlegt er að bæta samgöngur milli Ísafjarðar og Bolungavíkur með stuttum jarðgöngum. Vaxtarsvæðið kringum Akureyri er unnt að stækka með samgöngubótum bæði til vesturs í Skagafjörð og til austurs í Þingeyjarsýslur. Þar er álitlegast að skoða jarðgöng um miðjan Tröllaskaga til vesturs og undir Vaðlaheiði til austurs.
Áhrifasvæði Miðausturlands verður stækkað með jarðgöngum til Vopnafjarðar og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.
Kjarnasvæði verði stækkuð með vegabótum, einkum verði gert átak á Vestfjöðrum og Norðausturlandi. Vestmannaeyjar þarf að tengja við Suðurlandsundirlendið með betri daglegum samgöngum ef ekki á illa að fara.

Styrkja skal almenningssamgöngur á vaxtarsvæðum og eftir atvikum á kjarnasvæðum; og tryggja flugsamgöngur til þéttbýlisstaða með fleiri en 2000 íbúa og að þéttbýlisstaðir með fleiri en 200 íbúa eigi ekki lengra en 50 km til næsta áætlunarflugvallar.

Veittur verði stuðningur til að efla starfsemi fjölmiðla og stuðlað sérstaklega að útsendingum svæðisútvarps og sjónvarps á vaxtarsvæðum.

Menningarstarfsemi verði efld og leiklistarstarfsemi og sönglist styrkt til samræmis við sambærilega starfsemi á höfuðborgarsvæðinu.

Byggt verði upp fjölbreytt nám á framhaldsskólastigi og starfsnámi á öllum svæðunum en á vaxtarsvæðunum verði sérstaklega byggt upp háskólanám, starfsmenntun og endurmenntun og nýttir möguleikar á fjarnámi. Háskólarnir verði starfræktir a.m.k. á vaxtarsvæðunum og tryggt verði framboð á framhalds- og starfsnámi og endurmenntun á kjarnasvæðunum.

Athugasemdir