Hið nýja vinstri Hjörvars

Greinar
Share

Laugardagur 1. ágúst 1998. (Aðsent efni )

Í JÚNÍBYRJUN birtist í Morgunblaðinu grein eftir Helga Hjörvar, nýkjörinn borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans. Þar lýsti hann hinu nýja vinstri. Það er
stjórnmálaafl sem verður til við sameiningu félagshyggjufólks. Reykjavíkurlistinn er undanfari þess og því er borgarfulltrúinn svo fær um að lýsa því og
vera boðberi hins nýja vinstri.

Hinu nýja vinstri er svo lýst að það leiði hvarvetna framsækin samfélög inní nýja öld. Að það sé frjálslynt stjórnmálaafl, víðsýnt og umburðarlynt. Að
þar rúmist ólíkar skoðanir og það ásamt lýðræðislegri umræðu innan hreyfingarinnar sé forsenda fyrir vexti og viðgangi hennar. Minna má nú gagn
gera. Innan Alþýðubandalagsins hafa svo sannarlega verið árum saman ólíkar skoðanir og mikil lýðræðisleg umræða. Enginn skortur hefur verið á
víðsýni og umburðarlyndi. Í lögum flokksins er tryggður réttur manna til að vinna skoðunum sínum fylgi. Þegar umdeild mál eru tekin fyrir innan
flokksins standa fundnir gjarna yfir í tvo daga og 50 ræður eru haldnar. Öll sjónarmið reifuð og reynt að finna sameiginlega niðurstöðu.

Þetta tíðkast síður í öðrum flokkum, gjarnan talar foringinn og hinir hlusta og klappa. Síðan er farið í kaffi. Stefnan er mótuð með tilskipunum sem
foringinn gefur út eftir að hafa haft samráð við klíkuna sína. Tony Blair notar þessa aðferð og kallar flokk sinn New labour.

Vofa gengur laus…

Hinn vaski maður Helgi Hjörvar hefur sýnt ýmislegt nýtt, en ég viðurkenni að ég efast um sumt af því. Í prófkjöri Reykjavíkurlistans var búin til regla,
að kröfu Hjörvars og fleiri, sem þýddi að sá sem fékk 800 atkvæði í 1. sæti taldist hafa sigrað þann sem fékk 1300 atkvæði í það sæti. Þess vegna er
Helgi Hjörvar 1. maður á Reykjavíkurlistanum. Þetta er alveg ný útgáfa af lýðræðislegum kosningum en sýnir vissulega gífurlegt víðsýni og
umburðarlyndi af hálfu þeirra sem fengu fleiri atkvæði að una þessum leikreglum hins nýja vinstri.

Á dögunum brá Hjörvar sér í fjölmiðla og mótmælti harðlega því að Steingrímur J. Sigfússon væri fenginn til þess að vera frummælandi á félagsfundi í
Alþýðubandalaginu, en þar átti að ræða m.a. niðurstöðu aukalandsfundar Abl. Sagði það fáránlegt og til marks um að menn vildu halda lifandi deilum
frá landsfundi og ala á ófriði og átökum. Klykkti svo út með því að svona starfsaðferðir hljóti að valda vonbrigðum. Réðst loks á Svavar Gestsson og
kvað hann bera ábyrgð á því að Steingrímur hefði verið fenginn til fundarins.

Nú þykir mér stunginn tólkurinn. Umræður innan flokksins um stærsta málið í sögu flokksins eru illa séðar og umburðarlyndið nær bara til Sverris
Hermannssonar, Sighvats Björgvinssonar og annarra utanflokksmanna, sem fengnir hafa verið undanfarin ár til þess að mæta á fundi í flokknum, en
ekki til fyrrverandi flokksmanna. Þeir eru bannfærðir af formanni Birtingar, félagi lýðræðissinna í Alþýðubandalaginu, og glæpur að hafa samband við
þá. Víðsýnin hefur gufað upp sem dögg fyrir sólu. Hin lýðræðislega umræða er ekki lengur forsenda fyrir vexti og viðgangi hinnar nýju hreyfingar
heldur kölluð starfsaðferðir sem valda vonbrigðum. Er það svo að hið nýja vinstri þolir hvorki umræður né andmæli? Má ég minna Hjörvar á að
forysta flokksins, þar með talinn Helgi Hjörvar, neitaði að skýra frá því hvaða tillögu hún hygðist leggja fyrir landsfundinn um samfylkinguna. Því var
ekki hægt að kynna tillöguna fyrir flokksmönnum fyrir landsfundinn, ræða hana í félögunum og fá viðhorf flokksmanna til hennar. Í Alþýðubandalaginu
eru um 2500 manns, aðeins 240 útvaldir fengu að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og taka afstöðu til málsins. Er hið nýja vinstri samfylking
útvalinna þar sem hinir skulu þegja en ella hafa sig á brott? Með þessu háttalagi fer Hjörvar ekki með framsæknum samfélögum inn í nýja öld. Hann
birtist sem afturganga liðins einræðisskipulags. Vofa fremur en boðberi.

Athugasemdir