Rógurinn um útgerðarmenn

Greinar
Share

Mikil óánægja er með núverandi kvótakerfi í fiskveiðum. Óánægjan beinist einkum að möguleikum útgerðarmanna til að selja
veiðiheimildir sínar fyrir mikið fé og stinga andvirðinu í vasann. Ekki er síðri óánægjan með heimildir til þess að leigja veiðiheimildir
ár eftir ár og kvótaaukning leiði svo til þess að útgerðarmaðurinn geti leigt bara enn meira. Þegar talað er um gjafakvóta er verið
að vísa til þess að lög heimila útgerðarmönnum að selja og leigja kvóta sinn með litlum takmörkunum. Frjálst framsal veiðiheimilda
er vandamálið, ekki útgerðarmennirnir.

Vandamálið varð til árið 1990 þegar lögum var breytt til núgildandi horfs en áður var leiga veiðiheimilda óheimil og sala varanlegs
kvóta mjög torveld, svo ekki sé meira sagt. Það var stefna Alþýðuflokksins og krafa hans að frjálst framsal yrði lögleitt. Sú stefna
náði fram að ganga þar sem tryggja þurfti þróun og hagræðingu í sjávarútvegi, að þeirra sögn. Það skýtur því skökku við að
alþýðuflokksmenn gangi nú harðast fram í því að hallmæla eigin stefnu og kalli hana gjafakvótakerfi. Enn furðulegri verður
málflutningur þeirra þegar í ljós kemur að þeir vilja ekki breyta kerfinu heldur viðhalda framseljanlegu aflakvótakerfi. Hörðustu
stuðningsmenn núverandi kerfis eru alþýðuflokksmennirnir.

Rógur Össurar

Furðulegast er samt að alþýðuflokksmenn beina árásum sínum fyrst og fremst að útgerðarmönnum og úthrópa þá. Össur
Skarphéðinsson, þingmaður Alþýðuflokksins og ritstjóri DV, kann sér ekki hóf og ræðst að útgerðarmönnum í leiðara DV
laugardaginn 25. júlí sl undir yfirskriftinni þjóðin hafnar sægreifunum. Þar talar ritstjórinn um útgerðarmenn sem þjófa og óvini
þjóðarinnar. Talar hann um ranglætið sem felist í einokun sægreifanna og að öll spjót muni standa á þeim sem leggist í vörn fyrir
sægreifana

Enn fremur ræðir þingmaður Alþýðuflokksins um andúðina gegn sægreifunum og að þeir séu að sölsa undir sig eign hinna mörgu.
Þar er enginn greinarmunur gerður á mönnum, trillukarlinn er uppnefndur sægreifi, útgerðarmaðurinn sem veiðir sinn kvóta er
kallaður sægreifi, útgerðarmaðurinn sem kaupir sér viðbótarkvóta og verður þannig við stefnu Alþýðuflokksins er kallaður sægreifi
og útgerðarmaðurinn sem notfærir sér úrræði Alþýðuflokksins og selur kvótann er kallaður sægreifi. Það er ómerkilegur
málflutningur og lítilsigldur að ætla sér að afla kjörfylgis með því að ala á andúð í garð útgerðarmanna. Verður þessum leiðara
Össurar aðeins jafnað við óvild Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, þingmanns Kvennalistans, á útgerðarmönnum. En hún lagði til í
þingræðu að útlendingar yrðu fengnir til þess að veiða í íslenskri lögsögu í stað íslenskra útgerðarmanna og Vestfirðingum sendi
hún þau skilaboð að þeir gætu snúið sér að ferðamennsku.

Ranglætið áfram

Vandi sem leiðir af frjálsu framsali aflaheimilda verður aðeins leystur með því að taka á framsalinu. Útgerðarmönnum er úthlutað
veiðiheimildum og þeir eiga auðvitað að stunda veiðar en ekki viðskipti með veiðiheimildir. Þeir eiga ekki að hafa möguleika á að
selja veiðiheimildirnar og labba út úr greininni með morð fjár í vasanum. Þeir eiga heldur ekki að geta leigt árlega stóran hluta
veiðiheimilda sinna og verið þannig áskrifendur að háum fjárhæðum.

Lögum þarf að breyta, auka veiðiskyldu, takmarka framsal og draga úr kvótabundnum veiðum svo að nokkuð sé nefnt. Vísa ég til
frumvarpa sem ég hef flutt þar að lútandi. Úrræði alþýðuflokksmanna er að taka upp nýjan skatt en hafa óbreytt kerfi. Það á að
skattleggja þá sem veiða vegna gróða þeirra sem veiða ekki. Eftir sem áður verður hægt að hagnast með sölu og leigu
veiðiheimilda. Ranglætið á þá að vera áfram eftir allt saman. Þvílíkt lýðskrum.

Athugasemdir