Skattalækkun eykur ójöfnuð

Greinar
Share

Á síðasta ári voru gerðir kjarasamningar til þriggja ára og ASÍ gerði kröfu á stjórnvöld um skattalækkun, svo tryggja mætti að umsamdar
launahækkanir skiluðu sér til launafólks. Ríkisstjórnin hrinti í framkvæmd lækkun tekjuskatts um 4% í þremur áföngum en lækkaði í leiðinni
persónuafsláttinn. Það leiddi til þess að ASÍ lýsti andstöðu við skattalækkunina til hátekjufólks. Þenslan sem nú er í efnahagslífinu hefur leitt af sér að
verðbólgan er komin á kreik, verðhækkanir innanlands hafa verið umtalsverðar að undanförnu og fyrirsjáanlegt að svo verður áfram í náinni framtíð.
Stjórnvöld hafa gripið til þess ráðs að slá á verðbólguáhrifin með því að hækka gengi og því hefur verðlag á innflutningi lækkað. Með efnahagsstjórn
sinni hefur ríkisstjórnin teflt í tvísýnu stöðugleika í efnahagsmálum og forsendur kjarasamninganna um kaupmáttaraukningu til láglaunafólks standa því
ótraustari fótum en áður var ætlað.

Minni skattalækkun á lág laun

Lækkun tekjuskattsins um 4% er talin lækka tekjur ríkissjóðs um 5200 milljónir króna skv. upplýsingum fjármálaráðuneytisins. Það skiptir auðvitað
miklu máli hvernig þessum peningum er dreift til launafólks. Það er hægt að gera það hlutfallslega eða miða við krónutölu og þá hækka laun eftir
tekjuskatt um jafnmargar krónur hjá hverjum og einum. Síðari leiðin dreifir fjárhæðinni 5.200 milljónum kr. þannig að stærri hluta hennar er beint til
lágtekjufólks en samkvæmt fyrri leiðinni og hefur því áhrif til tekjujöfnunar milli launþegahópanna. Fyrri leiðin hefur ekki áhrif til tekjujöfnunar þar sem
skattalækkuninni er dreift jafnt hlutfallslega. Vitað var að stjórnarflokkarnir voru ekki fúsir til þess að bæta stöðu láglaunafólks með því að dreifa
umræddum 5.200 milljónum kr. þannig að fólk með lágar tekjur fengi meira í sinn hlut en nemur hlutfallslegri lækkun skattsins og að sama skapi fengju
hátekjumenn þá minni skattalækkun. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru einfaldlega á móti því. Því var búist við að flokkarnir myndu
viðhafa hlutfallslega skattalækkun, allir launþegar fengju sömu skattalækkun í prósentum talið. En það gerðist ekki. Stjórnarflokkarnir ákváðu að dreifa
skattalækkuninni ójafnt á þann veg að tekjuhærri hóparnir fá meira í sinn hlut og þeir minna sem hafa lægri launin. Það var gert með því að lækka
persónuafsláttinn til mótvægis við lægri skattprósentu. Hver launþegi skilar því sömu krónutölu til baka af skattalækkuninni þótt fengin lækkun hafi
verið breytileg eftir launum hvers og eins. Niðurstaðan er aukinn ójöfnuður í þjóðfélaginu, þeir sem hafa hærri launin hafa bætt stöðu sína meira en
hinir.

Aukinn ójöfnuður

Þetta er best að skýra með einföldu dæmi og reikna út skattalækkunina miðað við 300 þús. kr. laun á mánuði og 80 þús. kr. Miðað er við lækkun
tekjuskatts um 4% og lækkun persónuafsláttar um 1.214 kr. á mánuði. Skattur á 80 þús. kr. laun lækkar þá um 1.986 kr. eða um 2,5%, en ekki 4%
vegna þess að persónuafslátturinn lækkar. Hins vegar lækkar skatturinn um 10.786 kr. á 300 þús. kr. tekjurnar eða um 3,6%. Hátekjumaðurinn
heldur meira eftir af skattalækkuninni þar sem lækkun persónuafsláttarins vegur minna hjá honum. Hlutfallslega hefur hátekjumaðurinn bætt stöðu sína
þar sem tekjur hans eftir skatt hafa aukist um 3,6% en aðeins um 2,5% hjá þeim hefur 80 þús. kr. á mánuði. Til þess að jafnræði væri hlutfallslega
þyrfti skattalækkun 300 þús. kr. launamannsins að vera 3.339 kr. minni á mánuði en hún verður í raun. Þetta eru áherslur stjórnarflokkanna, þeir sem
hafa mikið eiga að fá meira en hinir. Fjörutíu þúsund króna skattalækkun á ári umfram 2,5% hlutfallið eru skilaboð sem ekki verða misskilin. Annar
fær samtals 130 þús. kr. skattalækkun á ári, hinn fær 24 þús. kr.

Höfundur er alþingismaður í Vestfjarðakjördæmi og á sæti í fjárlaganefnd Alþingis.

Athugasemdir