Endurtekin mistök í efnahagsstjórn?

Greinar
Share

FYRIR rúmum áratug eða á árunum 1986-1988 varð mikil þensla í íslensku efnahagslífi. Ríkisstjórnin reyndi lengi að hamla á móti með því að beita
gengishækkun og háum vöxtum. Þessi millifærsla fjármagns frá útflutningi, einkum sjávarútvegi, til þess að greiða niður innflutning og halda þannig aftur
af verðbólgu dugði ekki til lengdar og að endingu brast ríkisstjórnarsamstarfið og Sjálfstæðisflokknum var beinlínis hent út úr stjórnarráðinu. Ný
ríkisstjórn varð að grípa til neyðaraðgerða til þess að afstýra stórfelldu hruni útflutningsatvinnuveganna. Þá brást hagstjórnin undir forystu
Sjálfstæðisflokksins, margar aðgerðir ríkisvaldsins beinlínis kyntu undir þenslunni og síðan virtist flokkurinn vera um of bundinn í pólitískum kreddum
sem komu í veg fyrir að gripið væri til viðeigandi aðgerða.

Þensla á nýjan leik

Á síðustu árum hefur efnahagsstjórnunin verið þannig að stefnt hefur beina leið í þenslu. Nú er ástandið orðið þannig að ríkisstjórnin verður að grípa til
ákveðinna aðgerða ef ekki á illa að fara og fjármálaráðherrann skynjar hættuna og ritar í Morgunblaðið 13. júní sl. grein í því skyni að slá á ótta manna
um að efnahagsmálin séu að fara úr böndunum. Ráðherrann boðar sölu á eignum ríkisins en jafnframt að ekki verði beitt niðurskurði á næsta ári
umfram það sem nú er og tekur sérstaklega fram að útgjöld verði aukin til fjárfrekra málaflokka eins og velferðar- og menntamála. Þessar aðgerðir eru
ekki líklegar til þess að slá á þensluna og vekja þá spurningu hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki kjark nú fremur en fyrir áratug til þess grípa til
viðeigandi aðgerða í þensluástandi.

Stefnt í óefni

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með stjórn efnahagsmála í 7 ár og það sem einkennir stjórn þeirra einkum síðustu 2-3 ár eru eftirfarandi þrjú
atriði: Í fyrsta lagi markvisst afnumin úr lögum ákvæði sem hvetja til sparnaðar. Skyldusparnaður var afnuminn og einnig skattaívilnun vegna
húsnæðissparnaðarreikninga. Loks hefur verið dregið úr skattaívilnum vegna hlutafjárkaupa og henni verður hætt innan tveggja ára. Allt eru þetta
skilaboð til almennings um að hætta að spara. Einkennileg stefna í þjóðfélagi þar sem sparnaður er of lítill. Í öðru lagi verulegar skattalækkanir.
Tekjuskattur lækkar um 4% og iðgjöld í lífeyrissjóði, önnur 4% af launum, eru nú skattfrjáls. Efra þrep eignarskatts hefur verið fellt niður og
tekjuskattur fyrirtækja hefur lækkað úr 50% í 30% svo nefnd séu helstu dæmin. í þriðja lagi hefur gífurlegum fjárhæðum, einkum í formi erlends
lánsfjár, verið dælt inn í efnahagslífið með framkvæmdum við stóriðju og orkuver sem kalla á mikinn mannafla. Allt eru þetta aðgerðir sem stuðla
aukinni eyðslu og þegar við bætist að á þessum tíma gætir einnig áhrifa kjarasamninga með umtalsverðum kauphækkunum umfram verðlagsbreytingar
er efnahagsstjórnin ávísun á þenslu og erfiðleika í kjölfar hennar, háa vexti, viðskiptahalla og hækkandi gengi. Viðskiptahallinn er þegar orðinn það
sem áætlað var að hann yrði allt árið og verðlag innanlands fer hækkandi bæði á vörum og þjónustu. Útlán bankanna hafa aukist um 14% síðustu 12
mánuði og viðskipti með debet/kreditkortum hafa aukist enn meira eða um 20%. Með hækkun gengisins eru færðir peningar frá útflutningsfyrirtækjum
til þess að greiða niður innlenda verðbólgu. Þessi aðferð getur gengið til skamms tíma og hækkun á afurðaverði sjávarafurða um þessar mundir hjálpar
til en til lengdar stefnir í óefni rétt eins og árin 1987-88. Þarna hefur efnahagsstjórnin brugðist og öðru sinni á rúmum áratug er Sjálfstæðisflokkurinn að
stefna efnahagslegum stöðugleika í voða. Athyglisvert er að nú eins og þá er Framsóknarflokkurinn samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins.

Mistökin endurtekin?

Við þessar aðstæður skipta sköpum aðgerðir ríkisvaldsins i peningamálum og fjármálum ríkissjóðs. Ef ekki á illa að fara þarf að draga út úr hagkerfinu
miklar fjárhæðir og slá þannig á þensluna. Hægt er að beita þvinguðum sparnaði og stuðla að frjálsum sparnaði með sérstökum aðgerðum. Þá er hægt
að hækka skatta, einkum þar sem þenslunnar gætir, svo sem á innflutningsvörum, og loks að fresta fyrirhuguðum skattalækkunum. Hægja þyrfti á
fjárfrekum framkvæmdum sem fjármagnaðar eru með lánsfé.

Það eru hins vegar hverfandi líkur til þess að gripið verði til nægilega ákveðinna aðgerða til þess að hamla móti þenslunni. Forysta Sjálfstæðisflokksins
mun ekki vilja hverfa frá boðuðum skattalækkunum á kosningaári og enn síður hækka skatta. Í fjárlögum yfirstandandi árs voru settar í gang fjárfrekar
framkvæmdir með lánsfé til viðbótar stóriðjuframkvæmdunum svo ekki er líklegt að ríkisstjórnin fresti framkvæmdum. Lýsir það óvenju ábyrgðarlausri
fjármálastjórn, en það voru líka kosningar á þessu ári og uppsveifla í þjóðfélaginu með hraðri kaupmáttaraukningu er vænleg til þess skila
ríkisstjórnarflokkum atkvæðum í kosningum. Stjórn efnahagsmála mun einkennast af því að of lítið verður gert of seint. Helst má vænta þess að seld
verði hlutabréf í ríkisbönkunum, sem er ágætt út af fyrir sig en ófullnægjandi efnahagsaðgerð. Notuð verður gamla millifærsluaðferðin frá síðasta áratug
með háu gengi og háum vöxtum. Síðan vonast eftir því að útflutningsatvinnuvegirnir þoli þetta ástand fram yfir næstu kosningar. Komin er upp svipuð
staða og var fyrir áratug. Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekkert hafa lært af mistökunum frá 1986- 1988.

Höfundur er þingmaður Alþýðubandalagsins.

Athugasemdir