Kjölfesta félagshyggjufólksins.

Greinar
Share

Hver er sérstaða þíns framboðs?

Á Vestfjörðum verða a.m.k. sjö framboð að þessu sinni, þar af fimm framboð sem kenna má við félagshyggju, auk framboða Kvennalista og Sjálfstæðisflokks. Sundrung félagshyggjuaflanna er athyglisverð, bæði Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur eru klofnir í kjördæminu, en við þessar aðstæður er boðinn fram samhentur listi Alþýðubandalags og óháðra, G-listinn. Með því sýnir Alþýðubandalagið fram á að það er sú kjölfesta sem félagshyggjufólk hefur á að treysta gegn hægri öflunum og staðfestist þar með að á Vestfjörðum er Alþýðubandalagið helsti andstæðingur íhaldsins. G-listinn gengur til þessara kosninga með meiri og ítarlegri málefnavinnu en nokkru sinni áður og skilur þar aðgjörlega á milli hans og annarra framboða. Grundvöllur að stefnu listanna er ítarleg tillögugerð undir yfirskriftinni atvinna, jöfnuður, siðbót.

Hvert er helsta baráttumálið?

Í þessari kosningabaráttu leggur G-listinn sérstaka áherslu á 10 stefnuatriði sem kynnt eru undir yfirskriftinni framtíðarstefna, atvinnustefna og velferðarstefna. Með þessu áhersluatriðum leggur Alþýðubandalagið áherslu á nýja framtíðarsýn, þar sem frjáls þjóð í frjálsu landi nýtir möguleika sína af þekkingu og dugnaði. Þetta á ekki síst við okkur hér á Vestfjörðum, þar sem atvinnulífið tekur hverja kollsteypuna á fætur annarri og forsvarsmenn atvinnulífsins hafa því miður sumir hverjir reynst vanhæfir að aðlaga sig breyttum tímum í atvinnulífinu. Eftir langvarandi pólitíska forystu íhaldsins þarf að endurreisa atvinnulífið og koma því á heilbrigðan grundvöll. Velferðarmál eru fyrirferðarmikil á Vestfjörum sem annars staðar svo og skatta- og húsnæðismál. En engan þarf að undra að G-listinn á Vestfjörðum leggur ríka áherslu á að tryggja íbúum sjávarplássanna rétt til fiskveiða og vinnslu. Það segir sig sjálft en til viðbótar verður að nefna samgöngumál. Þar hafa unnist góðir áfangar undanfarin ár og áfram skal haldið á þeirri braut. En nánar er áherslan svona:

G-listinn leggur áherslu á aukinn jöfnuð í þjóðfélaginu, m.a. jöfnuð karla og kvenna og jöfnuð óháð búsetu. G-listinn leggur áherslu á mótun nýrrar launastefnu, þar sem lægstu laun hækki verulega og að tekið verði sérstaklega á launamálum kvenna. G-listinn leggur áherslu á að komið verði á réttlátara skattkerfi og 5-7 milljarðar króna verði þannig fluttir til lág- og miðtekjuhópa. G-listinn leggur áherslu á að menntun verði sett í öndvegi, tekið verði á húsnæðismálum, siðbót í stjórnsýslu og á einfaldara og ódýrara stjórnkerfi. Þá leggur G-listinn áherslu á að fiskurinn í sjónum verði sameign allrar þjóðarinnar og réttur til nýtingar auðlindarinnar verði hjá fólkinu í byggðunum allt í kringum landið.

viðtal við Kristin H. Gunnarsson
Tíminn 10. mars 1995

Athugasemdir