Í sjóðakerfi Sjálfstæðisflokksins.Sægreifar á sóknarmarki.

Greinar
Share

Sl. föstudag ákvað bæjarstjórn Bolungarvíkur að selja Bakka hf. hlut sinn í útgerðarfyrirtækinu Ósvör hf. Sú ákvörðun og aðdragandi málsins hefur vakið miklar deilur. Vil ég í stuttu máli varpa ljósi á nokkrar skuggahliðar þessa máls.

Aflaheimildir einkavæddar.

Með sölunni færast yfirráð um 90% af veiðiheimildum staðarins frá almenningshlutafélagi til einkaaðila. Hér er verið að einkavæða aflaheimildirnar. annað dæmi um svona einkavæðingu eða jafnvel einkavinavæðingu er einkaleyfi til kúfiskveiða á stórum miðum sem sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins veitti fyrir skömmu vini sínum og frambjóðanda flokksins á Vestfjörðum. Hér verður Sjálfstæðisflokkurinn að svara því af hverju hann er á móti því að aflaheimildir séu á forræði almenningshlutafélaga og beitir sér sérstaklega fyrir því að koma lífsbjörginni úr höndum almennings til örfárra útvalinna? En á því leikur enginn vafi að Sjálfstæðisflokkurinn á Vestfjörðum sem annars staðar á landinu vill ekki að eignarhaldið á þessari auðlind sé hjá þjóðinni, heldur stendur flokkurinn sameinaður að því að einkavæða eignahaldið, stofna sægreifavald.

Sóknarmark útvalinna.

Leiðin til að ná þessu markmiði er að búa til opinberan sjóð, leggja honum til fé af skattfé almennings og útdeila síðan þessum peningum til útvalinna eftir skrýtnum reglum sem eiga lítið skylt við rekstrarleg sjónarmið en eru þeim mun meir í ætt við sérstaka pólitíska fyrirgreiðslu. Því miður virðist hin nýja pólitíska forysta Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum ekki hafa siðferðilegt þrek til að beita sér fyrir almennum aðgerðum til þess að gera sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að mæta miklum samdrætti í þorskveiðum og greiða úr skuldunum sem söfnuðust á hávaxtaskeiðinu og fastgengistímanum á árabilinu 1984-1988, heldur knýr fram að stofnaður er nýr sjóður og á hann er sett sóknarmark útvalinna.

Sértæk fyrirgreiðsla.

Vestfjarðaaðstoðin svonefnda með 300 milljónum króna er úrræði Sjálfstæðisflokksins í vanda vestfirskra sjávarútvegsplássa. Þar fá sumir sem þurfa en aðrir ekki. Það er ekki heildstæð lausn heldur sértæk fyrirgreiðsla. Í Bolungarvík var veifað ávísun upp á 100-110 milljónir króna til þess að ná fram einkavæðingunni. hinn nýi sægreifi tekur enga áhættu og þarf ekki að borga. Hann fær allt fyrir ekkert. Ríkið borgar.

Kristinn H. Gunnarsson.

DV 22. mars 1995.

Athugasemdir