Byggðastofnun úthlutar 500 tonna þorsaflahámarki, helmingur til Vestfjarða.

Greinar
Share

Á fundi stjórnar Byggðastofnunar þriðjudaginn 12. desember sl. var afgreidd tillaga um úthlutun á 500 tonna þorskaflahámarki til krókabáta. Tildrög þessa er að samþykkt var á Alþingi í júní sl. að fela Byggðastofnun að ráðstafa þessum aflaheimildum, 500 tonnum miðað við óslægðan fisk. Skal Byggðastofnun ráðstafa árlega næstu 4 árin aflaheimildum til krókabáta á þorskaflahámarki sem gerðir eru út frá byggðalögum sem eru algerlega háð veiðum slíkra báta og standa höllum fæti. Því ætti ekki að neita að umrætt lagaákvæði var umdeilt og t.d. stjórnarandstaðan sýndi litla hrifningu yfir tiltækinu og ennfremur að ákvæðið er ekki skýrt og nokkur höfuðverkur að móta úthlutunarreglur. Niðurstaða við að úthluta að hámarki 10 tonn á bát eða 25% aukningu á þorskaflahámarkinu sem fyrir er.

Sjö sveitarfélög töldust uppfylla skilyrði laganna, þar af þrjú á Vestfjörðum. Síðan gerðist það að eini báturinn sem skráður var í Mýrarhreppi var fluttur í annað sveitarfélag og féll þá Mýrarhreppur út af listanum. Að endingu var svo úthlutað til 500 báta í 6 sveitarfélögum og sést úthlutunin hér að neðan: Eins og sjá má af þessu nýtis viðbótin best þar sem bátar eru ekki með mikinn afla hver en síður þar sem bátar hafa hver um sig miklar veiðiheimildir. Þetta er í samræmi við þá stefnu að bæta þeim frekar upp samdrátt sem hafa ekki mikið fyrir. Með þessari tillögu er úthlutað 420 tonnum af 500 tonnum sem til ráðstöfunar eru og samtals 20% viðbót við aflaheimildir þessara byggðalaga. Það sem umfram er gæti komið til úthlutunar síðar ef þessar upplýsingar reynast ekki réttar.

Staður Fj. báta Þorskafla- Tillaga um Hlutfallsleg
hámark viðbót viðbót

Tálknafjörður 12 582,7 112,9 19,4%
Suðureyri 13 737,2 117,8 16,0%
Árneshreppur 1 33,3 8,3 24,9%
Grímsey 8 518,7 68,8 13,3%
Bakkafjörður 11 286,6 69,1 24,1%
Borgarfj. eystri 5 181,9 43,1 23,7%

Samtals: 50 2340,4 420 17,9%

Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður

Vestfirðingur 21. desember 1995

Athugasemdir