Umdæmanefnd Vestfjarða – tillögur úr takt við veruleikann

Greinar
Share

Tillögur Umdæmanefndar Vestfjarða um sameiningu sveitarfélaga á Vestfjörðum eru vægast sagt úr takt við veruleikann. Þær eru á skjön við forskrift að tillögugerð, sem gefin er í lokaskýrslu sveitarfélaganefndar frá því í mars sl. og þær eru líka úr takt við þau skilaboð sem nefndin fékk frá sveitarstjórnum, þeim aðilum sem Umdæmanefndin samkvæmt lögum ráðgaðist við. Það kann ekki góðri lukku að stýra að lögboðin nefnd hunsi ráðgjafa sína og taki ekki mið af því víðtæka samkomulagi milli stjórnmálaflokka og hagsmunaðila sem gert var. Nefndinni var ekki ætlað að vinna á eigin forsendum, heldur samkvæmt gerðu samkomulagi.

Engin trúir að slík fyrirheit verði efnd.

Það skýrir hvers vegan tillögur nefndarinnar eiga svo litlu fylgi að fagna. Tillögurnar eru einfaldlega óraunsæjar. Allar tillögurnar eiga það sameiginlegt að samgönguerfiðleikar gera það útilokað að hin nýju sveitarfélög geti orðið til. Það er óraunsæi að leggja til að byggðarlög sem eru samgöngulega aðskilin geti orðið eitt sveitarfélag. Það er líka óraunsæi að halda að hægt sé að telja fólki trú um að ríkið muni svo einhvern tíma seinna ryðja úr vegi þeim farartálmum. Það fæst enginn til þess að trúa því að slík fyrirheit verði efnd, jafnvel þótt ráðherrar gefi þau fyrirheit – sem reyndar er ekki raunin nú – hvað þá að einhver trúi því að efndir verði, þegar Umdæmanefndin gefur slík fyrirheit.

Auk þess háir tillögum Umdæmanefndarinnar, hér sem annars staðar á landinu, þar sem jafnóraunsæjar tillögur hafa verið gerðar, að tillögurnar eru gerðar út frá einhverjum gefnum forsendum um aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins og ógerðu samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um verkefnaskiptingu og tekjustofna.

Ekkert samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga og ekki hægt að vita um hvað á að kjósa.

Það þýðir einfaldlega, að sá sem á að kjósa um tillögu um sameiningu margra sveitarfélaga veit ekki hvað verður. Hann veit ekki hvaða verkefni hið nýja sveitarfélag á að hafa, né hvaða tekjustofna það á að fá. Ekkert samkomulag hefur verið gert milli ríkis og sveitarfélaga um þessi atriði. Það var verkefni Sveitarfélaganefndar, en ekki tókst að ljúka því. Einfaldlega náðist ekki samstaða um það hvaða verkefni ættu að flytjast né hvaða tekjur. Því var annarri nefnd, svonefndi Samráðsnefnd, falið að gera tillögur um verkefnaflutning og tekjustofna. Sú nefnd mun ekki skila tillögum fyrr en eftir eitt ár.

Óvissan er of mikil.

Eitt enn sem hamlar framgangi tillagna Umdæmanefndar: Ekki liggur fyrir neitt samkomulag milli sveitarfélaganna, sem lagt er til að sameinist, hvernig málum verði skipað í hinu nýja sveitarfélagi. Það er ekki einu sinni svo að það hafi verið rætt. Óvissan er of mikil um hvað verður og um efndir ríkisins, til þess að nokkur von sé til þess að fólk samþykki sameiningu nú.

Hvergi er nægjanlegur stuðningur frá þeim sem nefndinni bar að hafa samráð við.

Þau atriði sem fyrst voru nefnd, að Umdæmanefndin hafi ekki farið að því sem henni var sett fyrir, er rétt að skýra nokkrum orðum. Það fyrra er, að Umdæmanefndin hafi ekki tekið mið af sjónarmiðum sveitarstjórnarmanna. Í lögunum sem samþykkt voru sl. vor segir: „Hlutverk Umdæmanefnda er að gera tillögu að nýrri skiptingu hvers landshluta í sveitarfélög í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir.“ Og í athugasemdum sem fylgdu með lagafrumvarpinu stendur: „Umdæmanefndirnar ættu með tilliti til góðrar staðarþekkingar og samráðs við viðkomandi sveitarstjórnir að geta gert skynsamlegar tillögur sem væru í samræmi við vilja íbúanna.“ Þótt þau hafi efalaust verið eitthvað mismunandi, skilaboðin sem Umdæmanefndin fékk frá einstökum sveitarstjórnum og einstökum sveitarstjórnarmönnum, þá liggur það borðleggjandi fyrir að hvergi var nægjanlegur stuðningur við þær tillögur sem Umdæmanefndin gerði, hvar sem borið er niður. Í Strandasýslu voru skilaboðin það skýr frá þeim sem Umdæmanefndin ráðfærði sig við skv. lögum að engar líkur eru á að það verði samþykkt að sameina sýsluna í eitt sveitarfélag. Sama má segja um norðanverða Vestfirði og V-Barðastrandarsýslu. Tillögurnar sem Umdæmanefndin gerði ganga í berhögg við þau skilaboð sem nefndin fékk frá þeim sem hún leitaði ráða hjá. Þess vegna eru tillögurnar úr takt við veruleikann.

Nefndin vann ekki samkvæmt þeim reglum sem henni bar.

Hitt atriðið sem Umdæmanefndin hunsaði er forskriftin að tillögugerð, en hana er að finna í skýrslu Umdæmanefndar. Sú forskrift er þannig:

Við FYRSTU tillögugerð um sameiningu sveitarfélaga verði eftirfarandi markmið höfð að leiðarljósi (lokaskýrsla bls. 28) og síðan eru markmiðin talin upp og eru í meginatriðum þau, að stefnt verði að því að íbúar verði ekki færri en 1000, sveitarfélagið geti myndað heildstætt samfélag, heildstæð atvinnusvæði og heildstæð þjónustusvæði. Það þarf ekki að skoða lengi tillögur Umdæmanefndar til þess að sannfærast um að ekki er farið að þessum ráðum. Árangurinn er líka eftir því. Tillögurnar eru þannig að engan veginn er hægt að rökstyðja þær, hvað þá styðja þær. Tillögurnar eru nefnilega úr takt við veruleikann.

Kristinn H. Gunnarsson.

Vestfirska fréttablaðið 23. september 1993.

Athugasemdir