Með lögum skal land byggja – stundum

Pistlar
Share

Nýkjörið Alþingi er skipað nýju fólki í meira mæli en nokkru sinni fyrr. Það er löngum verið haft á orði að nýir vendir sópa best og vafalaust eru mörg dæmi unnt að tilfæra því til stuðnings. Nýju vendirnir á Alþingi eru teknir til við að sópa út af borðinu því sem áður hefur verið talið svo naglfast að aldrei myndi losna – að lög gildi ekki aftur í tímann. Bann við íþyngjandi afturvirkni laga hefur hingað til verið grundvallaratriði í túlkun dómastóla á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur hefur í ýmsum dómum áréttað að Alþingi geti ekki sett íþyngjandi ákvæði í lög gagnvart borgurum landsins.

Óumdeilt hefur verið að Alþingi geti sett lög og rýmkað afturvirkt rétt svo sem hækkað bætur almannatryggingar en öðru máli gegnir þegar skerða á réttindi. Þá stöðvar bann við afturvirkni laga slíkt áform varðandi liðinn tíma. Skerðingar geta því aðeins gilt fram í tímann.
Dæmi um þetta eru mýmörg. Nefna má t.d. réttindi í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þau réttindi, sem starfmenn ávinna sér, hafa löngum verið meiri en iðgjöldin standa undir. Því hefur safnast upp skuld sem ríkið stendur í byrgð fyrir og verður að greiða. Breytingar sem fyrirhugað er að gera og breytingar sem hafa verið gerðar ná aðeins til framtíðarinnar. Engin löggjöf um þetta efni kveður á um að skerða réttindin afturvirkt. Jafnvel þótt það sé freistandi fyrir fjármálaráðherra á hverjum tíma að strika út mörg hundruða milljarða króna skuldbindingu ríkissjóðs með einni löggjöf þá hefur enginn lagt í það til þessa.

Lögum ekki framfylgt

Nýju vendirnar hafa brugðist á alveg nýtt ráð. Þegar svo vill til að löggjöf er á annan veg en til stóð skal lögum ekki framfylgt. Lög sem samþykkt voru 13. október 2016 – það er fyrir Alþingiskosningarnar – og tóku gildi 1. janúar 2017 – það er eftir Alþingiskosningar – gerðu ýmsar breytingar á almannatryggingunum. Í ljós kom að samkvæmt nýju lögunum myndi greiðslur úr lífeyrissjóðum ekki skerða ellilífeyri. Upp varð bæði fótur og fit í velferðarráðuneytinu og Tryggingarstofnun ríkisins. Hefur komið fram opinberlega að ráðuneytið hafi falið Tryggingarstofnun að láta eins og lögin væri ekki eins og þau voru samþykkt á Alþingi heldur eins og þau hefðu átt að vera. Með öðrum orðum þá var lögunum sópað undir teppið – með nýju vöndunum og látið eins og ekkert sé. Þetta er alveg ný lagaframkvæmd á Íslandi. Lög eru ekki það sem samþykkt er heldur það sem samþykkt hefði átt. Ellilífeyrisþegar fengu því ekki ellilífeyri sinn greiddan að fullu þrátt fyrir óumdeild ákvæði laga. Með lögum skal lands byggja – stundum.

Lögum breytt afturvirkt

Annar kaflinn í sögu nýju vandanna hófst svo í febrúar 2017. Þegar liðnir voru nærri tveir mánuðir síðan nýju lögin tóku gildi var flutt frumvarp til þess að "leiðrétta þessi lagatæknilegu mistök þar sem miklir hagsmunir eru í húfi." Þar voru mættir allir borgaralegu flokkarnir Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Björt framtíð. Ný lög voru samþykkt þar sem "leiðréttingin" var látin ná aftur til áramóta. Afturvirkni laganna er annað afrek nýju vandanna. Þar er lagatúlkuninni snúið við. Í stað þess að einstaklingarnar, borgararnir njóti verndar gegn ríkinu með banni við afturvirkni laga þá er látið eins og ríkið þurfi vernd gegn óhóflegum útgjöldum til gamals fólks og sú vernd er sótt með lögum eftir á.

Þetta er auðvitað pólitísk verkefni að koma í veg fyrir að aldraðir einstaklingar fái ellilífeyri sinn óskertan af greiðslum úr lífeyrissjóði hvers og eins. Þetta varða fjóra tugi þúsunda einstaklinga og hver mánaðargreiðsla er 5 milljarðar króna. Þetta heitir leiðrétting á máli þessara flúnkandi nýju sópa rétt eins og það sé fullkomlega út í hött að gamalt fólk fái ellilífeyri sem það hefur með skattgreiðslum sínum á langri starfsævi unnið sér inn fyrir.

Ísland verst

Á upplýsingavef um lífeyrismál er að finna athyglisverðar niðurstöður starfshóps sem bar saman lífeyriskerfi og samspil þess við opinbera kerfið í fimm löndum, Íslandi, Bretlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð. Sláandi eru þær upplýsingar að Íslenska kerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr opinbera kerfinu. Ísland er jafnframt eina landið þar sem lífeyrir úr opinbera kerfinu fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk. Það væri kannski rétt að nýju vendirnar færu í heimsókn til þessara landa og reyndu að tala um "leiðréttingu" og sópuðu svo þessari villu sinni út af borðinu í eitt skipti fyrir öll.

Kristinn H. Gunnarsson.

Leiðari í blaðinu Vestfirðir 30. mars 2017

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir