Kjósendur blekktir

Pistlar
Share

Nýjustu axarsköft ríkisstjórnarinnar eru þau að kasta samgönguáætluninni út um gluggann. Áætlunin var samþykkt fáum vikum fyrir Alþingiskosningarnar á síðasta ári og nú að þeim afloknum er látið eins og yfirlýsing þingisins til kjósenda hafi verið siðlaus skrípaleikur að því er fjármálaráðherrann lét sig hafa að segja í útvarpsþætti í vikunni.

Mikil reiðibylgja hefur farið um landið þegar ljóst varð hvað ríkisstjórnin ætlar sér. Samgönguráðherrann er þegar byrjaður að bila í vörninni fyrir niðurskurðinn og sagði í Kastljósi Ríkissjónvarpsins að ef til vill yrði lagt til að breyta fjárlögum ársins og auka fjárveitingar til vegamála á þessu ári. Nú þarf almenningur að reka flóttann og gera ríkisstjórninni ljóst að ástand í samgöngumálum er svo alvarlegt að ekki verður lengur þolað að ríkisstjórnin og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn dragi lappirnar í uppbyggingu samgöngukerfisins.

Allt síðasta kjörtímabil var samgönguáætlun hornreka þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þrisvar var lögð fram samgönguáætlun án þess að ljúka verkinu og tryggja brýnum framkvæmdum nauðsynlegt fjármagn. Það var ekki fyrr en Alþingiskosningarnar voru handan við hornið og Sjálfstæðisflokkurinn, sem fór með samgöngumálin, var kominn með bakið upp að vegg að það tókst að draga samgönguályktunina í gegnum þingið eins og hverja aðra illa sútaða nautshúð. Frammistaða síðustu ríkisstjórnar er slík hneisa að engin fordæmi eru til fyrir viðlíka lítilsvirðingu við málaflokkinn og íbúa landsins, að ekki sé sagt íbúa landsbyggðarinnar.

Niðurskurður og vanfjármögnun árum saman

Það er mikill misskilningur hjá fjármálaráðherra Engeyjarættarinnar að ákvörðun Alþingis í október 2016 hafi verið siðlaus. Öðru nær. Samgönguáætlunin var ábyrgð og leitast var við að bæta í ótrúlegum vandræðum sem Sjálfstæðisflokkurinn verður að axlaábyrgð á umfram aðra flokka.
Það kom fram í meðförðum Alþingis að á árunum eftir hrun og þá sérstaklega eftir að efnahagslífið fór að taka við sér á nýjan leik með stórlega vaxandi ferðaþjónustu hafi samgöngukerfið verið vanfjármagnað og fjárveitingar síðustu árin svo knappar að ekki hafi verið hægt að halda í horfinu.
Fjórðungssamband Vestfirðinga vakti athygli Alþingis á þessu í sérstakri umsögn sinni um samgönguáætlunina í apríl á síðasta ári. Þar segir:

"Fjórðungssamband Vestfirðinga lýsir hinsvegar miklum áhyggjum hversu hægt gangi
að auka fjármagn til samgöngumála frá efnahagshruni 2008. Auk mikils niðurskurðar í
nýframkvæmdum, þá er ástand þjóðvegakerfis orðið slæmt, ef ekki alvarlegt, vegna
lækkunar á fjármagni til viðhalds og endurbóta. Á Vestfjörðum er að auki verið að
glíma við viðhald á stofnvegum sem eru enn án bundins slitlags."

Það var loks í september 2016 sem málið var afgreitt út úr þingnefnd og nefndin virðist hafa áttað sig á alvarlega málsins því í áliti nefndarinnar til þingsins tekur hún efnislega undir athugasemdir Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Nefndin bendir á að markaðir tekjustofnar til vegagerðar hafi ekki hækkað í samræmi við breytingar á verðlagi. Því séu tekjurnar aðeins 16 milljarðar sem renni til samgöngumála en ekki 23 milljarðar eins og ætti að vera. Sögulega séð hafa framlög til samgöngumála verið um 1,5% af vergri landsframleiðslu. Það jafngildir um 35 milljörðum króna miðað við landsframleiðslu þessa ári. Frá hruninu 2008 hafa framlögin verið mun lægri og voru í fyrra aðeins 1,1%. Munurinn á því og sögulegu meðaltali er um 10 milljarðar króna.

Enn undir sögulegu meðaltali

Þingnefndin lagði til að hækka framlögin í 1,3% af vergri landsframleiðslu næstu tvö árin og Alþingi samþykkti það. Það er samt undir meðaltalinu.
Þetta var siðleysið sem seinni Engeyingurinn í fjármálaráðuneytinu var að tala um. Hann og aðrir ráðherrar tala eins og að fjárveitingar til samöngumála séu svo miklar að það sé út yfir allt velsæmi. Staðreyndin er önnur. Þvert á móti fjárveitingarnar eru að vísu út yfir allt velsæmi en aðeins á þann veg að vera of litlar, vel undir meðaltali og hafa verið það svo lengi að vegfarendum stafar hætta af. Það er siðleysið í málinu að byggja ekki upp vegakerfið sómasamlega. Það á ekki að skera frekar niður fé til samgöngumála heldur auka það.

Reiðin stafar af því að almenningur gerir sér grein fyrirþví að þarf þarf átak til uppbyggingar og það skynjuðu þeir sem eru við völd og töluðu á öðrum nótum fyrir kosningar.

Blekkingarvaðallinn

Í stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins sem samþykkt var fyrir þingkosningarnar segir :
"Við viljum veita stórauknu fjármagni til viðhalds á vegakerfi landsins. Fjárfesta þarf í samgöngumannvirkjum, flutningskerfi raforku, fjarskiptabúnaði og löggæslu."

Það er núna lýðum ljóst að forystumenn flokksins meintu ekkert með þessu orðagjálfri. Þeir líta greinilega á samgöngumálin sem útgjöld sem þurfi að hafa sem lægst. Þeir sjá eftir hverri krónu í málaflokkinn. Viðreisnardeild Sjálfstæðisflokksins talar á sömu nótum. Það er þessi vísvitandi blekking sem gerir almenning ævareiðan. Það var bara verið að spila með atkvæðin fyrir kosningarnar. Það er þessi léttúð gagnvart kjósendum sem er alvarleg. Kjósendur vilja trúa stjórnmálamönnunum og yfirlýsingum þeirra en sjá nú að þeir hafa verið hafðir að fíflum. Því verður ekki gleymt í bráð. Að því eiga stjórnarflokkarnir eftir að komast.

Leiðari í blaðinu Vestfirðir 9. mars 2017

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir