Landsbyggðarskattur útgerðarmannanna

Pistlar
Share

Í aðdraganda Alþingiskosninganna mátti enn einu sinni sjá og heyra hræðsluáróður útgerðarauðvaldsins í þeim búningi að veiðigjöldin, sem ríkið innheimtir fyrir veittan einkarétt til veiða á Íslandsmiðum, væru landsbyggðaskattur. Áróðurinn gengur út á að deila álögðum veiðigjöldum niður á kjördæmi landsins og halda því fram að íbúar landsbyggðarinnar séu að greiða þessar fjárhæðir suður og sér ekki til gagns.

Gjald á arðinn en ekki landsbyggðina

Í þessum málefnasnauða hrærigraut er margt ógeðfellt, ósatt og ómerkilegt. Veiðigjöld eru ekki lögð á brúttótekjur útgerðarinnar heldur framlegðina. Frá tekjunum er dreginn allur breytilegur kostnaður við veiðarnar hverju nafni sem hann nefnist. Frá framlegðinni er tekin væn fúlga til þess að standa straum af fjárfestingu. Það sem þá eftir stendur er auðlindarðurinn. Veiðigjaldið er innheimt af þessum arði. Veiðigjaldið hefur því engin áhrif á rekstur fyrirtækjanna, eykur ekki kostnað þeirra né lækkar tekjur. Veiðigjaldið skiptir auðlindaarðinum milli fyrirtækisins og eigandans, ríkisins. Ríkið tekur hluta en eigendur fyrirtækisins fá stærstan hlutinn. Auðlindaarðurinn er 35-45 milljarðar króna á ári og síðustu árin hefur ríkið innheimt 7 – 12 milljarða króna af því. Á þessu fiskveiðiári er veiðigjaldið um 7 milljarðar króna.

Veiðigjaldið er ekki lagt á starfsmenn útgerðarfyrirtækjanna, það er ekki lagt á íbúa sjávarbyggðanna og það er ekki lagt á sveitarsjóðina. Veiðigjaldið minnkar hagnað eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna . Það jafngildir ekki því að gjaldið sé tekið frá íbúum landsbyggðarinnar. Eigendurnir ráða því hvað þeir gera við arðinn sem fyrirtækið myndar með starfsemi sinni. Það er enginn trygging fyrir því að þeir verji fénu í heimabyggð ef ríkið myndi fella niður veiðigjaldið. Sumt af arðinum hefur ratað í fjárfestingu í öðrum atvinnugreinum, í öðrum landshlutum og jafnvel í öðrum löndum. Yrði veiðigjaldið fellt niður yrðu íbúar landsbyggðarinnar ekkert með meiri peninga á milli handanna.

skatturinn sem útgerðin leggur á starfsmennina

Það er mikill misskilningur að halda að útgerðarmenn séu að verja landsbyggðina fyrir gjaldtöku í ríkissjóð. Öðru nær þeir eru að verja sjálfa sig fyrir sanngjarnri skiptingu arðsins milli útgerðar og þjóðarinnar. Þeir eru líka að verja kvótakerfið sem þeir nota blygðunarlaust til þess að ganga á laun og kjör starfsmanna sinna og færa sjálfum sér herfangið. Kjarninn í kerfinu er forræðið yfir veiðiheimildunum . Það er í höndum útgerðarmanna ótímabundið og öll ráð þeirra sem starfa í sjávarútvegi, einkum útgerð eru í höndum eigenda fyrirtækjanna. Þessa stöðu hafa þeir nýtt sér til þess að greiða lægra verð fyrir fiskinn er fæst á markaði.

Í nýgerðum kjarasamningum segir skýrt og skorinort að útgerðarmenn skuli fá fiskinn með 20% afslætti. Samið er um að greidd verði aðeins 80% af því verði sem fæst fyrir fiskinn á fiskmarkaði. Með þessu undirverði eru sjómenn hlunnfarnir um 20% af kaupinu sínu. Það er fært til útgerðarinnar. Það er stóri landsbyggðarskatturinn. Frá launþegum til útgerðar, frá landsbyggðarfólki til fárra hluthafa.

skatturinn sem útgerðin leggur á íbúana

Útgerðin leggur hiklaust skatta með óbeinum hætti á íbúa í byggðarlögunum sem þeir verða að bera möglunarlaust. Með framsali veiðiheimilda út byggðarlögunum hafa útgerðarmenn iðulega kollvarpað atvinnulegu og búsetu forsendum og valdið íbúunum alvarlegu fjárhagslegu tjóni. Í kjölfar þess að nokkrir stórútgerðarmenn landsins fluttu lungann af kvóta Vestfirðinga úr fjórðungnum til annarra landshlutaá árunum 1997-1999 féll fasteignaverð á Vestfjörðum um 27% af raungildi. Fyrir hverja fjölskyldu sem átti íbúð á þeim tíma varð þetta milljóna tjón. Það urðu menn að bera bótalaust. Auðvitað hefði átt að innheimta skatt af viðskiptunum með veiðiheimildirnar og nota tekjurnar til þess að bæta tjónið sem viðskiptin leiddu af sér. Það var ekki gert og útgerðarmannaliðið gefur ekki einseyring af sínu til fólksins á Vestfjörðum. Þeim þykir ekki meira vænt um fólkið á landsbyggðinni en þetta þegar á reynir.

skatturinn sem útgerðin leggur á aðra útgerðir

Útgerðin leggur líka skatt á aðrar útgerðir. Það er gert í gegnum leigu og sölu á aflaheimildum. Verulegur hluti veiðiheimildanna gengur kaupum og sölum á hverju ári. Verðlagningin á sér stað á markaði og því er vitað hvað einn útgerðarmaður er tilbúinn að greiða öðrum fyrir réttinn til þess að nýta hann. Leiguverðið endurspeglar það sem útgerðarmenn telja sig eiga eftirþegar búið er að greiða reksturinn við útgerðina. Á þessu fiskveiðiári hafa verið leigðr 8.630 tonn af þorski og greitt fyrir einn milljarð króna. Meðalverðið er 211 kr/kg. Á sama tíma er veiðigjaldið 14 kr/kg. Leigugjaldið sem útgerðin í Bolungavík eða í Hnífsdal innheimtir af útgerð á sama stað eða annar staðar á landinu er margfalt hærra en veiðigjald til ríkisins og samt er það ekki kallað landsbyggðarskattur.

Þetta opinberar betur en margt annað hráskinnaleik útgerðarinnar og undirferli hennar gagnvart kjósendum og íbúum landsbyggðarinnar. Hið sanngjarna í þessu máli er að auðlindaarðurinn renni að verulegu leyti til þess að bæta lífskjör landsbyggðarfólks í sjávarbyggðunum. Þar á arðurinn með réttu heima.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir